Gleðilegt verðmætasköpunarhaust

31. október 2025

Jens Garðar Helgason, þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Ríkisstjórnin hitti naglann á höfuðið þegar hún tilkynnti þegnum þessa lands að nú með haustskrúða náttúrunnar hæfist nýtt skeið í lýðveldissögunni; verðmætasköpunarhaust. Fyrirtæki og almenningur settu sig í stellingar, viðbúin uppskerunni. Þrátt fyrir fögur fyrirheit er ríkisstjórnin líkt og dæmigert haustveður á Íslandi. Svona í stuttu máli: Lægð með roki, rigningu, frosti; snjór og svell svo að hvergi sér í gras eða gróður.

Ríkisstjórninni til varnar þá eru sumir hlutir sem hún sjálf ræður ekki við. Samdráttur í álframleiðslu hér á landi er ekki henni að kenna. Útlit fyrir loðnuleysi brýnir aðra í röð sömu leiðis. Ástandið á Grundartanga, lokun eins af þremur ofnum Elkem eða lokun PCC á Bakka er ekki hægt að skrifa á hana heldur. Sama má segja með gjaldþrot Play sem varð til þess að beint og óbeint misstu 600 manns vinnuna. En samtals mun ofangreint minnka útflutningstekjur um a.m.k. 100–130 milljarða á næsta ári.

Getur ríkisstjórnin þá ekkert gert? Jú, svo sannarlega. Hækkun vörugjalda á bifreiðar upp á 7,5 milljarða, kílómetragjald upp á 3,5 milljarða, innviðagjöld á skemmtiferðaskip, boðaður skattur á ferðaþjónustuna, tollfrelsi minnkað á barnafatnaði, streymisveitnaskattur sem heitir „menningarframlag“ hjá ríkisstjórninni, veiðigjald sem hefur orðið til þess að á annað hundrað manns hafa misst vinnuna og þjónustufyrirtæki tengd sjávarútvegi hafa hætt starfsemi, lokað fyrir samsköttun hjóna, skrúfað fyrir að fólk geti nýtt séreignarsparnað í húsnæðiskaup, ný búvörulög sem munu hækka verð til neytenda, hækkun skatta á áfengi, prósentuhækkanir á öll gjöld umfram verðbólgumarkmið, tenging örorkubóta við launavísitölu og svona mætti lengi telja.

Þvert á móti. Skatta- og gjaldasýki þyngja róður þeirra svo um munar. Það er í besta falli broslegt að á sama tíma og allt þetta dynur á fólkinu í landinu að boðað sé „heildstæð atvinnustefna“.

Eina atvinnustefna ríkisstjórnarinnar í dag ætti að vera að draga til baka boðaðar hækkanir skatta og gjalda á atvinnulíf og almenning. Draga verulega úr ríkisútgjöldum og nýta svigrúmið til frekari skattalækkana. Þannig, og bara þannig, styður ríkisstjórnin við heimilin og fyrirtækin í landinu.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.