Charlie þá og nú

25. september 2025

'}}

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Fyrir áratug lýstu ótal Íslendingar því yfir að þeir „væru Charlie“ eða „je suis Charlie“. Ástæða þess var sú hryllilega hryðjuverkaárás sem beindist að starfsfólki blaðsins Charlie Hebdo sem hafði birt skopmyndir af Múhammeð spámanni. Árásarmennirnir upplifðu grínið sem alvarlega svívirðingu við sín gildi og réttlættu þannig voðaverkin. Árásin uppskar mikil viðbrögð í hinum vestræna heimi þar sem hver um annan þveran vildi standa upp fyrir tjáningarfrelsi skopmyndateiknaranna og „vera Charlie“.

Síðan hefur það ítrekað sýnt sig að það er býsna flókið að vera Charlie og það jafnvel gleymst. Grínistar hafa fengið yfir á sig reiðiöldur á samfélagsmiðlum fyrir óviðeigandi grín sem einmitt getur strítt gegn þeim gildum sem við höfum sett okkur hér á landi. Eins auðvelt og okkur flestum fannst að verja rétt skopmyndateiknara til að gera grín að spámanni annarrar trúar hefur reynst erfiðara að verja sama rétt þegar gildismatið færist nær heimahögum. Þar er þó enginn dómstóll dómbær og það verður einfaldlega að verja rétt allra til að segja sína brandara. Sumt er ósmekklegt, rætið og jafnvel varasamt en við lendum í miklum ógöngum um leið og viðbragðið verður að hlæja einfaldlega ekki að hinu óviðeigandi gríni heldur vilja fordæma það og banna.

Um það snerist það að vera Charlie fyrir áratug og ætti að gera enn.

Í upphafi mánaðarins var sú umræða glædd á ný þar sem hrikalegt morðið á öðrum Charlie, Charlie Kirk, hefur orðið að táknmynd afar viðkvæmrar og flókinnar umræðu um tjáningarfrelsið. Charlie Kirk var ekki að gera grín en hann hélt á lofti skoðunum sem ganga gegn gildum fjölda fólks. Svo mjög að vangaveltur um frelsi hans til að tjá skoðanir sínar hafa heyrst og áberandi er að viðbrögð litast talsvert af því „hvorum megin línunnar“ fólk stendur í einstaka skoðunum í stað þess að snúast um algild, sameiginleg gildi málfrelsis. Það er því miður ansi stutt í orð eins og skoðanakúgun, þöggun og hatursorðræðu þegar í raun er um að ræða skoðanaskipti sem verða að eiga rétt á sér. Það er sömuleiðis mikið áhyggjuefni að ráðamenn í Bandaríkjunum noti kyndil tjáningarfrelsis Kirks til að tempra tjáningarfrelsi þeirra sem eru annarra skoðana. Það á enginn að óttast um öryggi sitt vegna skoðana sinna eða ofbeldis eða þöggunar af hálfu valdhafa.

Grunngildi stýrast ekki af fyrirvörum eða skoðunum hverju sinni. Tjáningarfrelsi er ekki búbót heldur hornsteinn í frjálsu samfélagi. Ef við stöndum með gildum okkar þá stöndum við vörð um réttindi allra, líka þeirra sem við erum ósammála, líka þeirra sem við fordæmum og jafnvel fyrirlítum. Ef við gerum það ekki þá fylgjum við ekki gildum heldur hentistefnu. Þá einfaldlega molna þær dýrmætu stoðir sem við reisum samfélagið á.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. september 2025.