Raunsæi í utanríkismálum

21. september 2025

'}}

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Í opinberri umræðu hefur verið vísað í nýjan veruleika í alþjóðakerfinu og talað eins og aðild að Evrópusambandinu sé óumflýjanleg spurning sem þjóðin verði að svara. Slík framsetning er auðveld í yfirborðskenndri pólítík en dugar skammt þegar hagsmunir Íslands eru metnir með heildstæðum hætti.

Spurningin sem skiptir íslenskar fjölskyldur og fyrirtæki máli er einföld. Er hagsmunum Íslands betur borgið innan ESB eða utan? Leiðin sem Ísland hefur valið utan Evrópusambandsins hefur reynst afar farsæl og sett okkur í fremstu röð meðal Evrópuríkja á fjölmarga mælikvarða, á meðan þróunin innan sambandsins hefur víða verið óhagstæð.

NATO og EES

Stoðir íslenskrar utanríkisstefnu eru tvær og báðar hafa staðist tímans tönn. Öryggi landsins grundvallast á NATO samstarfinu. Það er ekki tilviljun að ESB ríki á borð við Svíþjóð og Finnland kusu nýverið að ganga í NATO, því bandalagið er varnarbandalag, en Evrópusambandið er það ekki.

Markaðsaðgangur og samkeppni grundvallast á EES-samningnum. Sjálfstæð stefnumótun í því sem mestu máli skiptir, svo sem í sjávarútvegi og landbúnaði, er varðveitt. Þetta er raunsæ leið sem setur hagsmuni Íslands í fyrsta sæti.

EES-samningurinn er efnahagslegur burðarás fyrir Íslendinga. Með fjórfrelsinu og samræmdum leikreglum innri markaðar njóta íslensk fyrirtæki sömu tækifæra og sömu reglna og keppinautar í Evrópu. Fyrir neytendur þýðir þetta breiðara vöruúrval, skýrari réttindi og meiri samkeppni sem knýr fram betra verð og betri þjónustu. Fyrir íslensk fyrirtæki þýðir það fyrirsjáanlegra umhverfi, lægri viðskiptahindranir og raunhæf tækifæri til vaxtar. Fyrir ríkið þýðir það að við nýtum stærð og dýpt markaðarins án þess að afsala okkur stjórn í lykilgeirum utan innri markaðarins. Þannig nýtum við kosti opins hagkerfis og höldum um leið sveigjanleika smáríkis.

Ekki formsatriði heldur ný pólitísk ákvörðun

Sumir halda því fram að aðild að Evrópusambandinu sé náttúrulegt framhald af EES. Það stenst auðvitað enga skoðun. Aðild er ekki formsatriði heldur ný pólitísk ákvörðun um upptöku sameiginlegra stefna sem EES nær ekki til. Þar vega þyngst landbúnaður og fiskveiðar sem móta byggðir og atvinnulíf um land allt. Slíkt framsal ákvarðana þarf að ræða heiðarlega og raunsætt með skýrum greiningum á kostum og göllum áður en talað er um atkvæðagreiðslu. Þjóðin á rétt á efnislegum upplýsingum um áhrif á störf, tekjur, sjálfbærni auðlinda, verðlag og samkeppnishæfni til framtíðar.

Afstaða Sjálfstæðisflokksins hefur verið skýr í þessu máli. Flokkurinn styður opið og samkeppnishæft hagkerfi, leggur áherslu á frjáls viðskipti og virðingu fyrir fullveldi og telur hagsmunum þjóðarinnar best borgið með öflugu EES samstarfi og skýru forræði yfir auðlindum landsins. Í því felst ekki kyrrstaða heldur krafa um betri framkvæmd. Við eigum að innleiða EES reglur skilvirkar og í hófi, forðast gullhúðun sem eykur kostnað án ávinnings og útskýra á mannamáli hvað hver breyting þýðir fyrir heimili og fyrirtæki. Við eigum að hraða upptöku þar sem breytingar lækka kostnað og auka samkeppni, sérstaklega fyrir smærri fyrirtæki sem þurfa stöðugar og einfaldar leikreglur.

Öryggisumhverfið er jafnframt erfiðara en áður. Svarið felst ekki í nýjum frösum heldur í trúverðugri þátttöku í Atlantshafsbandalaginu, farsælasta varnarbandalagi heimssögunnar.

Látum skynsemina ráða

Niðurstaðan er þessi. Ísland hefur hingað til valið leið sem hefur sannað sig. NATO tryggir öryggi. EES tryggir markaðsaðgang og samkeppni. Við eigum að byggja á þessari reynslu, bæta framkvæmdina og verja sjálfstæða stefnumótun þar sem hún skiptir mestu. Við eigum að ræða Evrópumálin af heiðarleika og raunsæi, með hagsmuni Íslands í forgrunni og með það að markmiði að lífsgæði fjölskyldna og tækifæri fyrirtækja verði meiri á morgun en í dag. Það er skynsamleg stefna. Það er stefna sem þjónar fólkinu. Og það er stefna sem setur hagsmuni Íslands í fyrsta sæti.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. september.