Hið opinbera veltir næstum annarri hverri krónu

29. september 2025

'}}

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, var rekið með 170 milljarða króna halla á árinu 2024. Tapið nam 3,7% af vergri landsframleiðslu (VLF) þess árs að því er fram kemur í nýbirtum tölum Hagstofu Íslands.

Tekjur hins opinbera jukust um 114 milljarða króna eða 6,1%  milli áranna 2023-2024, á verðlagi hvors árs. Útgjöldin jukust hins vegar um 182 milljarða eða 9,2%.

Um helming þessarar útgjaldaaukningar má skýra með beinum útgjöldum ríkisins vegna eldgosa og jarðhræringa við Grindavík, sem námu yfir 87 milljörðum króna á árinu. Var því fé varið til uppkaupa á fasteignum í Grindavík, uppbyggingu varnargarða ásamt húsnæðis- og vinnumarkaðsstuðningi vegna náttúruvár.

Opinber útgjöld 47% af VLF

Tekjur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, námu 1.989 milljörðum króna á árinu 2024. Nema þessar tekjur 43,3% af vergri landsframleiðslu, samanborið við 42,9% árið 2023.

Heildartekjur ríkissjóðs námu alls 1.435 milljörðum króna árið 2024 og jukust um 5% á milli ára. Tekjur sveitarfélaga jukust hins vegar um 9,2% og námu alls 616 milljörðum króna.

Skatttekjur hins opinbera jukust um 8,1% á árinu 2024 þegar á heildina er litið.

Útgjöld hins opinbera námu 2.158 milljörðum króna árið 2024 eða sem nemur um 47% af VLF. Til samanburðar voru útgjöld hins opinbera 1.976 milljarðar króna árið 2023 eða 45,2% af VLF.

Útgjöld ríkissjóðs jukust um 9,9% á millli ára, útgjöld sveitarfélaga um 6,1% og útgjöld almannatrygginga um 9,1%.

Lægri vaxtagjöld

Heildarskuldir hins opinbera námu 4.110 milljörðum króna í árslok 2024 eða 89,6 af vergri landsframleiðslu. Þar af námu skuldir ríkisins um 76,5% en skuldir sveitarfélaga 13,2%.

Vaxtagjöld hins opinbera námu 212 milljörðum króna á árinu 2024 eða 10,4% af hreinum útgjöldum þess. Lækkuðu vaxtagjöldin um 13,6% á milli ára.

Útgjaldaþensla ríkis og sveitarfélaga hefur verið viðvarandi mörg undanfarin ár og nú veltir hið opinbera næstum annarri hverri krónu í landinu. Ef svo heldur sem horfir, verður þess ekki langt að bíða að útgjöld hins opinbera verði rúmlega helmingur landsframleiðslunnar.

Stóraukin skattheimta?

Uppi eru hugmyndir um ný verkefni upp á mörg hundruð milljarða króna til viðbótar þeim útgjöldum, sem hið opinbera hefur þegar skuldbundið sig til að greiða. Þessar hugmyndir verða ekki fjármagnaðar nema með auknum álögum á almenning.

Ekki skortir viljann til stóraukinna útgjalda og þar með skattheimtu hins opinbera hjá ýmsum þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum. Fylgjendur sósíalísks þjóðskipulags vilja að stjórnmálamenn taki til sín sem stærstan hluta af tekjum fólksins og skammti því síðan eftir þörfum, sem þeir skilgreina.

Enn finnast stjórnmálamenn, sem telja að helsta erindi sitt sé að hækka skatta. Þrátt fyrir að íslenskir bíleigendur greiði nú þegar einhverja hæstu skatta í heimi, eru uppi áform um að þyngja þá skattbyrði með nýjum gjöldum í því skyni að fjármagna óarðbæra borgarlínu og jarðgöng víða um land. Endurskoða verður slík verkefni og hlífa almenningi við auknum álögum.

Ná þarf jafnvægi að nýju

Viðvarandi útgjaldavöxtur hefur leitt til þess að heildarútgjöld hins opinbera, sem hlutfall af landsframleiðslu, er nú líklega hæst á Íslandi meðal aðildarríkja OECD. Brýnasta verkefni stjórnmálanna er að ná tökum á opinberum útgjöldum og koma rekstrinum í jafnvægi að nýju. Með því að koma böndum á opinber fjármál myndu þau styðja við verðstöðugleika í landinu í stað þess að ógna honum.

Hallarekstur og skuldsetning hins opinbera eru afar óæskileg enda stuðla þau að verðbólgu og vaxtahækkunum og leggja byrðar á komandi kynslóðir.

Opinber útgjöld hafa vaxið með óábyrgum hætti mörg undanfarin ár. Ríki og sveitarfélög verða að grípa til víðtæks aðhalds og sparnaðar í því skyni að stöðva útgjaldaþensluna og gera opinber fjármál sjálfbær að nýju.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. september 2025.