20. september 2025

Óábyrgur rekstur Reykjavíkurborgar

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Enn versnar fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar og er ljóst að meirihluti borgarstjórnar hefur enga stjórn á fjármálum hennar.

Nýbirtur árshlutareikningur fyrir fyrstu sex mánuði ársins sýnir að ekkert lát er á ábyrgðarlausri skuldasöfnun þrátt fyrir stórauknar tekjur. Borgin eyðir miklu fé um efni fram og með stórfelldri skuldasöfnun er reikningurinn sendur á komandi kynslóðir.

Borgarsjóður var rekinn með 47 milljóna króna tapi á fyrstu sex mánuðum ársins. Er þetta mun lakari niðurstaða en áformað var í fjárhagsáætlun ársins en samkvæmt henni átti reksturinn að skila 438 milljóna króna afgangi. Frávikið nemur 484 milljónum króna til hins verra.

Froðuhagnaður Félagsbústaða

Samstæða Reykjavíkurborgar var hins vegar rekin með 5.095 milljóna króna hagnaði á tímabilinu. Allur sá hagnaður er til kominn vegna matsbreytingar fjárfestingareigna (að langmestu leyti Félagsbústaða hf.), sem nam 7.278 milljónum króna á tímabilinu. Slík matsbreyting er reiknuð stærð, sem skilar ekki raunverulegum tekjum til rekstrarins. Matshækkun félagslegra íbúða borgarinnar er færð sem hagnaður á rekstrarreikningi og er þar veigamikill þáttur vegna mikillar hækkunar á húsnæðisverði. Um er að ræða bókhaldslegan hagnað en ekki peningalegan og er umdeilt hvort rétt sé að færa slíkan froðuhagnað í rekstrarreikning. Slíkur ábati vegna hækkunar fasteignaverðs yrði ekki innleystur nema með sölu eigna, sem engin áform eru um. Þar sem ekki stendur til að selja félagslegar íbúðir í eigu Reykjavíkurborgar er orðið ,,fjárfestingareignir“ varla réttnefni yfir þær.

Án umræddrar matsbreytingar ,,fjárfestingareigna“ nemur tap samstæðu Reykjavíkurborgar 2.183 milljónum króna á tímabilinu.

Ískyggileg skuldaaukning

Þróun skulda Reykjavíkurborgar gefur að mörgu leyti skýrari mynd af rekstri hennar en sjálfur rekstrarreikningurinn. Á einungis sex mánuðum, frá ársbyrjun til júníloka, hækkuðu skuldir borgarsjóðs um 12.567 milljónir króna eða um rúma tvo milljarða á mánuði. Námu skuldir borgarsjóðs 216.142 milljónum í lok tímabilsins.

Samkvæmt gildandi fjárhagsáætlun eiga skuldir borgarsjóðs að hækka um 11.680 milljónir króna á árinu 2025 og nema 218.531 milljón í lok þess. Skuldir borgarsjóðs voru þegar orðnar 216.142 milljónir eftir fyrstu sex mánuðina samkvæmt uppgjörinu.

Skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar hækkuðu um tæpa tuttugu milljarða króna fyrstu sex mánuði ársins og námu 544.653 milljónum króna hinn 30. júní sl.

Samkvæmt gildandi fjárhagsáætlun eiga skuldir samstæðunnar að hækka um tæpa 32 milljarða króna samtals á árinu 2025 og nema 558.572 milljónum í lok þess. Ljóst er af bróðurparturinn af þessari skuldaaukningu hefur raungerst á fyrri hluta ársins samkvæmt uppgjörinu.

Fjármögnun á afarkjörum

Undanfarin ár hafa skuldabréfaútboð verið mikilvirkasta úrræði meirihluta borgarstjórnar til að fjármagna gífurlegan hallarekstur Reykjavíkurborgar.

Síðasta skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar fór fram í ágúst þar sem skuldabréf fyrir 5.605 milljónir króna að nafnvirði voru seld. Borgin seldi verðtryggð skuldabréf með lokagjalddaga árið 2044 fyrir 960 milljónir króna að nafnvirði á kröfunni 4,11%. Þá seldi hún óverðtryggð skuldabréf fyrir samtals 4.645 milljónir að nafnvirði á kröfunni 8,71%. Eru þetta verulega hærri vextir en markaðskrafa ríkisskuldabréfa með svipaðan lánstíma.

Þegar verðbólga er 3,8% verður ekki framhjá því litið að Reykjavíkurborg er að fjármagna sig á afar háum vöxtum. Takmarkaður áhugi fjárfesta á skuldabréfum borgarinnar er helsta ástæðan fyrir þeim afarkjörum, sem hún verður að sætta sig við.

Háar skuldir og versnandi lánskjör eru uggvænleg vísbending um fjárhagsstöðu borgarinnnar. Vandinn verður ekki leystur með áframhaldandi hallarekstri og skuldasöfnun.

Drög að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2026 verða lögð fram í borgarstjórn eftir rúman mánuð. Vonandi tekst að binda enda á langt tímabil taprekstrar og skuldasöfnun borgarinnar á komandi ári.