24. október 2025

Milljörðum sóað með gjafagerningum

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Fúsk, fljótræði, leyndarhyggja og afglöp við meðferð almannafjár. Þessi orð koma upp í hugann við lestur úttektar Innri endurskoðunar og ráðgjafar Reykjavíkurborgar um vinnubrögð í bensínstöðvalóðamálinu svokallaða. Ljóst er að margir mikilvægir hagsmunir borgarinnar voru fyrir borð bornir við meðferð málsins. Verulega skorti á greiningu og upplýsingagjöf um ýmsa þætti málsins til borgarráðs og skipulagsráðs. Þá ríkir óvissa um hvort meðferðin hafi falið í sér brot á lagareglum um samkeppni og opinberri aðstoð. Taka þarf afstöðu til þess áður en lengra er haldið á þeirri vegferð, sem hafin var undir forystu Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili borgarstjórnar.

Borgarráð samþykkti á árunum 2021-2022 marga samninga við olíufélögin, sem áttu að fela í sér fækkun bensínstöðva í borginni um þriðjung. Olíufélögin leigðu viðkomandi lóðir af borginni samkvæmt sérstökum og tímabundnum samningum. Á þessum tíma voru sjö lóðarleigusamningar af 47 runnir út og langt liðið á nokkra til viðbótar.

Gífurleg verðmæti gefin

Samkvæmt samningunum 2021-2022 féllst borgin á að olíufélögin fengju að halda bensínstöðvalóðunum. Borgin myndi breyta skipulagi þeirra í íbúðarlóðir og gera félögunum síðan kleift að selja þar byggingarrétt með miklum hagnaði. Margar lóðanna eru afar vel staðsettar og ljóst að verðmæti þeirra er gífurlegt í þeirri húsnæðiskreppu, sem nú ríkir í húsnæðismálum í Reykjavík.

Ljóst er að Reykjavíkurborg hefði getað breytt skipulagi að vild á þeim lóðum þar sem samningar voru runnir út og selt síðan sjálf byggingarréttinn. Borgin gat einnig beðið eftir því að aðrir samningar rynnu út og staðið eins að málum þar. Á sínum tíma leigðu olíufélögin lóðirnar undir bensínstöðvar og máttu að óbreyttu ekki ráðstafa þeim til annars.

Þess í stað fengu olíufélögin uppbyggingarheimildir á kostakjörum á umræddum lóðum. Félögin fengu þannig gífurleg verðmæti án minnstu fyrirhafnar og er í raun um gjafagerninga að ræða.

Mikil gagnrýni kemur fram á vinnubrögð í bensínstöðvalóðamálinu í skýrslu Innri endurskoðunar og ráðgjafar eins og áður segir. Ljóst er að mistök voru gerð við sjálfa samningagerðina og mikið skorti á að vandað væri til verka við að greina lagalega og hagræna þætti hennar. Samningagerðin og framkvæmdin voru ómarkvissar og verulega skorti á undirbúning og gagnsæi í málinu.

Málefnaleg sjónarmið skorti

Talið er að skort hafi á málefnaleg sjónarmið og rökstuðning að baki áðurnefndum ákvörðunum. Markmiðin hafi ekki alltaf verið skýr og borgaryfirvöld ekki tryggt hagsmuni borgarinnar nægjanlega. Ákvæði um uppsagnarfresti, skilyrði uppbyggingar og verðlagningu á byggingarrétti voru hvorki gagnsæ né tryggðu borginni jafnfræði gagnvart viðsemjendum. Byggingarréttargjöld voru ekki metin með samræmdum hætti og þannig má áfram telja. Þá fengu fulltrúar í borgarráði ekki fullnægjandi sérfræðiráðgjöf og greiningu til að byggja ákvarðanir sínar á.

Mikil leyndarhyggja ríkti um samningana á sínum tíma og voru margir þeirra lagðir fyrir borgarráð í sumarleyfi borgarstjórnar. Fengu borgarráðsmenn einungis að kynna sér samningana í skamma stund í lokuðu gagnaherbergi. Var sagt að strangur trúnaður yrði að ríkja um samningana að kröfu viðsemjenda, en þeir kannast þó ekki við að hafa krafist þess.

Úrbætur eru aðkallandi

Skýrsla innri endurskoðunar er áfellisdómur yfir stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og er brýnt að koma í veg fyrir að slíkt fúsk geti endurtekið sig. Í úttektinni eru lagðar fram tólf tillögur að úrbótum í því skyni að bæta starfsemi og stjórnsýslu borgarinnar. Mikilvægt er að þeim tillögum verði fylgt eftir án tafar.

Eftir stendur að meirihluti vinstri flokkanna í borgarstjórn tók pólitíska ákvörðun um að  Reykjavíkurborg, sem á við mikil fjárhagsvandræði að stríða, skyldi afhenda öflugum fyrirtækjum mikil verðmæti, varla undir ellefu milljörðum króna, á silfurfati.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. október 2025.