Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Ófremdarástand ríkir á gatnamótum Höfðabakka og Bæjarháls eftir að gatnamótin voru þrengd og tveimur beygjuakreinum lokað. Breytingin hefur í för með sér umferðaröngþveiti á gatnamótunum og stórauknar umferðartafir á stóru svæði í austurhluta borgarinnar. Breytingin var vísvitandi gerð í því skyni að tefja fyrir umferð og því í fullu samræmi við stefnu vinstri meirihlutans í borgarstjórn.
Samþykkt var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 26. marz sl. að ráðast í framkvæmdir vegna endurhönnunar fimm gatnamóta við Höfðabakka. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins studdu heils hugar þann hluta verksins, sem fól í sér almennar úrbætur á umferð. Þar á meðal endurnýjun umferðarljósabúnaðar og bætta lýsingu á gatnamótum.
Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðumst hins vegar eindregið gegn því að tvær beygjuakreinar (hægribeygju-framhjáhlaup) yrðu fjarlægðar við gatnamót Höfðabakka og Bæjarháls. Bentum við á að slík breyting myndi að öllum líkindum draga úr umferðarflæði og valda óþarfa töfum á umferð.
Óviðunandi umferðaröngþveiti
Í sumar hefur verið unnið að því að fjarlægja umræddar beygjuakreinar og þrengja gatnamótin. Um leið og beygjuakreinunum var lokað jukust umferðartafir gífurlega á gatnamótunum og þar er nú hreinasta umferðaröngþveiti á annatímum.
Umrædd gatnamót og Höfðabakki í heild sinni, gegna afar mikilvægu hlutverki fyrir Árbæjarhverfi og Ártúnsholt en einnig fyrir Breiðholt, Grafarvog, Grafarholt, Úlfarsárdal og fleiri hverfi. Höfðabakki tengir Árbæjarhverfi við stofnbrautakerfið og er einnig mikilvæg tengibraut milli áðurnefndra hverfa.
Þrenging gatnamótanna mun líklega einnig hafa neikvæð áhrif á viðbragðstíma sjúkra- og slökkvibifreiða. Slökkvistöð er við Tunguháls og bílar í neyðarakstri þaðan, fara oft um gatnamót Höfðabakka og Bæjarháls, sem nú er verið að þrengja og stífla.
Óheillavænlegt var að raska ríkjandi umferðarskipulagi á gatnamótum Höfðabakka og Bæjarháls eins og komið hefur í ljós. Þessi breyting er þó í fullu samræmi við stefnu Samfylkingarinnar og samstarfsflokka hennar, sem felst í því að þrengja að fjölskyldubílum og auka þannig tafatíma í umferðinni.
Tillaga Sjálfstæðisflokksins
Í ljósi aukinna tafa vilja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hverfa frá þrengingu gatnamótanna og láta umræddar beygjuakreinar halda sér. Flutti ég tillögu þar að lútandi á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 13. ágúst sl.
Rétt hefði verið að afgreiða áðurnefnda tillögu hratt og örugglega enda er hún um yfirstandandi framkvæmd. Það ætla borgarfulltrúar meirihlutans sér hins vegar ekki að gera. Þegar tillagan var lögð fram var afgreiðslu hennar frestað að ósk meirihlutans. Á næsta fundi ráðsins, 20. ágúst, var tillögunni síðan vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. Er þetta þekkt leið meirihlutans til að svæfa tillögur enda tekur oft margar vikur eða mánuði í kerfinu að skrifa jafnvel stuttar umsagnir þegar um tillögur frá Sjálfstæðisflokknum er að ræða. Af málsmeðferðinni að dæma hefur meirihlutinn því lítinn hug á að bæta úr því ófremdarástandi, sem ríkir á gatnamótum Höfðabakka og Bæjarháls.
Umferðartafaskattur meirihlutans
Umferðartafir í Reykjavík hafa aukist mjög undanfarin ár, ýmist vegna aðgerða eða aðgerðaleysis vinstri meirihluta undir stjórn Samfylkingarinnar. Meirihlutinn hefur markvisst aukið á þennan vanda, nú síðast með tafaaðgerðinni á gatnamótum Höfðabakka og Bæjarháls.
Ætla má að árlegur kostnaður einstaklinga vegna umferðartafa á höfuðborgarsvæðinu sé ekki undir 70 milljörðum króna en að þjóðhagslegur kostnaður sé mun hærri. Ljóst er að verulegur hluti þessa kostnaðar er óþarfur þar sem hann er tilkominn vegna aðgerða eða aðgerðaleysis borgaryfirvalda. Slíkur viðbótarkostnaður er því óbein skattlagning á borgarbúa. Auðvelt væri að draga verulega úr þeirri skattlagningu ef vilji væri fyrir hendi hjá núverandi meirihluta borgarstjórnar. Svo er því miður ekki.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. ágúst 2025.

