Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Þegar Charles Barkley fyrrum körfuboltamaður var inntur um álit á því að NBA-leikmaður hefði komið út úr skápnum sem samkynhneigður svaraði hann einhvern veginn á þessa leið: „Ef hann getur tekið fráköst gæti mér ekki verið meira sama.“
Þetta hreinskilna svar er ágætlega einkennandi fyrir þann stórkostlega viðsnúning sem víða hefur orðið á síðustu áratugum í viðhorfi til samkynhneigðra. Í okkar heimshluta, og blessunarlega hér á landi, hefur þetta viðhorf þróast á tiltölulega stuttum tíma úr fordæmingu yfir í fordóma, þaðan í furðu og forvitni, og smám saman í samþykki og náð hinni réttu endastöð, sem er að langflestir eru hættir að pæla í þessu. Nú til dags er flestum okkar sama hvort fólk sem við þekkjum er hommar, lesbíur eða hvaðeina annað. Rétt eins og Charles Barkley þykir skipta meira máli hvort samherji taki fráköst en hvert þrár hans liggja í ástarmálum hefur samfélagið okkar þroskast á þann veg að framlag, náungakærleikur og hæfni samferðafólks okkar ræður sem betur fer meira um afstöðu okkar til þess en kynhneigðin.
Þegar kemur að öðrum og flóknari þáttum sem snerta kynvitund og kynhneigð eigum við mun lengra í land. Þar erum við sem samfélag enn á þeim stað að vera ekki búin að venjast og aðlagast sumu í þeim fjölbreytileika sem rúmast í hinu mannlega. Þetta mun vonandi lagast ef friður fær að ríkja um málefnið. En ekki eru allir tilbúnir að gefa þann frið.
Í bandarísku forsetakosningunum á síðasta ári var ein áhrifaríkasta auglýsing baráttunnar grímulaus árás á þann fámenna hóp samfélagsins sem upplifir ekki að þau falli undir hefðbundnar skilgreiningar á kyni. Í einfaldaðri íslenskri þýðingu voru skilaboðin eftirfarandi: Kamala stendur með hán, Trump stendur með þér (Kamala is for they/them, Trump is for you).
Þessi auglýsing og linnulaus samsvarandi áróður í fjölmiðlum sem studdu Trump voru auðvitað ekki skot út í bláinn. Á bak við ákvörðun um að verja tugum eða hundruðum milljóna dala í þetta málefni var vissan um að skammt fyrir neðan yfirborð boðlegrar umræðu í Bandaríkjunum kraumaði niðurbæld kergja hjá umtalsverðum hópi fólks í garð örlítils minnihluta. En það gerðist ekki heldur sjálfkrafa að alls konar fólk var farið að móta sér skoðanir á líffræðilegum eiginleikum ókunnugs fólks. Bæði stuðningsfólk réttinda hinsegin fólks og fordómapúkar höfðu um langa hríð hamast á sitthvorum endanum við að gera þessi einkamálefni fólks að pólitísku bitbeini. Þar með var kominn frjór farvegur til þess að vökva fræ fordóma og skilningsleysis í pólitískum tilgangi, sem virkaði.
Þessi málefni ættu ekki að þurfa að vera miðdepill pólitískrar umræðu nema þegar það er algjör nauðsyn vegna yfirþyrmandi óréttlætis. Almennt eru málefni sem snúa að kynhneigð, kynvitund og kynlífi fólks meðal þess allra persónulegasta í lífi sérhverrar manneskju og þótt allt þetta séu mikilvægir þættir snýst ekki öll tilvera fólks um þá.
Ég hef frá unglingsaldri reynt að skilja hvers vegna málsmetandi fólk í samfélaginu telji sig þurfa að hafa skoðanir á persónulegustu einkamálum annars fólks. Af öllum þeim fjölmörgu verðugu og mikilvægu viðfangsefnum sem stjórnmálafólk þarf að mynda sér skoðun á skil ég ekki hvers vegna fólk eyðir orku sinni og trúverðugleika í að fárast út í það hvernig frjálsir einstaklingar upplifa sjálfa sig, hvernig þeir elska og vilja vera elskaðir.
Ofstopafull umræða í síðustu viku var ekki gagnleg fyrir íslenskt samfélag, hvorki þá hópa sem málið snertir beint né okkur hin. Hávær rifrildi og flokkadrættir um persónuleg mál fólks er hættuleg vegferð sem bæði særir fólk að ósekju og sogar athygli og orku frá öðrum mikilvægari viðfangsefnum sem steðja að samfélaginu.
Stóra málið í þessu er kannski sá sannleikur að þegar öllu er á botninn hvolft gildir það um sum málefni að áður en maður ákveður að hafa á þeim sterka skoðun væri gagnlegt að spyrja sig tveggja einfaldra spurninga: „Kemur þetta mér við?“ og „Þarf ég að skipta mér af þessu?” Þegar málin snúast um persónulegustu mál annars fólks eru bæði svörin oftast „nei“.