Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar, eða 88%, vill að skólaeinkunnir séu birtar í tölustöfum frekar en bókstöfum samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Aðeins 2,6% telja að nota eigi bókstafi en 9,4% að ekki skipti máli hvor aðferðin sé notuð.
Einkunnir eiga skilyrðislaust að endurspegla hæfni nemenda í þeim námsgreinum, sem þeir leggja stund á. Mikilvægt er að einkunnagjöf sé skýr, skiljanleg og gagnsæ. Um lykilupplýsingar er að ræða fyrir viðkomandi nemendur, kennara, foreldra, skólastjórnendur og yfirvöld.
Almenningur skilur ekki bókstafskerfið og vill ekki sjá það samkvæmt áðurnefndri könnun.
Hið opinbera á ekki að starfrækja einkunnakerfi sem fólk skilur ekki. Því er rétt að afnema kerfið og taka einkunnakerfi tölustafa upp að nýju.
Haldbærar aðferðir til að mæla árangur skólastarf þurfa að vera fyrir hendi. Að öðrum kosti er hætta á að grunnskólinn missi sjónar á því hlutverki sínu að kenna fólki grunnfærni í viðurkenndum námsgreinum.
Lengst af voru einkunnir í grunnskóla gefnar í tölustöfum, heilum eða hálfum og jafnvel í brotum. Þetta kerfi byggðist á línulegum kvarða og var einfalt, gagnsætt og flestum auðskiljanlegt. Ef nemandi fékk 8,0 í einkunn á prófi, þýddi það að hann hefði svarað 80% atriða, sem spurt var um, rétt. Allir skildu þetta einkunnakerfi.
Breyting til óþurftar
Með gildistöku nýrrar aðalnámskrár grunnskóla árið 2011 var nýtt námsmat innleitt og bókstafir kynntir til sögunnar. Nokkrum árum síðar höfðu flestir grunnskólar tekið upp bókstafskerfið og var þeim gert skylt að brautskrá nemendur samkvæmt því.
Í stað auðskiljanlegrar mælingar voru tekin upp hæfniviðmið, sem hafa skyldi að leiðarljósi við einkunnagjöf. Bókstafskerfið byggist ekki á línulegum kvarða heldur flókinni flokkun með sex einkunnum.
A-einkunn á að gefa fyrir framúrskarandi hæfni. B þýðir að nemandi hafi sýnt fram á hæfni og C að nemandi hafi sýnt fram á sæmilega hæfni eða þarfnist þjálfunar til að sýna fram á hæfni. B+ og C+ fá þeir, sem sýna færni umfram þá bókstafi en samt ekki næga fyrir næsta bókstaf. D-einkunn er gefin þegar nemandi fullnægir ekki kröfum, sem gerðar eru í C-viðmiðum.
Bókstafskerfið er óskýrt, illskiljanlegt og ógagnsætt. Kennarar eiga að hafa margvísleg viðmið um mat á lykilhæfni í huga þegar einkunnir eru gefnar samkvæmt því. Viðmiðin eru flókin og ruglingsleg. Mörg þeirra geta haft mismunandi merkingu í hugum ólíkra kennara.
Viðvarandi óánægja
Þrátt fyrir að um tíu ára reynsla sé komin á kerfið, dregur ekki úr óánægju almennings með það. Nemendur og foreldrar kvarta yfir kerfinu í stórum stíl og þeim kvörtunum linnir ekki. Þá eiga margir kennarar og skólastjórar erfitt með að skýra kerfið og tilgang þess.
Athyglisvert er að mestur stuðningur við tölustafakerfið eða 93%, mælist meðal aldurshópsins 18-29 ára, þ.e.a.s þess hóps sem enn er í námi eða hefur nýlega lokið því. Aðeins 0,6% aðspurðra í þessum aldurshópi styðja bókstafskerfið.
Ósamræmi í einkunnagjöf
Á sameiginlegum fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna í janúar sl. lagði Sóley Mjöll Ásgeirsdóttir, fulltrúi Kjalnesinga, til að gerð yrði úttekt á túlkun reykvískra grunnskóla á hæfniviðmiðum aðalnámskrár við lok 10. bekkjar. Í greinargerð með tillögunni kom fram að óánægja væri með einkunnakerfið og að augljóslega mætti greina ósamræmi í einkunnagjöf eftir skólum. Dæmi um þetta ósamræmi væru t.d. þær námskröfur, sem gerðar eru fyrir einkunnina A á milli grunnskóla. Slíkt ójafnvægi í einkunnagjöf hefði veruleg áhrif á möguleika nemenda til framhaldsnáms og ýtti undir ójöfnuð meðal ungmenna í borginni.
Höfnum kerfiskreddum
Íslendingar glíma við mikinn vanda í menntamálum og þá ekki síst í grunnskólakerfinu.
Flókið einkunnakerfi, byggt á kerfiskreddum, hefur aukið á vandann í stað þess að draga úr honum. Tími er til kominn að stjórnvöld hlusti á almenning og taki að nýju upp einkunnakerfi tölustafa, sem fólk þekkir og skilur.
Greinin birtist í Morgunblaðinu

