14. nóvember 2025

Valkvæð óráðsía

Hvort skynsamlegast sé fyrir hið opinbera að fjármagna nauðsynlega samneyslu með lægri sköttum og minni ríkisumsvifum eða aukinni skattbyrði og opinberu valdboði er sígrænt deilumál stjórnmálanna. Það er sennilega borin von að vinstrið og hægrið nái saman í þeim efnum á næstunni. Aftur á móti getum við líklega flest verið sammála um að þegar ytri áföll dynja á þjóðarbúinu er rétt að ríkið beiti sér og reyni eftir fremsta megni að milda höggið. Slík inngrip eru þó sjaldnast ókeypis.

Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Vinstri-grænna dundi hvert áfallið yfir á eftir öðru. Snemma árs 2019 varð flugfélagið WOW Air gjaldþrota, um ári síðar skall á heimsfaraldur með sínum umfangsmiklu afleiðingum og vart var búið að hrósa sigri í baráttunni við veiruna þegar Rússar gerðu innrás í Úkraínu 2022. Snjóflóð féll á Flateyri, aurskriða á Seyðisfirði og krapaflóð á Patreksfirði. Loks mörkuðust árin 2023 og 2024 af jarðhræringum og eldgosum á Reykjanesi sem enn sér ekki fyrir endann á. Beinn kostnaður ríkissjóðs vegna þessara áfalla hljóp á hundruðum milljarða króna. Allt var þá til þess gert að takmarka tjón og stuðla að hraðari viðspyrnu heimila og fyrirtækja samfélaginu öllu til hagsbóta, sem tókst.

Sumir hafa þó séð tilefni nú til að gera lítið úr viðbragðinu og talað um að á þessum tíma hafi ríkt „óstjórn í ríkisfjármálum“. Undir sérstakri umræðu um stöðu efnahagsmála á Alþingi í síðustu viku sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra að síðasta ríkisstjórn hefði „rekið ríkið á yfirdrætti, tekið lán og pumpað út peningum“ og þannig „misst stjórn á efnahagsmálum“. Þegar áföllin dundu yfir íslenska þjóð á sínum tíma kallaði hún þó sjálf hvað hæst eftir því að ríkið gerði enn meira og eyddi enn meira fjármagni en þá var gert.

Þrátt fyrir allt er staðreyndin sú að grunnrekstur ríkisins hefur verið jákvæður frá árinu 2023. Fyrir rúmu ári var jafnframt útlit fyrir að hægt yrði að ná hallalausum fjárlögum strax árið 2025 þótt slíkt krefðist vissulega styrkrar stjórnar í ríkisfjármálum. Hin meinta óstjórn var ekki meiri en svo. Ummæli forsætisráðherra ættu því að dæma sig fyllilega sjálf.

Hallalaus ríkissjóður er ekki fjarlægur draumur heldur er þvert á móti innan seilingar stæði vilji ríkisstjórnarinnar til þess. Ekki er úr vegi að stefna að afgangi af rekstri ríkisins strax á næsta ári en þar liggur metnaður ríkisstjórnarinnar ekki.

Stóryrtar yfirlýsingar um óráðsíu annarra í fortíð sem eiga sér fyrst og fremst stoð í neyðarviðbragði fyrir þjóðina bera ekki vott um sanngjarna eða skynsamlega nálgun og samanburð ríkisfjármála. Ef það var „óráðsía“ að reka ríkissjóð með halla í gegnum heimsfaraldur og náttúruhamfarir, hvað má þá kalla það í dag – óðaóráðsíu?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 12. nóvember 2025.

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.