26. október 2025

Sundabraut án tafar!

Fyrstu hugmyndir um Sundabraut voru settar fram árið 1975 í tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur. Þær voru síðar staðfestar í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 1985-2005. Árin og áratugina á eftir þokaðist hins vegar lítið í málinu.

Nú hálfri öld síðar áformar Vegagerðin loks í samvinnu við Reykjavíkurborg að leggja Sundabraut milli Sæbrautar og Kjalarness. Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur, stytta vegalengdir og bæta tengingar milli svæða. Ráðgert er að hefja framkvæmdir árið 2027 og ljúka þeim 2031.

Vaxandi stuðningur

Síðustu þrjá áratugi hefur Sundabraut reynst pólitískt vandræðamál fyrir vinstrimenn í Reykjavík. Ítrekaðar óafturkræfar skipulagsákvarðanir borgarinnar hafa komið í veg fyrir ýmsa fýsilega og hagkvæma kosti í málinu. Innlegg borgarinnar við undirbúning Sundabrautar hefur almennt verið þróttlítið og fyrst og fremst til þess fallið að fækka valkostum og tefja.

Það er merkilegt með hliðsjón af vilja landsmanna. Árið 2022 birti Maskína könnun á afstöðu landsmanna til Sundabrautar. Kom í ljós að 66% aðspurðra voru hlynnt lagningu brautarinnar. Á dögunum framkvæmdi Maskína aðra könnun sem sýndi vaxandi stuðning við framkvæmdina. Samkvæmt könnuninni er nú yfirgnæfandi meirihluti landsmanna hlynntur lagningu Sundabrautar eða 76%.

Gríðarlegur samfélagslegur ávinningur

Nú liggur fyrir í samráðsgátt umhverfismatsskýrsla vegna Sundabrautar ásamt drögum að tilheyrandi aðalskipulagsbreytingu. Tveir aðalvalkostir eru lagðir til grundvallar hvað varðar þverun Kleppsvíkur milli Gufuness og Sæbrautar við Sundahöfn. Annars vegar jarðgöng og hins vegar 30 metra há brú.

Ljóst er að Sundabraut verður þjóðhagslega arðbær samgönguframkvæmd. Þegar hefur verið greindur félagshagfræðilegur ábati af framkvæmdinni en niðurstaðan leiddi í ljós, að hvort sem Sundabraut þverar Kleppsvík á brú eða í göngum mun framkvæmdin alltaf fela í sér gríðarlegan samfélagslegan ávinning og mun reynast samfélagslega hagkvæm.

Fjárfesting í framtíð Reykjavíkur

Við sjálfstæðismenn fögnum þessum áfanga í málinu og teljum nauðsynlegt að framkvæmd Sundabrautar fái kröftugan framgang. Lokaútfærslu þarf að ákvarða með hliðsjón af markmiðum um bættar samgöngur og betri tengingar en samhliða þarf að standa vörð um lífsgæði íbúa og afkastagetu Sundahafnar.

Sundabraut er fjárfesting í framtíð Reykjavíkurborgar. Hún tengir saman fólk og tækifæri og opnar á ný uppbyggingarsvæði við sundin. Brautin mun fela í sér mikinn samfélagslegan ábata og stórbæta samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins. Verkefnið er mikilvægt og framgang þess þarf að tryggja án tafar.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Greinin birtist fyrst á Vísi 25. október 2025.