Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Þrátt fyrir að hægt sé að koma í veg fyrir nánast öll tilfelli leghálskrabbameins með skimun og bólusetningu er sjúkdómurinn enn banamein margra kvenna. Með markvissu átaki má hins vegar ná til þeirra kvenna sem ekki hafa þegar verið bólusettar og með aukinni vitundarvakningu getum við saman stigið afgerandi skref í þá átt að útrýma sjúkdómnum.
Konur sem fæddar eru fyrir árið 2000 fengu ekki HPV-bólusetningu í æsku og eru því útsettar fyrir veirunni. Þessu þarf að breyta. HPV-veiran veldur ekki aðeins leghálskrabbameini heldur einnig öðrum alvarlegum krabbameinum og bólusetning hefur reynst bæði örugg og árangursrík. Svíar hafa sett sér það metnaðarfulla markmið að útrýma nýgengi leghálskrabbameins og ættu Íslendingar að feta í þeirra fótspor. Við höfum bæði þá þekkingu sem til þarf og nauðsynleg úrræði. Til þess þarf að leggja fram skýra áætlun, tryggja samstöðu og ekki síst fjármögnun svo engin stúlka eða kona verði út undan.
Góðgerðarfélagið Lífskraftur hefur sett af stað átak með það að markmiði að safna fé svo hægt sé að bjóða öllum konum á aldrinum 25-37 ára bólusetningu, þeim sem uxu úr grasi áður en bólusetningar urðu almennar. Staðreyndin er sú að fyrir aðeins eina milljón króna er hægt að bólusetja um 100 konur en til samanburðar hafa um 15 konur greinst með leghálskrabbamein á þessu ári og er meðferðarkostnaðurinn á bilinu 2-5 milljónir króna. Það má með sanni segja að forvarnir séu þjóðhagslega hagkvæmar.
Það skiptir þó ekki síður máli hvernig við sem samfélag styðjum við fólk sem hefur greinst með hvers kyns krabbamein. Má þar sérstaklega benda á endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðina Ljósið sem hefur sannað gildi sitt. Þar fá einstaklingar líkamlegan, andlegan og félagslegan styrk til að endurheimta lífsgæði sín.
Ljóst er að slík úrræði spara samfélaginu stórar fjárhæðir til lengri tíma. Í hagkvæmniúttekt um Ljósið sem kom út fyrir tveimur árum kemur fram að árlegur ávinningur hins opinbera er um einn milljarður króna en það er um þrisvar sinnum meira en Ljósið fær frá ríkinu. Núverandi ríkisstjórn skar á viðbótarframlag sem Ljósið fékk á síðasta ári þrátt fyrir að Krabbameinsfélagið bendi á að spár gera ráð fyrir 63 prósent aukningu nýrra tilfella og þar af 96 prósent lifenda. Hvert á allt þetta fólk að sækja endurhæfingu í von um að komast aftur út á vinnumarkaðinn og endurheimta hefðbundið líf?
Bleikur október minnir okkur á að við getum öll lagt okkar af mörkum. Með því að kaupa bleiku slaufuna styðjum við rannsóknir og forvarnir gegn þessum mikla skugga sem krabbamein er og þá getum við einnig, með stuðningi við átak Lífskrafts, tryggt að næstu kynslóðir íslenskra kvenna þurfi aldrei að óttast leghálskrabbamein.

