7. nóvember 2025

Viljandi villt og ófært

Í vikunni birtist fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2026. Áætlunin gerir ráð fyrir að afgangur af rekstri borgarsjóðs verði tæplega 4,8 milljarðar á næsta ári. Það verður að teljast nokkur bjartsýni enda hangir niðurstaðan á væntingum um rúmlega sex milljarða arðgreiðslur frá Orkuveitunni og fjögurra milljarða sölu byggingarréttar á næsta ári. Hér fara illa saman hljóð og mynd.

Grunnþjónusta háð álframleiðslu

Staða Norðuráls á Grundartanga er verulegt áfall fyrir marga. Þar er Reykjavíkurborg ekki undanskilin en 14% af tekjum Orkuveitunnar koma úr orkusamningum við álverið á Grundartanga – og borgin hefur um árabil reitt sig á ríflegar arðgreiðslur frá Orkuveitunni svo snúa megi rekstri borgarsjóðs til betri vegar. Það er því ljóst að skert framleiðslugeta Norðuráls getur haft bein áhrif á rekstur Reykjavíkurborgar – því ef tekjur Orkuveitunnar dragast saman uppfyllir fyrirtækið að líkindum ekki skilyrði til að greiða borginni arð.

Það er óábyrgt af borgaryfirvöldum að fara fram með yfirlýsingar um glæstan rekstur þegar vænt jákvæð rekstrarniðurstaða næsta árs stendur og fellur með væntum arðgreiðslum. Það er ekki síður óábyrgt að hafa komið rekstri borgarsjóðs í slíkar ógöngur að getan til að veita borgurunum grunnþjónustu sé beintengd framleiðslugetu álvers á Grundartanga.

Þeim sem nú reyna að leysa úr stöðu Norðuráls og samningum félagsins við Orkuveituna sendi ég baráttukveðjur. Staða þeirra er ekki öfundsverð.

Tvöfalt Fellahverfi

Rekstur borgarsjóðs hangir jafnframt á einskiptistekjum á borð við sölu byggingarréttar og eignasölu. Áætlun næsta árs gerir ráð fyrir fjögurra milljarða tekjum af sölu byggingarréttar. Það skýtur nokkuð skökku við enda snúa helstu uppbyggingaráform borgarinnar að fyrirhugaðri uppbyggingu í Keldnalandi og Úlfarsárdal – en í báðum tilfellum renna byggingarréttargjöld inn í félög sem standa utan borgarsjóðs.

Borgarstjóri kynnti í síðustu viku áform um uppbyggingu 4.000 íbúða á reit M22 í Úlfarsárdal en svæðið hefur almennt verið talið rúma 2.000 íbúðir. Virðist borgarstjóri því ráðgera ofurþéttingu á svæðinu sem samsvara mun tvöföldum þéttleika Fellahverfis í Breiðholti. Samhliða leggur borgarstjóri ríka áherslu á niðurgreitt húsnæði, félagslegt húsnæði og fjölgun leiguíbúða – enga áherslu á aukið framboð húsnæðis fyrir almenna kaupendur.

Við sjálfstæðismenn höfum áhyggjur af slæmri félagslegri blöndun í hinu fyrirhugaða hverfi enda hafa rannsóknir ítrekað sýnt hvernig börn sem alast upp í félagslega aðskildum og tekjulægri hverfum búa ekki við jöfn tækifæri – þau reynast ólíklegri til að sækja sér æðri menntun, tekjumöguleikar þeirra til framtíðar reynast skertir og félagslegur hreyfanleiki minni. Skipulag sem þetta mun fyrirsjáanlega ýta undir stéttaskiptingu og takmarka tækifæri fólks til að bæta lífskjör sín.

Um 21% af húsnæðismarkaði er nú leiguíbúðir en aðeins 8% leigjenda vilja vera á leigumarkaði. Sú áhersla borgaryfirvalda að auka hlut leiguíbúða í Reykjavík er því nokkuð sérkennileg. Við eigum mun fremur að leggja stóraukna áherslu á séreignastefnu enda séreign besta leiðin fyrir fjölskyldur að tryggja sér fjárhagslegt öryggi og stöðuga búsetu.

Breytinga er þörf

Í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun skortir alla áherslu á hagræðingu og niðurskurð. Raunar virðist eini sýnilegi niðurskurðurinn í rekstri borgarinnar snúa að takmörkuðum grasslætti og verri snjómokstri. Borgin á víst að vera viljandi villt og ófær.

Breytinga er þörf við stjórn og rekstur borgarinnar. Minnka þarf yfirbyggingu, ná fram hagræðingu í rekstri og hefja skipulega niðurgreiðslu skulda. Útvista þarf fleiri verkefnum, selja fyrirtæki í samkeppnisrekstri og leggja megináherslu á öfluga grunnþjónustu við borgarana. Einungis þannig hreyfum við nálina.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. nóvember 2025.