Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Íslendingar hafa í áratugi borið sig saman við þjóðir sem fremstar eru hvað varðar lífsgæði og efnahag íbúanna. Sá árangur náðist ekki af sjálfu sér.
Ekki er ýkja langt síðan lífskjör Íslendinga voru með þeim lökustu í heimi. Kannski hugsa einhverjir með sér að árangurinn sé sjálfsprottinn af auðugum gjöfum landsins. Auðlindir einar og sér tryggja þó alls ekki farsæld, saga Venesúela ein og sér ætti að duga þar um, en dæmin eru því miður miklu fleiri. Fyrst og fremst þarf rétt umhverfi og skýran vilja til að gera meira úr minna svo náttúruauðlindir nýtist samfélögum sem best. Þar vill oft gleymast að öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðar og framfara, nú sem þá.
Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur virðist fara fremst í flokki þeirra sem gera lítið úr þessum sannleik. Ríkisstjórnin lofaði fyrir tæpu ári að rjúfa kyrrstöðuna og vinna að aukinni verðmætasköpun, að negla niður vexti og verðbólgu og gera eingöngu skynsamlegar skattabreytingar án þess að hækka skatta á „venjulegt fólk“. Gárungarnir gantast með að árangurinn sé svo órafjarri að í stað „verðmætasköpunarhausts“ væri nær að tala um (Kristrúnar) Frosta-veturinn mikla.
Ríkisstjórnin hefur þegar hækkað skatta á eina undirstöðuatvinnugrein með neikvæðum afleiðingum víða um land, en það er ekki bara í sjávarútvegi sem blikur eru á lofti. Þegar flugfélagið Play varð gjaldþrota virtist vera svo á reiki hjá fjármálaráðherra hver skaðinn væri að skeikaði nokkrum milljörðum. Allir aðrir sjá höggið fyrir íslenska ferðaþjónustu sem þegar á í vök að verjast í harðri alþjóðlegri samkeppni. Þá hefur framleiðsla verið stöðvuð á Grundartanga sem er vonandi aðeins tímabundið högg en veldur mikilli óvissu og kostar þjóðarbúið milljarða í töpuðum útflutningsverðmætum.
Á meðan óveðursskýin hrannast upp böðlast ríkisstjórnin áfram hvað sem tautar og raular. Það á að hækka vörugjald á ökutæki sem hækkar verð og bitnar á fjölskyldum í landinu og fyrirtækjum. Það á að leggja sérstakt náttúru- og innviðagjald á hvern þann sem hyggst heimsækja ferðamannastaði í eigu ríkisins. Svo á að innheimta sérstakan menningarskatt af streymisveitum og taka upp kílómetragjald á ökutæki. Ekkert af þessu léttir undir með atvinnulífinu, rýfur kyrrstöðu eða vinnur í átt að aukinni verðmætasköpun.
Ríkisstjórn sem áttar sig ekki á að áföll og ágjöf í samfélaginu koma henni beinlínis við er ekki að vinna vinnuna sína. Ekki væla, segja spekingarnir. Ekki benda á mig, segja ráðherrarnir. Ef ætlunin er að einblína áfram á skattabrellur sem eiga að skila fleiri aurum í ríkiskassann í stað þess að skapa gott umhverfi svo fólk og fyrirtæki geti plumað sig sjálf er réttmætt að spyrja hver standi þá vörð um lífsgæðin og velferðina í landinu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. október 2025.



