14. nóvember 2025

Léleg götulýsing býður hættunni heim

Gatnalýsing er mikilvægt öryggismál okkar og hluti af grunnþjónustu Reykjavíkurborgar. Lýsing vegur þungt í umferðaröryggi, ekki síst fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Öll viljum við sjást í umferðinni og sjá hvað er framundan, hvort sem við erum akandi, gangandi eða hjólandi. Vegfarendur þurfa að sjá vel frá sér í myrkasta skammdeginu.

Götulýsingu hefur verið ábótavant í flestum hverfum Reykjavíkur undanfarna vetur vegna ónógs viðhalds og tíðra bilana. Fjölmargir ljósastaurar eru óvirkir og dæmi um að þeir hafi verið það vikum, mánuðum og jafnvel árum saman. Stöðugar kvartanir berast frá íbúum vegna óvirkra ljósastaura, sem rekja má til vanrækslu á viðhaldi.

Óþægindi og hættur geta hlotist af ónógri götulýsingu. Gangstéttir eru víða ósléttar og sprungnar vegna vanrækslu á viðhaldi og getur því verið hættulegt að fara um þær í myrkri.

Myrkraverk í Miðbænum

Óviðunandi er að lýsingu sé ábótavant þegar kynbundið áreiti og ofbeldi færist í vöxt á götum úti um kvöld og nætur. Þá gengur ekki að heilu og hálfu göturnar í miðborginni séu án gatnalýsingar eins og verið hefur undanfarið. Ónóg götulýsing gefur misindismönnum tækifæri til myrkraverka.

Undanfarin tólf ár hefur verið unnið að sérstakri ljósvistarstefnu fyrir Reykjavík með mikilli fyrirhöfn og ærnum tilkostnaði. Í stefnunni er fjallað um ljósvist í borginni frá fjölmörgum hliðum og af mikilli speki. ,,Útgangspunktur stefnunnar er norræn skilningur á ljósi og fagurfræði ásamt áherslu á umhverfismál, öryggi, orku og rekstrarhagkvæmni,“ segir þar.

Það er sama hvað spekingar funda oft um ljósvistarstefnu ef viðhaldið verður út undan. Einungis nokkrum orðum er vikið að viðhaldi utanhússlýsingar í borginni í stefnunni og engin markmið sett fram þar að lútandi. Úr því verður að bæta ef stefnan á að koma að gagni við að bæta úr því ófremdarástandi, sem ríkir í gatnalýsingu í borginni.

Frá því ljósvistarstefnan var kynnt árið 2022, hefur götulýsingu hrakað verulega í Reykjavík. Vegna þessarar öfugþróunar vaknar sú spurning hvaða tilgangi slík stefnumótun á að þjóna. Er tilgangurinn e.t.v. sá að borgarfulltrúar meirihlutans fái tækifæri til að láta ljós sitt skína, fremur en að knýja fram raunverulegar úrbætur í málaflokknum?

Viðhald má ekki vanrækja

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn stjórnaði borginni var gatnalýsingu sinnt af miklum metnaði. Reglubundið eftirlit var með virkni götulampa og ef ábending barst um sprungna peru, átti að bregðast við innan sólarhrings.

Viðhaldi ljósastaura ætti að vera svo vel sinnt að borgarfulltrúar þyrftu ekki að láta peruskipti eða einfalt viðhald á einstökum staurum til sín taka. Svo er því miður ekki. Hef ég því flutt fjölmargar tillögur um viðgerðir á ljósastaurum, sem hafa verið óvirkir vikum, mánuðum og jafnvel árum saman.

Víðtækar bilanir á götulömpum hafa gjarnan verið skýrðar með því að ljósabúnaður sé orðinn gamall og því erfitt að fá ljósaperur í hann. Götuljósastrengir séu sömuleiðis víða orðnir gamlir.

Kveikjum á perunni!

Þessar skýringar eiga eflaust við rök að styðjast en þó hafa bilanir einnig verið þrálátar í hverfum þar sem ljósabúnaður er nýlegur.  Til dæmis er ekki hægt að skýra þráláta óvirkni á götulýsingu í Vogabyggð með áðurnefndum þáttum. Vogabyggð er nýjasta hverfi borgarinnar og ljósabúnaður og götustrengir þar glænýir. Ekki hefur fengist svar við þeirri spurningu hver sé skýringin á þrálátum bilunum götulampa í þessu nýja hverfi. Nefna má fleiri hverfi í þessu sambandi, t.d. miðborgina þar sem nokkur hundruð ljósastaurar eru nú óvirkir.

Láta þarf verkin tala í stað þess að sitja að endalausu skrafi og skýrslugerð. Brýnasta verkefni í ljósvistarmálum Reykjavíkur er að bæta peruskipti og viðhald götulampa í öllum hverfum borgarinnar. Kveikjum á perunni!


Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. nóvember 2025.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykavík.