Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Þróun húsnæðisverðs hefur leikið stórt hlutverk í þróun verðbólgu og átt sinn þátt í því að vextir hér eru háir með tilheyrandi byrðum fyrir fólkið í landinu. Þegar svona er í pottinn búið er það verkefni stjórnmálanna að koma með lausnir.
Það kann hins vegar að vera freistandi fyrir stjórnmálamenn að bregðast við með einföldum og þægilegum lausnum og plástrum sem hljóma kannski vel á blaði en fela ekki í sér neina raunverulega lausn þegar öllu er á botninn hvolft og gera jafnvel illt verra. Í húsnæðismálunum lúta þær lausnir yfirleitt að því að ráðist er sí og æ að eftirspurnaranga málsins en ekki framboðshliðinni þar sem vandinn þó raunverulega liggur.
Eðlilega er einfaldara að horfa til slíkra aðgengilegra skyndilausna en ábyrgir stjórnmálamenn verða að horfa lengra. Leita verður allra raunhæfra leiða til að stuðla að auknu framboði húsnæðis til frambúðar. Þröskuldurinn sem ungt fólk og fólk almennt stendur frammi fyrir þegar kemur að því að eignast húsnæði hefur hækkað en hann verður ekki lækkaður að neinu ráði nema unnið sé í átt að auknu framboði. Stöðugt þarf að vinna í því að tryggja nægt framboð og takmarka flöskuhálsa í uppbyggingu. Það þarf sífellt að kappkosta að tryggja að byggt sé meira, hraðar og hagkvæmar. Það liggur fyrir að þröngir skipulagsskilmálar og tímafrekt leyfisveitingaferli ásamt sölu og framsali á lóðum eru á meðal helstu úrlausnarefna, svo ekki sé minnst á framboð á byggingarhæfum lóðum.
Eina lausn til að auka framboð á húsnæði er að finna í frumvarpi sem ég mælti fyrir á Alþingi í gær fyrir hönd allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, mál sem var fyrst unnið og lagt fram af Berglindi Ósk Guðmundsdóttur þáverandi þingmanni. Málið hefur nú verið endurflutt og er mikilvægt skref til að auðvelda sveitarfélögum að auka við lóðaframboð sitt. Skrefið felst í að afnema það sem sveitarstjórnarfólk á höfuðborgarsvæðinu hefur gagnrýnt, það er að óheimilt sé að færa út vaxtarmörk svæðisskipulags til að brjóta nýtt land fyrir nýjar lóðir og íbúðir sem þörf er á innan sveitarfélags vegna neitunarvalds annars sveitarfélags.
Frumvarpið miðar að því að aukinn meirihluta sveitarfélaga þurfi til þess að samþykkja breytingar á svæðisskipulagi enda með öllu ótækt að eitt sveitarfélag hafi algjört neitunarvald um framtíðaruppbyggingu annarra sveitarfélaga eins og nú er. Sveitarfélög sem geta vaxið hraðar en önnur verða að geta það innan eigin lóðamarka án þess að vera meinað það af einu öðru sveitarfélagi.
Það verður að taka af skarið fyrir húsnæðismarkaðinn í heild sinni, horfa á hver raunverulegu vandamálin eru og hvaða lausnir eru þar tiltækar. Gott skref væri að það sé ekki ómögulegt fyrir sveitarfélög að auka við lóðir sínar og íbúðauppbyggingu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. september.