10. nóvember 2025

Leiðtogaprófkjör 24. janúar í Reykjavík

Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík samþykkti síðdegis í dag að leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verði kjörinn í leiðtogakjöri 24. janúar nk. Tillagan var samþykkt að tillögu stjórnar Varðar í góðum samhljómi fundarmanna sem voru á þriðja hundrað talsins., en aukinn meirihluta þurfti fyrir leiðtogakjöri. 82,1% kusu með leiðtogakjöri og stillt verður upp í önnur sæti framboðslistans.

„Um alla borg loga eldar“

Albert Guðmundsson, formaður Varðar, kveðst fullur tilhlökkunar fyrir borgarstjórnarkosningum sem fram fara 16. maí á næsta ári. „Við sjáum það í skoðanakönnunum að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mests trausts borgarbúa og hefur gert það nánast allt kjörtímabilið. Um alla borg loga eldar eftir borgarstjórnarmeirihlutann og það er ljóst að fólk vill nýtt afl til valda í borginni. Enginn flokkur getur axlað þá ábyrgð eins og Sjálfstæðisflokkurinn og ég tek undir með Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanni Sjálfstæðisflokksins; Mikið svakalega hlakka ég til að taka til í ráðhúsinu,“ segir hann,

Formaður Sjálfstæðisflokksins sótti fundinn

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, sótti fund Varðar í dag og hvatti fundarmenn til dáða. Hún þakkaði stjórn Varðar fyrir sín störf og ítrekaði ánægju sína með samheldni sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þá hvatti hún sjálfstæðismenn til þátttöku í baráttunni fram undan og að þeir flykktu sér að baki þeim oddvita sem kjörinn verður 24. janúar.

„Fundurinn í dag og stemningin í Sjálfstæðismönnum er góður upptaktur inn í baráttuna framundan,“ bætir Albert við.