18. september 2025

„Tiltektin“ jafn lítil og „verkstjórnin“

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur heldur ótrauð áfram á nýju þingi og veðjar á að þjóðin geti ekki og muni ekki lesa sér til gagns.

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur er iðin við að segja frá öllu því sem hún hefur gert vel eða ætlar að gera vel einhvern tímann seinna og setja það í markaðsvænan búning. Annað og ekki umfangsminna áhugamál ríkisstjórnarinnar er að eigna sér annarra manna verk og svo skrifa allt það sem miður fer á aðra, einkum og sér í lagi síðustu ríkisstjórn.

Leikritið hófst strax á fyrsta degi þegar forystukonur ríkisstjórnarinnar kvörtuðu sáran undan því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna hefði skilað af sér verra búi en áætlanir höfðu gert ráð fyrir, svo mjög að þær tilkynntu að það hafi tafið fyrir stjórnarmyndun.

Komið hefur á daginn að ekki stóð steinn yfir steini í yfirlýsingum forystukvennanna. Uppfærðar áætlanir hafa sí og endurtekið skilað bættri afkomu ríkissjóðs frá því fjárlög fyrir árið 2025 voru samþykkt í aðdraganda Alþingiskosninga.

Afgangur af ríkissjóði mögulegur strax

Fjárlög ársins 2025 gerðu ráð fyrir 1,3% halla á rekstri ríkissjóðs, sem samsvarar halla upp á 63 milljarða króna. Í dag eru horfurnar mun betri og þess vænst að hallinn verði 0,4% eða 19 milljarðar. Afkomubati upp á 43 milljarða hvar mestu munar um meiri tekjur en vænst hafði verið. Ekki vegna aðgerða ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur, sem þó hefur sérstakt dálæti á skattahækkunum, heldur vegna þróttmeiri efnahagsumsvifa en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir.

Í stefnuræðu forsætisráðherra fyrir rétt ári síðan, í september 2024, sagði Bjarni Benediktsson að „með styrkri efnahagsstjórn er raunhæft að afgangur verði á ríkissjóði strax á næsta ári, þótt opinberar áætlanir geri ráð fyrir halla. En ítrekað hefur niðurstaða ríkisreiknings verið langt umfram opinberar áætlanir.“ Með öðrum orðum, hefði ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur haldið rétt á spilunum hefði verið hægt að skila afgangi af ríkissjóði strax árið 2025.

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar skeyta engu um þá staðreynd. Markmið um hallalaus fjárlög árið 2027 var trommað upp sem sérstakt afrek út af fyrir sig. Markmið sem reyndar var fært til ársins 2028 af meirihluta fjárlaganefndar við afgreiðslu fjármálaáætlunar til ársins 2030. Metnaðurinn er ekki meiri en svo.

Fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir 0,3% halla á ríkissjóði árið 2026. Rekstur ríkissjóðs á þannig að batna um aðeins 0,1% milli ára. Sagan kennir okkur reyndar að líkur eru til þess að hallinn aukist í meðförum þingsins í umboði og á ábyrgð stjórnarmeirihlutans, en látum það liggja á milli hluta að sinni. Fyrir þetta klappar ríkisstjórnin sér ötullega á bakið og telur sig hafa umbylt ríkisfjármálunum á nokkrum mánuðum.

„Tiltektin“ sem forsætisráðherra boðar nú á nýju þingi í stað meintrar „verkstjórnar“ síðasta þings er hvergi sjáanleg þegar betur er að gáð. Segir raunar svo í greinargerð frumvarpsins að útlit sé fyrir að aðhaldsstigið verði því sem næst hlutlaust á næsta ári. Ríkisfjármálin stíga þannig hvorki bensíngjöfina né á bremsuna og vinna því ekki á móti verðbólgunni í átt að lægra vaxtastigi.

Heimilin borga brúsann

Tiltekt skal það þó heita og látið að því liggja að um hagræðingu í rekstri sé að ræða. Samhliða er því haldið fram fullum fetum að skattar verði hvorki hækkaðir á fólk né fyrirtæki. En hver brúar þá bilið milli kostnaðarsamra kosningaloforða og fjárheimilda? Staðreyndin er sú að heimilin í landinu eru látin borga þann brúsa í formi ýmissa skattahækkana, þvert á fullyrðingar ráðherra ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur heldur ótrauð áfram á nýju þingi og veðjar á að þjóðin geti ekki og muni ekki lesa sér til gagns. Vandinn nú er að heimilin í landinu munu finna fyrir sannleikanum í heimabankanum, hvað sem vænum frösum og fleygum PR-línum líður.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 17. september 2025.