Hnignun grundvallarfærni íslenskra nemenda á síðustu tveimur áratugum er ógnvekjandi að mati Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Í nýlegri skýrslu segir stofnunin stöðu skólakerfisins stefna efnahagslegri velferð okkar og lífsgæðum í tvísýnu. Meira en 40 stiga lækkun á meðaltalseinkunn Íslands í PISA milli áranna 2006 og 2022 geti dregið úr framleiðni um meira en 5% til framtíðar.
Síðastliðna áratugi hefur átt sér stað varasöm þróun í skólamálum hérlendis. Rík áhersla hefur verið á færri samræmdar mælingar, minni kröfur gerðar til nemenda og samkeppni í skólastarfi litin hornauga. Allir fá þátttökuverðlaun, B er best og enginn má skara fram úr. Meðalmennska virðist markmið og grunnfærni í lykilnámsgreinum aukaatriði.
Nú getur hver maður glöggvað sig á afleiðingum slíks metnaðarleysis. Íslenskum nemendum gengur sífellt verr í alþjóðlegum samanburði. Tæplega helmingur drengja og þriðjungur stúlkna hefur ekki náð að tileinka sér grunnfærni í lesskilningi að loknu tíu ára skyldunámi – og 75% stúlkna finna fyrir kvíða vikulega eða oftar, þar af 34% daglega.
Það er löngu tímabært að snúa við þessari óheillaþróun í menntamálum þjóðarinnar – en til þess þurfum við aðgengileg gögn, mælanleg markmið og skýra mælikvarða. Eftirfarandi fimm aðgerðir lagði Sjálfstæðisflokkur til við borgarstjórn á dögunum án árangurs, en innleiðing þeirra gæti sannarlega hreyft nálina og orðið liður í því að koma íslensku skólakerfi aftur á réttan kjöl.
Samræmd próf tekin aftur upp
Við teljum mikilvægt að innleiða aftur samræmd próf á öllum þremur skólastigum grunnskólans. Niðurstöður slíkra prófa varpa ljósi á hvernig nemendum hefur tekist að tileinka sér sem flesta þætti aðalnámskrár en prófin tryggja jafnframt aukið jafnræði og gagnsærri endurgjöf fyrir nemendur, foreldra, skóla og menntayfirvöld.
Námsmat byggt á talnakvarðanum 1-10
Við viljum fara þess á leit við mennta- og barnamálaráðuneytið að námsmat verði aftur byggt á talnakvarðanum 1-10 enda áreiðanlegra fyrirkomulag sem reynst hefur skiljanlegra fyrir kennara, foreldra og nemendur. Námsmat í núverandi námskrá, byggt á litakóðum, táknum eða bókstöfum, er illskiljanlegt og mikil eftirspurn eftir breytingum.
Símalausir skólar
Mikilvægt er að grunnskólar Reykjavíkur verði símalausir. Félagsfærni hefur hrakað verulega, nemendur tala minna saman og hefur staðan ýtt undir einmanaleika, depurð og kvíða. Rannsóknir og reynsla erlendra þjóða af símalausum grunnskólum gefa jafnframt fullt tilefni til að innleiða breytinguna.
Móttökudeildir í grunnskólum
Tryggja þarf að börn sem flytja til landsins og ekki tala íslensku, taki sín fyrstu skref í grunnskólagöngunni í móttökudeild þar sem öll áhersla er á íslensku og íslenska menningu. Munurinn hérlendis á PISA-einkunnum nemenda með innflytjendabakgrunn og innfæddra nemenda er einn sá mesti innan OECD. Meira en helming innflytjendanemenda skortir lesskilning til að geta haldið áfram námi eða farið út á vinnumarkað. Skólakerfið þarf augljóslega að mæta þessum nemendahópi betur en móttökudeildir gætu reynst brú í takmarkaðan tíma áður en nemendurnir öðlast færni til að hefja nám í almennum bekk.
Skýr markmið um betri árangur í PISA og læsi
Reykjavíkurborg á að taka forystu í skólamálum á landsvísu og setji sér það markmið að verða meðal fremstu þjóða í PISA könnunum. Það er jafnframt lágmarkskrafa að allir nemendur sem ekki eru með námslegar hamlanir geti lesið sér til gagns að lokinni grunnskólagöngu.
Það er komið gott af markmiðum um meðalmennsku og andvaraleysi í menntamálum þjóðarinnar. Við eigum að stefna íslensku skólakerfi óhrædd í fremstu röð - en það sama á við um alla sem ætla sér að skara fram úr - þeir verða að hafa hugrekkið til að horfast í augu við mælingar, samkeppni og ríka kröfu um árangur.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 14. september 2025.

