9. nóvember 2025

Já, ráðherra

Á dögunum kom út rit úr smiðju íslenska embættismannakerfisins sem ber þann hógværa titil „Kjölfesta í hringiðu lýðræðisins“. Ritið telur allt að 400 bls. með viðaukum og mun ég því aðeins tæpa á völdum athugasemdum við það.

Þar eru settar fram tillögur embættismanna sem lúta m.a. að því að skipunartími þeirra verði lengdur og sjálfstæði þeirra aukið – þeir verði minna háðir ráðherrum, sem bera þó ábyrgð á verkum þeirra. Embættismennirnir leggja sömuleiðis til að ráðherrar hafi minna að segja um störf þeirra og skipun, og að miðlægri skrifstofu um málefni embættismanna verði komið á fót. Þetta minnir óneitanlega á ráðuneyti James Hackers í þáttunum Já, ráðherra – en hann var einmitt ráðherra stjórnsýslumála og mátti sín að jafnaði lítils gagnvart silkimjúkum embættismönnunum.

Skoðun skýrsluhöfunda á pólitískt ráðnum starfsmönnum ráðherra skín í gegn. Þeir leggja áherslu á að þeir verði látnir víkja áður en ráðherrar láta af störfum, en auk þess er skýrslan uppfull af alls kyns ranghugmyndum um hætturnar sem felist í því að ráðherrar hafi trúnaðarmenn sína í daglegum störfum. Þá eru þar viðruð sjónarmið (eignuð ónafngreindu fólki) um hvernig ráðherrar ættu að velja sér pólitíska aðstoðarmenn. Meðal annars ættu þeir ekki að vera ungir og óreyndir og „innistæða“ þyrfti að vera fyrir ráðningunni (ólíkt því sem gerist með embættismenn?). Í viðamikilli umfjöllun um hlutverk þessara trúnaðarmanna og samanburð við önnur lönd í þeim efnum er síðan snyrtilega skautað fram hjá því að víðast hvar hafa þessir trúnaðarmenn ráðherra margföld völd og áhrif á við íslenska aðstoðarmenn. Ályktun embættismannanna er einfaldlega sú að fjöldi þeirra sé sambærilegur við það sem gerist í samanburðarlöndum og ráðherrar séu því „vel settir“ (samanburðarlöndin teygja þeir að vísu allt til Nýja-Sjálands, en það er svo annað mál).

Sú heimsmynd sem birtist í þessari skýrslu um „embættismannakerfi sem er aðgreint frá pólitískum valdhöfum“ er í raun afneitun á því lýðræðislega fyrirkomulagi sem er grundvöllur íslenskrar stjórnsýslu. Embættismannaskýrslan er að mínu mati hvorki vönduð né góð og hugmyndirnar sem þar eru settar fram eru vondar. Þar skortir alla sjálfsgagnrýni eða varkárni varðandi það gríðarlega vald sem embættismenn hafa nú þegar í íslensku samfélagi. Í því samhengi er m.a. gott að hafa í huga að embættismenn eru samkvæmt skýrslunni 1.300 talsins, en þjóðkjörnir fulltrúar eru sem kunnugt er 63 og ráðherrar enn færri.

Titillinn hefur líklega ekki átt að hljóma illa, en gerir það í ljósi efnis skýrslunnar. Lýðræðið er sem sé hringiða þar sem allt sogast niður, en embættismennirnir koma þjóðinni til bjargar – eða hvað? Við skulum hafa hugfast að þvert á móti er eitt mikilvægasta hlutverk lýðræðislega kjörinna stjórnmálamanna, allt frá upphafi lýðræðis, að hafa taumhald á valdi embættismanna (umfjöllun um það atriði vantar reyndar í langa sögulega umfjöllun skýrslunnar). Og það er ekki vanþörf á því taumhaldi hér frekar en annars staðar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. nóvember

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.