7. október 2025

Skipulagðar umferðartafir meirihluta borgarstjórnar

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Það ætti að vera keppikefli allra stjórnmálamanna að taka sem flestar ákvarðanir, sem létta venjulegu fólki lífið. Sumar ákvarðanir eru hins vegar til þess fallnar að flækja líf fólks og gera það erfiðara en þörf er á.

Nýleg þrenging gatnamóta Höfðabakka og Bæjarháls er dæmi um framkvæmd, sem hefur flækt hversdagslíf fjölmargra Reykvíkinga og gert það erfiðara. Þrengingin hefur í för með sér umferðaröngþveiti á gatnamótunum og stórauknar umferðartafir á stóru svæði í austurhluta borgarinnar.

Svo virðist sem vinstri meirihlutinn í borgarstjórn hafi ráðist vísvitandi í umrædda þrengingu í því skyni að tefja fyrir umferðinni. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðust hins vegar eindregið gegn þrengingunni. Ekki þurfti eldflaugafræðing til að sjá að hún myndi draga úr umferðarflæði og valda óþarfa töfum á umferð.

Ekkert samráð

Ráðist var í þrenginguna án samráðs við ýmsa aðila, sem hún hefur neikvæð áhrif á. Ekki var haft samráð við Íbúasamtök Árbæjar þrátt fyrir að ljóst væri að breytingin myndi hafa hvað mest áhrif á íbúa þess hverfis. Ekki var haft samráð við slökkviliðið þrátt fyrir að það starfræki slökkvistöð skammt frá gatnamótunum og þurfi oft að senda bifreiðar í neyðarakstri um þau. Ekki var heldur haft samráð við atvinnufyrirtæki í Hálsahverfi, en mörg þeirra dreifa vörum sínum daglega um allt höfuðborgarsvæðið og hafa hingað til treyst á umrædd gatnamót til þess. Þá var ekki haft samráð við Strætó bs. um þrenginguna, sem hefur valdið miklum töfum á ferðum strætisvagna.

Lykilgögnum haldið leyndum

Við undirbúning þrengingar gatnamóta Höfðabakka og Bæjarháls var verkfræðistofan Cowi fengin til að greina áhrif af mismunandi útfærslum væntanlegra breytinga. Cowi skilaði skýrslu um málið í desember 2024 og þar kom skýrt fram að lokun beygjuakreina myndi lengja bílaraðir og valda stórauknum umferðartöfum á gatnamótunum.

Augljóst er að greining Cowi um gatnamót Höfðabakka og Bæjarháls var lykilgagn þegar kom að því að meta afleiðingar hugsanlegra breytinga þar. Þrátt fyrir það var greiningin ekki kynnt fyrir kjörnum fulltrúum í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur, þegar ákvörðun var tekin um þrenginguna 26. marz 2025. Var umrædd greining ekki lögð fram í ráðinu fyrr en 3. september, sem var við fyrirspurn sjálfstæðismanna, rúmum fimm mánuðum eftir að ákvörðun var tekin. Voru framkvæmdir við þrengingu gatnamótanna þá langt komnar.

Óviðunandi stjórnsýsla

Mikið vald felst í meðferð upplýsinga. Embættismenn geta haft mikil áhrif á ákvörðun í opinberri stjórnsýslu með stýringu upplýsinga til kjörinna fulltrúa, sem taka ákvarðanir. Góðir embættismenn leggja sig fram um að veita sem bestar upplýsingar um fyrirliggjandi úrlausnarefni, svo kjörnir fulltrúar geti áttað sig á hugsanlegum afleiðingum ákvörðunar og tekið upplýsta afstöðu. Þannig hljóta mál rétta og sanngjarna afgreiðslu.

Það er hins vegar ekki góð stjórnsýsla að mata kjörna fulltrúa á einhliða upplýsingum, þ.e.a.s. aðeins gögnum, sem þjóna vilja og skoðunum embættismanna og/eða pólitísks meirihluta hverju sinni. Eða að veita kjörnum fulltrúum ekki aðgang að gögnum um mál, sem gætu haft ,,óæskileg“ áhrif á væntanlega ákvarðanatöku. Sumir embættismenn virðast líta svo á að stjórnmálamenn eigi aðeins að ,,stimpla“ ákvarðanir, sem hinir fyrrnefndu hafi þegar tekið.

Mikilvægt er að upplýsingagjöf til kjörinna fulltrúa sé vönduð enda bera þeir ábyrgð á pólitískum ákvörðunum. Í lögum og samþykktum er kveðið á um að upplýsa þurfi mál nægilega til að kjörnir fulltrúar geti tekið upplýsta afstöðu til þeirra.

Í þessu máli voru borgarfulltrúar ekki upplýstir um lykilgögn, þriggja mánaða gamla verkfræðilega greiningu á áhrifum mismunandi breytinga á umræddum gatnamótum þegar ákvörðun var tekin. Því miður eru fjölmörg fleiri dæmi um slaka upplýsingagjöf til borgarfulltrúa. Slík stjórnsýsla er óviðunandi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. október 2025.