13. október 2025

Hver ætlar að bjarga börnunum?

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Það var átakanlegt að hlusta á mæður sem stigu fram í fjölmiðlum á dögunum með neyðarákall vegna vímuefnavanda barnanna sinna. Þær lýstu algjöru úrræðaleysi í þessari stöðu, en meðferðin sem stæði börnunum til boða væri eins konar leikrit. Börn sættu þar litlu eftirliti og neyttu jafnvel vímuefna og strykju reglulega.

Stjórnmálamenn hafa flestir lært tungutakið tengt fíknisjúkdómnum. Þeir tala gjarnan um að vímuefnavandinn sé heilbrigðisvandi og að hann eigi heima í heilbrigðiskerfinu. En sömu einstaklingar virðast ekki ná utan um viðfangsefnið. Fíknisjúkdómur er lífshættulegur sjúkdómur og fái sjúklingar ekki viðeigandi meðferð, getur það verið dauðadómur.

Fjölskyldurnar bera byrðarnar

Hvernig má það vera að við sættum okkur við að börnin okkar þjáist og deyi án þess að fá viðeigandi meðferð? Án þess að við gerum allt sem við getum til að bjarga þeim?

Mæðurnar eru ekki tilbúnar til að horfa á eftir börnunum sínum og eru því á leið út fyrir landsteinana í meðferðarúrræði á eigin kostnað. Íslendingar geta fengið opinbera aðstoð til að fara í efnaskipta- og liðskiptaaðgerðir erlendis, en þegar kemur að vímuefnavanda barna bera fjölskyldur þeirra byrðarnar.

Hefur orðið viðhorfsbreyting?

Fjölskyldan mín þekkir álagið á aðstandendur vel. Úrræðaleysið, skilningsleysið og vanmáttinn. Harminn og angistina sem seytlar út í alla kima og lætur engan fjölskyldumeðlim ósnortinn eða óskaddaðan. Og það er þyngra en tárum taki að á meira en 20 árum skulum við ekki vera komin lengra í þessum málaflokki, þrátt fyrir þá viðhorfsbreytingu sem á að hafa orðið í garð fólks með vímuefnavanda.

Undirrituð hefur ítrekað lagt fram, ásamt hópi þingmanna, tillögu til þingsályktunar Alþingis um viðhlítandi þjónustu vegna vímuefnavandans. Með tillögunni er heilbrigðisráðherra m.a. falið að greina þá hópa sem fá ekki viðhlítandi þjónustu vegna fíknar sinnar og koma með tillögur að úrbótum. Stjórnvöld þurfa hreinlega að taka ábyrgð á þessu ástandi og koma börnunum okkar til bjargar áður en það verður of seint.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. október.