Spegill, spegill herm þú mér

2. október 2025

'}}

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Vitur maður sagði eitt sinn að móteitrið við verðbólgu væri vel þekkt, vandinn væri vöntun á pólitískum vilja til verksins. Það er ekki nóg að segjast ætla að ræsa vélarnar, munda sleggjuna og boða enn eitt planið einhvern tímann seinna. Lausnirnar eru til, þær þarf bara að framkvæma.

Á meðan vandamálin eru hunsuð eða það sem verra er, fólki talin trú um að unnið sé að lausnum þegar fátt gæti verið jafn fjarri lagi, stigmagnast vandinn. Á morgun segir sá lati uns vandræðin eru orðin svo umfangsmikil að óumflýjanlegt er að grípa til róttækra og jafnvel sársaukafullra aðgerða. Þegar vandamálin eru alvarleg eru einu alvörulausnirnar að öllum líkindum einnig óvinsælar með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á fylgið, að minnsta kosti til skamms tíma.

Það er því auðvitað freistandi fyrir ráðamenn að verja tímanum frekar í að leita annarra og vinsælli lausna sem fallið gætu í kramið hjá kjósendum. Hugsanlega er þetta einmitt það sem talsmönnum ESB gengur til, að þreyja þorrann og halda ESB að kjósendum þar til réttar aðstæður skapast. Þangað til er tjaldað til með öllum frösunum; efnahagslegur stöðugleiki, stöðugt verðlag og lágir vextir fáist keyptir erlendis frá gegn smávægilegu framlagi í sameiginlega sjóði ESB. Ef aðeins það væri svo einfalt.

Á endanum kemur þó alltaf að skuldadögum, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Þá er mikilvægt að þær aðgerðir sem ráðist er í geri ekki illt verra heldur séu af grunni sem við þekkjum af góðu til að skila raunverulegum árangri. Slíkt gerist þó allra síst af sjálfu sér. Þegar til kastanna kemur er nauðsynlegt að tryggja að raunverulegar lausnir geti hlotið brautargengi og þar skiptir höfuðmáli að virða staðreyndir.

Þrátt fyrir síbylju um annað hefur íslenska krónan til að mynda verið meðal stöðugustu gjaldmiðla síðastliðinn áratug og verður ekki kennt um verðbólgu dagsins í dag. Gjaldmiðlar gera enda lítið annað en að endurspegla innri og ytri aðstæður þjóðarbúsins. Á Íslandi eru það ekki síst launahækkanir, langt umfram það sem hagkerfið getur staðið undir til lengri tíma, sem valda verðbólgu, óstöðugu rekstrarumhverfi fyrirtækja og jafnvel sífelldri aukningu ríkisútgjalda. Ef laun halda áfram að hækka um umfram innistæðu gefur sig eitthvað að lokum. Gjaldmiðillinn leiðréttir óhjákvæmilega slíkt ójafnvægi ef ekkert annað kemur til, svo sem að leiðréttingin eigi sér stað í formi aukins atvinnuleysis, með tilheyrandi kostnaði fyrir þau heimili sem fyrir því verða.

Til er lausn sem skapar grunn að stöðugu verðlagi og skaplegu vaxtastigi. Lítum til að mynda til Norðurlandanna og þess hvernig þau með skynsamlegum hætti taka mið af getu hagkerfisins til launahækkana – í stað þess að leita að ómöguleika í iðrum ESB.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. október 2025.