Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Einkareknir fjölmiðlar eiga við ofurefli að etja, rekstur sem sogar til sín allt súrefni með milljarða forgjöf frá ríkinu – Ríkisútvarpið.
Mörgum þykir skiljanlega vænt um RÚV og sögu þess með þjóðinni í tæpa öld. Það þykir mér sannarlega. Það hefur þó ágerst að umræða um RÚV hefur nálgast trúarbrögð og óskiljanlegt að okkur auðnist ekki að eiga samtal þar sem hægt er að viðurkenna að margt sem stofnunin gerir er gott og annað síðra. Í öllu falli verður að ræða þá staðreynd að rekstrarumhverfi þess er að ganga af allri annarri fjölmiðlun dauðri. Hingað til hefur aðeins náðst nokkurs konar samstaða um að styðja þurfi sérstaklega við einkarekna miðla með beinum fjárstuðningi frá ríkinu. Í stuttu máli að vandann sem afskipti ríkisins bjuggu til skuli helst leysa með meiri ríkisafskiptum.
Sjálfstæðismenn hafa lengi haft áhyggjur af ríkisstyrkjum til einkarekinna fjölmiðla en talið þá illnauðsynlega meðan ekki eru gerðar breytingar á rekstri RÚV. Í lýðræðisríki sem kveðst hampa frjálsri umræðu er óboðlegt að ríkisvaldið úthluti fjármunum til fjölmiðla þannig að þeir eigi rekstur sinn og tilverurétt undir geðþótta ríkisstjórnar hverju sinni. Fátt er jafn hættulegt frjálsri fjölmiðlun og að vera háð valdhöfum. Eins ótrúlegt og það er raungerðust þær áhyggjur á okkar litla landi í vetur.
Valdamenn gengu svo langt að kalla eftir því að styrkir til tiltekinna fjölmiðla, t.d. Morgunblaðsins, sem ekki þóttu nógu þóknanlegir valdhöfum skyldu lækkaðir. Ekki leið á löngu þar til búið var að leggja fram frumvarp sem fól nákvæmlega það í sér og er nú orðið að lögum.
Þetta er tær birtingarmynd þess hve svona fyrirkomulag er hættulegt. Valdhafar, fullvissir um eigin stjórnvisku, refsa í raun þeim sem ekki haga sér rétt með geðþóttaákvörðunum og eigin útgáfu af réttlætinu að leiðarljósi.
Það á að vera langtímamarkmið að tryggja einkareknum fjölmiðlum ásættanlegt rekstrarumhverfi. Sjálf hef ég ásamt öðrum sjálfstæðismönnum lagt fram frumvarp sem er byggt á hugmynd Óla Björns Kárasonar þar sem geðþótti valdhafa er ekki lagður til grundvallar stuðningi heldur gagnsæjar, skýrar og hlutlausar reglur og skattaívilnanir sem koma í stað beinna ríkisframlaga. Næsta skref til að efla einkarekna fjölmiðla er að takmarka RÚV á auglýsingamarkaði, gera það að ríkisstofnun á ný og færa það alfarið á fjárlög.
Það er nauðsynlegt að velta upp hvort langtímahagsmunum lýðræðis og fjölmiðlafrelsis á Íslandi sé betur borgið með ríkisframlögum sem ákveðin eru undir pólitískum formerkjum eða með gagnsæjum stuðningi í gegnum skattkerfið. Hvort það eigi að vera pólitískar nefndir sem skammti fjölmiðlum fé eftir hentisemi eða markaður þar sem fjölmiðlar keppa frjálsir á jafnræðisgrundvelli.



