Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Við þingmenn ræddum á dögunum frumvarp fjármálaráðherra í tengslum við fjárlögin, bandorminn svokallaða. Þar gerði ég m.a. að umtalsefni tillögu ráðherrans og ríkisstjórnarinnar um lækkun sóknargjalda. Tillagan kom mér að vísu ekki á óvart, enda hef ég tekið þennan slag ítrekað í þinginu, nú síðast sem formaður í efnahags- og viðskiptanefnd. Í því samhengi bendi ég lesendum á að fletta upp hvernig atkvæði féllu síðast á Alþingi um að lækka sóknargjöldin – hverjir stóðu þar með sóknum landsins. Það kemur mér því ekki á óvart að slík tillaga komi nú úr ranni Samfylkingar og Viðreisnar.
Söfnuðirnir hafa liðið fyrir skerðingu á sóknargjöldum sem kemur niður á mikilvægu starfi kirkjunnar og viðhaldi húsakosts í eigu sóknanna. Gríðarlega mikilvægt starf kirkjunnar hefur því liðið fyrir þetta, en ríkið, sem er innheimtuaðili gjaldanna sem tilheyra sóknunum, hefur tekið sér sífellt stærri hluta innheimtunnar. Það er ekki síst kirkjustarfið á landsbyggðinni sem líður fyrir þetta, starf sem er jafnan þungamiðja í hinum dreifðu byggðum landsins. Staðan er þung og það er jafnvel orðið erfitt að halda úti grunnstarfi í mörgum sóknum víða um land.
Við sjálfstæðismenn munum berjast gegn þessari aðför að sóknum landsins. Það er mikilvægt að stuðningsmenn safnaðarstarfs fylgist með því hverjir standa með sóknum landsins gegn lækkun sóknargjalda. Þessi ríkisstjórn er ekki þeirra á meðal, en vonandi þó einhverjir í stjórnarþingflokkunum. Þessi aðför að söfnuðunum gengur bara ekki. Og þingmenn þurfa að fá að heyra hvað fólki finnst.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. september.