7. nóvember 2025

Áframhaldandi ósjálfbær rekstur borgarinnar 2026

Rekstur Reykjavíkurborgar er ekki sjálfbær þrátt fyrir hámarksskattheimtu og stórauknar tekjur. Jafnframt glímir borgin við alvarlegan skuldavanda. Samt vill vinstri meirihlutinn í borgarstjórn fara í enn frekari lántökur til að fjármagna rekstur borgarinnar.

Þetta kemur fram í frumvarpi að fjárhagsáætlun fyrir árið 2026, sem lagt var fram í borgarstjórn sl. þriðjudag. Frumvarpið sýnir að meirihluti Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna hefur engin tök á fjármálum borgarinnar.

Sjálfbærni skortir

Til að sveitarfélag geti talist fjárhagslega sjálfbært, þurfa rekstrartekjur að standa undir rekstrargjöldum, vaxtagjöldum og afborgunum langtímalána. Hjá borgarsjóði standa skatttekjur ásamt framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga ekki undir þessum gjöldum. Bilið er brúað með lóðasölu og háum arðgreiðslum frá borgarfyrirtækjum. Slíkar tekjur eru óreglulegar og er því ekki um sjálfbæran tekjur að ræða.

Borgarsjóður mun skila 382 milljóna króna rekstrarafgangi á árinu 2025 samkvæmt útkomuspá. Í fjárhagsáætlun ársins var hins vegar gert ráð fyrir rúmlega þrefalt meiri afgangi eða 1.298 milljónum.

Samkvæmt frumvarpinu er áætlað að borgarsjóður skili 4,8 milljarða króna rekstrarafgangi á næsta ári. Gert er ráð fyrir fjögurra milljarða króna tekjum af sölu byggingaréttar og rúmlega sex milljarða króna arðgreiðslum frá Orkuveitu Reykjavíkur. Ljóst er að þessi markmið byggjast á bjartsýni og lítið má út af bera til að þau náist ekki.

Óvissar tekjur

Orkuveitan hefur selt um 14% af raforku sinni til Norðuráls á Grundartanga. Erfiðleikar í rekstri Norðuráls geta því haft neikvæð áhrif á tekjur Orkuveitunnar og getu hennar til að standa undir eins háum arðgreiðslum og borgin krefst af henni. Jafnvel þótt það tækist myndi Orkuveitan samt fjármagna hinar háu arðgreiðslur með lántöku, því áætlað er að skuldir hennar aukist um tæplega átján milljarða króna á næsta ári eða um 7%.

Einnig er óljóst hvort ofangreind markmið um sölu byggingarréttar náist vegna ástands á byggingamarkaði.

Samstæða borgarinnar á að skila 14,6 milljarða króna afgangi á árinu 2025 samkvæmt útkomuspá. Þar af á matshækkun félagsíbúða borgarinnar að skila rúmlega tíu milljörðum króna á þessu ári Matshækkun félagslegra íbúða er færð sem hagnaður á rekstrarreikningi og er þar veigamikill þáttur vegna mikillar hækkunar á húsnæðisverði. Rétt er að hafa í huga að slík matshækkun er reiknuð stærð (froðuhagnaður), sem skilar ekki raunverulegum tekjum til rekstrarins. Um er að ræða bókhaldslegan hagnað en ekki peningalegan.

Mikil aukning skulda

Þróun skulda Reykjavíkurborgar gefur að mörgu leytir skýrari mynd af rekstri hennar en sjálfur rekstrarreikningurinn. Samkvæmt útkomuspá munu skuldir borgarsamstæðunnar aukast um rúmlega 27 milljarða króna á yfirstandandi ári og nema 552 milljörðum í lok þess. Áætlað er að borgarsamstæðan auki skuldir sínar um tæpa 28 milljarða króna á árinu 2026 og að þær nemi 580 milljörðum í lok þess.

Skuldir borgarsjóðs hækka um nítján milljarða króna á yfirstandandi ári samkvæmt útkomuspá og nema 223 milljörðum í árslok. Áætlað er að borgarsjóður auki skuldir sínar um rúma sex milljarða á næsta ári og að þær nemi 229 milljörðum í lok þess.

Hækkun fasteignaskatta

Gífurlegar hækkanir hafa orðið á fasteignasköttum í Reykjavík undanfarin ár vegna mikillar hækkunar á fasteignamati. Á fundi borgarstjórnar sl. þriðjudag lögðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að álagningarhlutfall fasteignaskatta yrði lækkað í því skyni að tekjur borgarsjóðs af þeim hækkuðu ekki á milli áranna 2025-2026. Einnig lögðum við til hækkun viðmiðunartekna vegna afsláttar fasteignaskatts og fráveitugjalds til elli- og örorkulífeyrisþega. Þá lögðum við til niðurfellingu gatnagerðargjalda af sameiginlegum bifreiðageymslum neðanjarðar fyrir fjölbýlishús í því skyni að hvetja til byggingar þeirra.

Vinstri meirihlutinn felldi allar þrjár tillögurnar og mega Reykvíkingar því búast við enn frekari skattahækkunum á komandi ári.


Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. nóvember 2025.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykavík.