5. september 2025

Skattpíning íbúðarkaupenda í Reykjavík aukin

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Gatnagerðargjöld í Reykjavík hækkuðu um allt að 91% um mánaðamótin. Hækkunin tók gildi 1. september og byggist á samþykkt fyrrverandi meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar.

Gatnagerðargjöld hækka um 85% á íbúðir í fjölbýlishúsum, 33% á raðhús og 38% á atvinnuhúsnæði. Í raun er um meiri hækkun að ræða því með breytingunni verður einnig tekin upp gjaldtaka á bíla- og hjólageymslur. Að því gjaldi viðbættu má reikna með að hækkunin nemi 90 - 100% fyrir íbúðir í fjölbýlishúsum.

Sem dæmi má nefna að gatnagerðargjald 100 fermetra íbúðar í fjölbýlishúsi (120 fm. brúttó) nam 1.960 þúsund krónum fyrir hækkun en 3.696 þúsund kr. eftir hækkun.

Ekkert sveitarfélag leggur eins há gjöld á nýjar íbúðir og Reykjavíkurborg. Borgin er methafi í skattlagningu á íbúðarhúsnæði.

Gjöld hækka húsnæðisverð

Há gatnagerðargjöld bætast við önnur gjöld og kvaðir, sem húsbyggjendur í Reykjavík eru krafðir um. Borgin leggur á afar há byggingarréttargjöld (innviðagjöld), sem nema tugum þúsunda króna á nettófermetra í fjölbýlishúsi. Eftir hækkunina geta byggingarréttargjöld og gatnagerðargjöld numið tíu milljónum samanlagt fyrir 100 fermetra íbúð.

Að auki bætast við ýmsar aðrar kvaðir og kostnaður, sem lögð eru á reykvíska húsbyggjendur. Kvöð er um að félagslegar íbúðir skuli vera ákveðið hlutfall af íbúðum í fjölbýlishúsum, sem húsbyggjanda er gert skylt að afhenda borginni á undirverði. Þá þarf hlutfall leiguíbúða að vera a.m.k. 15%. Slíkar kvaðir auka álögur á húsbyggjendur og hækka þannig enn frekar verð á almennum íbúðum.

Hættuleg húsnæðisstefna

Á undanförnum árum hafa íbúðir hækkað svo í verði í borginni að venjulegt launafólk hefur varla kost á að kaupa nýja íbúð, hvað þá láglaunafólk. Tugþúsundir Reykvíkinga hafa hrakist út á afar dýran leigumarkað vegna húsnæðisstefnu Samfylkingarinnar, sem byggist á lóðaskorti og sligandi gjaldheimtu af nýjum íbúðum.

Reykjavíkurborg er langstærsta sveitarfélag landsins og verðhækkanir hennar hafa því áhrif á landsvísu. Fyrir liggur að miklar verðhækkanir á húsnæði í Reykjavík undanfarin ár, eiga stóran þátt í mikilli verðbólgu sem geisað hefur.

Mikil hækkun gatnagerðargjalds í borginni vinnur ekki aðeins gegn hinum fjölmörgu, sem vilja komast í eigin íbúð. Hækkunin vinnur einnig gegn hjöðnun verðbólgu og vaxta, sem ríkisstjórnin segir að séu helstu áherslumál sín.

Óðaverðbólga í Reykjavík?

Af hækkuninni að dæma mætti álykta að óðaverðbólga ríkti í Reykjavík. Borgarfulltrúar vinstri meirihlutans hafa sagt að ekki sé víst að hækkunin hafi áhrif á verð nýrra íbúða.  Slíkt viðhorf er í besta falli barnaleg óskhyggja því margsannað er að allar slíka hækkanir skila sér út í verðlag.

Aðilar á fasteignamarkaði benda á að hækkun gatnagerðargjalda muni leiða til hækkunar á íbúðaverði. Hækkunin geti einnig fælt byggingaraðila frá því að byggja í Reykjavík eða að dregið verði úr gæðum íbúða.

Tuttuguföld hækkun á bílastæði

Gatnagerðargjald á bílastæði í kjallara hækkar gífurlega með breytingunni. Fyrir hækkun nam gjaldið um 1.600 krónum á fermetra en hefur nú hækkað í þrjátíu þúsund, eða u.þ.b. tuttugufaldast. Gatnagerðargjald fyrir eitt bílastæði gæti þannig orðið um tólf hundruð þúsund krónur, sem mun án efa hækka íbúðaverð. Þetta háa gjald gæti einnig fælt byggingaraðila frá því að hafa bílakjallara í nýbyggingum. Slíkt væri mjög óæskilegt, ekki síst m.t.t. aðgengis fatlaðra og hreyfihamlaðra.

Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum lagt til að fallið verði frá umræddri hækkun gatnagerðargjalda í Reykjavík í því skyni að draga úr byggingarkostnaði. Tillagan felur í sér að gatnagerðargjald lækki til samræmis við fyrra hlutfall.

Æskilegt hefði verið að taka tillöguna fyrir á fundi borgarstjórnar sl. þriðjudag svo hægt væri að hverfa strax frá þessari miklu hækkun gjaldanna. Meirihluti Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna knúði hins vegar fram frestun málsins í krafti atkvæða. Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Vinstri grænna, sem greiddu atkvæði gegn hækkuninni í febrúar sl. virðast nú styðja hana.

 Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. september 2025.