Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ríkisstjórnin lofaði því á hveitibrauðsdögunum að setja húsnæðisöryggi fólks í forgang með bráðaaðgerðum. Nú hefur ríkisstjórnin kynnt sinn fyrsta húsnæðispakka og gefið fyrirheit um annan pakka á nýju ári. Bráðaaðgerðir eru þó hvergi sjáanlegar að þessu sinni.
Það er ástæðulaust að gera lítið úr þeim jákvæðu tíðindum sem þó leynast í pakkanum. Fyrst má nefna sinnaskipti ríkisstjórnarinnar varðandi skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán, mál sem á rætur sínar að rekja til landsfundar Sjálfstæðisflokksins árið 2013 og Bjarni Benediktsson innleiddi sem fjármálaráðherra. Fyrir aðeins tveimur mánuðum þótti ríkisstjórninni slíkt einungis fela í sér „tapaðar tekjur“ fyrir ríkissjóð. Ríkisstjórninni hefur snúist hugur og er það vel, úrræðið hefur enda nýst ófáum til að eignast meira hraðar í eigin húsnæði og létt undir greiðslubyrði heimila svo um munar.
Gallinn er hins vegar sá að margir hafa nú þegar nýtt sér úrræðið í tíu ár og ríkisstjórnin ekki léð máls á því að lengja þar í til að mæta þessum stóra og ört stækkandi hóp, þrátt fyrir að gangast heilshugar við því að þetta sé „langsamlega besta leið sem til er til að fjármagna eigin húsnæðiskaup“. Varanlega framlengingin sem ríkisstjórnin boðar er því í reynd engin. Ætti kannski frekar að tala um húsnæðisblöff þessa pakkaleiks ríkisstjórnarinnar í því samhengi.
Hvað annað innvols pakkans varðar er hvorki um fugl né fisk að ræða. Stórkarlaleg uppbygging í einu hverfi borgarinnar einhvern tímann í framtíðinni leysir ekki vandann nú. Einföldun regluverks er jákvætt markmið en útfærslan liggur ekki fyrir. Þá á að búa til vaxtaviðmið til að eyða óvissu á lánamarkaði í samvinnu við Seðlabankann. Útfærslan liggur heldur ekki fyrir og vandséð að „ríkisviðmið“ á lánum sé eðlilegt eða af hinu góða. Eins og ríkisstjórninni einni er lagið má að sjálfsögðu finna skattahækkanir í pakkanum undir fölskum formerkjum þess að loka eigi glufum og gloppum. Það má öllum vera ljóst að svoleiðis greiðir maður ekki götu uppbyggingar, þvert á móti gætu þær æfingar meðal annars leitt til hækkunar leiguverðs, þvert á yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar. Aukið fjármagn í stofnstyrkjakerfið gagnast auk þess lítið og afar takmörkuðum hópi á kostnað allra hinna.
Hve margir pakkarnir verða að endingu veit enginn en það má vona að í einhverjum þeirra leynist raunverulegar lausnir, til dæmis afnám stimpilgjalds, útvíkkuð vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins og hærri fjárhæðarmörk og lengri nýtingartími á séreignarsparnaðarúrræðinu, svo eitthvað sé nefnt. Þannig tryggjum við að fólk hafi val um að eiga eða leigja og að umhverfi húsnæðismála sé raunverulega til aðstoðar fólki að eignast nauðsynlegt þak yfir höfuðið.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. nóvember 2025.

