15. september 2025

Carbfix er ekkert kvikkfix

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Carbfix hf., dótturfyrirtæki Orkuveitunnar (OR), var stofnað árið 2022 í því skyni að þróa og reka lausnir til að fanga og binda koltvísýring í bergi. Frá árinu 2014 hefur koltvísýringur verið fangaður úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar og dælt niður í jarðlög þar.

Viðskiptahugmynd Carbfix snýst um að taka á móti koltvísýringi í stórum stíl erlendis frá og breyta honum í stein. Slík útrás fyrirtækisins verður afar dýr og áhættusöm enda kallar hún m.a. á uppbyggingu hafnaraðstöðu og borun sérstakra hola til niðurdælingar.

Fyrirhuguð þróun Carbfix hf. og einstakra verkefna þess mun kosta tugi milljarða króna. Í fjárhagsspá OR 2024-2028 var Carbfix skilgreint sem eitt af helstu vaxtarverkefnum samstæðunnar og gert ráð fyrir allt að 68 milljarða króna hlutafjáraukningu vegna þess.

Erfiður rekstur

Rekstrartap Carbfix nam 1.166 milljónum króna á árinu 2024. Um síðustu áramót voru skuldir félagsins 6.322 milljónir króna og var eigið fé þess neikvætt um 486 milljónir.

Undarlegt er að opinbert fyrirtæki í slíkri stöðu, skuli ráðast í ímyndarherferð í ljósvaka- og samfélagmiðlum og beina auglýsingum í stórum stíl til almennings.

Sérstakur rýnihópur borgarráðs var skipaður árið 2022 til að fjalla um Carbfix hf. og fjármögnun verkefna félagsins til framtíðar. Í umsögn hópsins segir eftirfarandi um þá fjármögnun, sem ljóst var að myndi nema tugum milljarða króna: „Það er langt umfram þær fjárhæðir, sem réttlætanlegt væri að rynnu úr borgarsjóði eða rekstri Orkuveitu Reykjavíkur. Því þarf að sækja aukið fé með sölu hlutafjár og/eða lánum og er stofnun Carbfix hf. liður í því.“

Þessi niðurstaða rýnihópsins frá árinu 2022 er skynsamleg. Á þessum tíma voru stjórnendur Orkuveitunnar afar bjartsýnir á að Carbfix þyrfti aðeins takmarkað fé frá OR í skamman tíma til að komast af stað og undirbúa hlutafjárútboð. Síðan yrði fyrirtækið sjálfbært, myndi skila ævintýralegum hagnaði og hefur núverandi forstjóri OR nefnt 1.400 milljarða króna í því sambandi.

Úr tveimur milljörðum í tólf

Orkuveitan hefur sem eigandi og helsti lánveitandi Carbfix staðið straum af útgjöldum fyrirtækisins hingað til. Stjórn OR samþykkti í september 2022 að veita Carbfix hf. skammtímalán, allt að tveimur milljörðum króna. Tekið var fram að um brúarfjármögnun væri að ræða vegna rekstrar og framkvæmda Carbfix þar til áformuð hlutafjáraukning félagsins gengi eftir. Stefnt var að hlutafjárútboði á fyrri hluta árs 2023 og sagt að eftir það yrði Carbfix sjálfbært og þyrfti ekki frekara fé frá OR. Áhugi erlendra fjárfesta væri mjög mikill og þeir biðu í röðum eftir að kaupa hlutabréf í Carbfix.

Áhugi fjárfesta var þó minni en vonast var eftir en afar litlar upplýsingar um framvinduna hafa borist frá fyrirtækinu sjálfu. Umrætt hlutafjárútboð hefur ekki enn farið fram og á meðan er Carbfix rekið með lánsfé frá OR.

Í ágúst 2023 samþykkti stjórn OR að hækka skammtímalánasamning (lánalínu) við Carbfix í samtals 2.800 milljónir, þar til áðurnefnd hlutafjáraukning félagsins gengi eftir. Í febrúar 2024 var brúarlánið hækkað í 7.000 milljónir. Í desember sama ár var lánalínan enn hækkuð í allt að 12.000 milljónir króna.

Er OR áhættufjárfestingasjóður?

Viðurkennt er að fjárfestingar og lánveitingar til Carbfix séu áhættusamar þar sem félagið sé ekki sjálfbært. Vonandi ganga áform fyrirtækisins eftir en óviðunandi er að Reykvíkingar og aðrir viðskiptavinir Orkuveitunnar séu látnir fjármagna áhættufjárfestingar sem óvíst er hvort muni skila sér. OR ætti ekki að vera áhættufjárfestingasjóður.

Æskilegt er að látið verði af þeirri upplýsingatregðu sem ríkt hefur um Carbfix hf. og eigendur fyrirtækisins, skattgreiðendur í Reykjavík, Akranesi og Borgarbyggð, upplýstir um stöðu fyrirtækisins og fjármögnun þess til framtíðar. Miklu meira fé hefur runnið frá OR til Carbfix hf. en áformað var við stofnun fyrirtækisins árið 2022. Ljóst er að sala hlutafjár í Carbfix er ekki sá auðveldi dans á rósum, sem stjórnendur töldu stjórn OR og rýnihópi borgarráðs trú um við stofnun fyrirtækisins árið 2022.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. september 2025.