3. september 2025

Mikilvægar en vandmeðfarnar breytingar

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Síðasta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna jók til muna framlög til almannatrygginga, svo hagur þeirra sem á þær treysta vænkaðist umfram aðra. Þá voru loks gerðar þarfar breytingar á örorkulífeyriskerfinu af sömu ríkisstjórn síðastliðið vor. Breytingarnar, sem eiga að einfalda kerfið, auka hvata til virkni og auka lífsgæði fólks með mismikla starfsgetu, tóku svo gildi á mánudaginn var, á nýju kjörtímabili.

Það sætir furðu hve mjög núverandi ráðherra málaflokksins er tilbúinn til að hampa lagabreytingunum. Hún, og flokkurinn sem hún er í forsvari fyrir, treysti sér nefnilega ekki til að greiða atkvæði með breytingunum heldur sat hjá þegar þær urðu að lögum. Nú kveður við annan tón; ráðherrann er himinlifandi og hikar ekki við að eigna sér verkið. Núverandi ríkisstjórn hefur svo sem verið tamt að kenna síðustu ríkisstjórn um allt það sem miður hefur farið en eigna sér góðu málin.

Tvö þeirra mála ríkisstjórnarinnar sem dagaði uppi við lok síðasta þings voru annars vegar um tengingu bóta við launavísitölu og hins vegar um víxlverkun örorkulífeyrisgreiðslna, sem bæði fela í sér neikvæða hvata til vinnu, gagnstæða þeim jákvæðu hvötum sem felast í nýja örorkulífeyriskerfinu.

Um síðarnefnda frumvarpið var fjallað í grein í Morgunblaðinu í gær og þann möguleika að tekjur einstaklinga eftir orkumissi verði hærri en á vinnumarkaði, verði frumvarpið að lögum. Aðspurð sagðist ráðherrann, Inga Sæland, ekki hafa áhyggjur af slíku, laun þyrftu þá einfaldlega að hækka. Deginum ljósara er að slíkt er ekki sjálfbært til lengri tíma og eins konar höfrungahlaup án atrennu óhjákvæmileg afleiðing. Verðstöðugleika yrði eðli máls samkvæmt ógnað og lágir vextir draumsýn ein.

Fyrirhuguð tenging bóta almannatrygginga við launavísitölu er engu skárri hugmynd, meira að segja að mati fjármálaráðherra sem á sæti í þeirri ríkisstjórn sem lagði frumvarpið fram. Breytingin skapar kannski aukið gagnsæi varðandi þróun bótafjárhæða en tilgangurinn helgar ekki meðalið hér. Bætur gætu hækkað meira en laun, verði frumvarpið að lögum, og að endingu orðið hærri en laun í vissum störfum. Af hverju ætti nokkur að velja sér slíkt starf? Sama hringrás færi þá af stað; þrýstingur yrði til hækkunar launa, verðbólgu og vaxta. Ekkert velferðarkerfi stendur þróun sem þessa af sér.

Að baki íslenska velferðarkerfinu stendur þróttmikið atvinnulíf. Ef vilji ríkjandi stjórnvalda stendur til þess að efla velferðarkerfið er þess vegna nauðsynlegt að þau geri allt sem í sínu valdi stendur til að tryggja undirstöður verðmætasköpunar hér á landi.

Öflugt velferðarkerfi er ekki, og verður ekki, byggt upp á innistæðulausum og óábyrgum loforðum. Á því tapa allir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. septepber 2025.