Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Alþingi hefur tekið til starfa á ný eftir þinghlé sem var styttra en vanalega þar sem þingstörfin töfðust verulega í vor. Það er varla þörf á upprifjun á því, en ljóst að djúp gjá myndaðist milli þingmanna á liðnum þingvetri. Orð forseta Alþingis við þingsetningu, þar sem hún talaði um að endurheimta traust þingmanna, voru gott innlegg í þingstörfin. Vonandi leggur forsætisráðherra sitt af mörkum og leggur sig meira fram við samtal og samvinnu við þingið en áður. Um það höfða ég til ábyrgðar hennar eins og hún komst sjálf að orði í stefnuræðu sinni.
Ég hef þegar lagt fram áður flutt mál að nýju. Meðal annars um afnám skyldu til jafnlaunavottunar og um afnám áminningarskyldu til ríkisstarfsmanna. Mál um lækkun styrkja til stjórnmálasamtaka og um að svipta brotamenn íslenskum ríkisborgararétti. Ég hef lagt fram að nýju tillögu um „mælaborð“ (reglubundna upplýsingasöfnun) í málefnum innflytjenda, enda hljóta greinargóðar upplýsingar og tölfræði að vera forsenda þess að við tökum raunhæfar og réttar ákvarðanir í málaflokknum. Þar til nauðsynlegar upplýsingar verða aðgengilegar er nauðsynlegt að þingmenn reyni að átta sig á kostnaði í tengslum við innflytjendur, einkum hælisleitendur, með fyrirspurnum til ráðherra.
Tilhneiging stjórnvalda til gullhúðunar, eða blýhúðunar, verður áfram forgangsmál. Það er jákvætt að sjá ný stjórnvöld bregðast við þingmálum mínum þar um, með tillögum um afhúðun. Ég nefni líka réttlætismál um bætur vegna tvísköttunar lífeyrisgreiðslna til þeirra sem hafa greitt tekjuskatt, bæði við greiðslu iðgjalda og útgreiðslu lífeyris fyrir ákveðið tímabil. Um síðastnefnda málið mun ég óska sérstaklega eftir afstöðu ráðherra lífeyrismála, Ingu Sæland.
Það eru sömuleiðis fjölmörg brýn mál sem þarf að setja á dagskrá og fylgja eftir í þinginu. Svo nokkur dæmi séu nefnd hef ég lagt fram fyrirspurnir til dómsmálaráðherra um rannsókn stjórnvalda á bakgrunni umsækjenda um alþjóðlega vernd og á aðilum sem hingað koma vegna fjölskyldusameiningar. Ég hef sömuleiðis lagt fram fyrirspurn til utanríkisráðherra um ástandið í Súdan og aðgerðir okkar og áherslur í þeim efnum. Þá hef ég lagt fram fyrirspurn til fjármálaráðherra um kostnað hins opinbera af fyrirbærinu „kulnun“.
Það eru viðsjárverðir tímar í alþjóðamálum og ástæður til að hafa augun á efnahagsmálum hér innanlands í kjölfar ítrekaðra áfalla. Þar hafa upphrópanir og sleggjur ráðherra dugað skammt. Verkefnin á þinginu verða ærin og undirrituð mun ekki láta sitt eftir liggja.