Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sumarið hefur verið gott og við notið þess hvað landið okkar getur verið blítt og fallegt þessar björtu sumarvikur. Haustið hefur þó ótal kosti og hefur skap og sterk persónueinkenni, tími atorkusemi og krafts.
Þing var sett í gær, þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er fram komin og forsætisráðherra setur tóninn fyrir fyrsta heila þingvetur ríkisstjórnarinnar í stefnuræðu sinni í kvöld. Í fyrstu stefnuræðu sinni í febrúar lagði forsætisráðherra mikla áherslu á að klappa sér og sínu fólki á bakið fyrir hinn mikla dugnað og stjórnvisku sem fram undan var. Því miður, eða sem betur fer, er raunveruleikinn flóknari en svo og ákveðnin ein og sér dugar ekki alltaf til, eins og raunin varð á síðasta þingi.
Í upphafi þingvetrar er efnahagurinn sterkari en búist var við í vor, nokkuð sem meirihlutinn fékk í arf frá síðustu ríkisstjórn sem hafði unnið hörðum höndum að því að snúa við hallarekstri ríkissjóðs. Endurunnin frumvörp sem fórnað var til að keyra í gegn veiðigjaldafrumvarpið líta aftur dagsins ljós um sömu mundir og afleiðingar þess eru að raungerast. Mál sem tengjast hagræðingu, sameiningu stofnana og aðhaldi í ríkisrekstri hljóma ekki illa í hægri eyru, en eru því miður enn í mýflugumynd. Ljóst er að meira þarf að koma til en boðað hefur verið ef ríkisstjórninni er alvara um að hagræða í rekstri ríkisins. Sjái ríkisstjórnin að sér mun ekki standa á stuðningi hægri manna. Ég held þó ekki niðri í mér andanum.
Viðvörunarbjöllurnar tengjast ekki síst grundvallarmun á hugarfari þeirra sem aðhyllast vinstri og hægri hugmyndafræði. Strax má sjá teikn á lofti um stjórnlyndi, miðstýringu og tilfærslur sem oft hafa verið meðal leiðarljósa vinstrisins. Þessi mál eru viðkvæm vegna þess að þau snerta frelsi og réttindi fólks. Frelsi einstaklingsins er nefnilega eitt það dýrmætasta sem við eigum. Vel heppnað samfélag er samspil ótal þátta en freistnivandinn sá að miðstýra eða skerða frelsið í nafni einhvers sem kann að virðast göfugt hverju sinni en heggur smátt og smátt í grundvallarréttindin.
Það er ekki sjálfgefið að löggjafinn skipti sér af málum sem alla jafna ættu að vera á borði og háð sjálfsákvörðunarrétti annarra eða setji sérstakar álögur á sumar atvinnugreinar umfram aðrar. Það er ekkert sjálfsagt við að stjórnvöld skipti sér af neysluvenjum fullorðins fólks eða takmarki afnotarétt fólks af eignum sínum. Öllu heldur ætti að umgangast slíkt af sérstakri varkárni.
Meginreglan er sú að okkur farnast best í frjálsu samfélagi, afskipti ríkisins eiga eingöngu við þegar nauðsynin er augljós og sameiginleg.
Það væri óskandi að ríkisstjórnin myndi nota kraft haustsins í að stuðla að slíkri sýn fyrir samfélagið en því miður er stefnt inn í veturinn á síður farsæl mið.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. september.