Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Í aðdraganda kosninga hét Kristrún Frostadóttir því að hún ætlaði að beita sleggju til að ná niður vöxtum. Nú hefur vaxtalækkunarferlið stöðvast og stýrivextir haldast óbreyttir. Það blasir við að sleggjunni hefur verið beitt, en í ranga átt.
Í stað þess að slá á rót vandans hefur ríkisstjórnin slegið á heimilin, á fyrirtækin og á framtakið sjálft. Hún hefur grafið undan trúverðugleika eigin stefnu með því að auka ríkisútgjöld, hækka skatta og stuðla að óvissu. Þannig verða hvorki til skilyrði fyrir lægri verðbólgu né lægri vöxtum.
Þetta er ekki tilviljun. Þetta er afleiðing stefnuleysis.
En þetta stefnuleysi kemur ekki á óvart. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru fjölmörg fögur fyrirheit, en hvergi er að finna skýra greiningu á stöðu mála, forgangsröðun verkefna eða raunhæft mat á kostnaði. Þar er lofað auknum útgjöldum, kerfisbreytingum og nýjum markmiðum í öllum málaflokkum samtímis, án þess að sýnt sé fram á hvernig eigi að ná tökum á ríkisfjármálum, skapa traust og stuðla að lækkun vaxta.
Húsnæðismarkaðurinn sýnir afleiðingarnar af þessari stefnu. Verktakar bíða. Fjárfestar halda að sér höndum. Unga fólkið sér drauminn um eigið húsnæði fjarlægjast vegna hærri fjármagnskostnaðar. Í stað þess að auðvelda uppbyggingu þrengir ríkið að með flóknara regluverki og hækkun skatta. Því er haldið fram að það stuðli að lægra húsnæðisverði, en framboðið minnkar og verð hækkar.
Seðlabankinn hefur ítrekað að verðbólga lækkar ekki nema ríkisfjármálin styðji við. Það er ekki hægt að skapa stöðugleika án ráðdeildar og festu. Engin sleggja getur leyst þann vanda.
Þá er einnig að finna í stjórnarsáttmálanum dulbúin fyrstu skref að aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þjóðaratkvæðagreiðsla um slíkar viðræður á að fara fram eigi síðar en 2027. Þetta er stefna Viðreisnar, en hún byggist ekki á stuðningi þjóðarinnar. Hið sama á við um gjaldmiðilinn. Ríkisstjórnin hyggst fela erlendum sérfræðingum að meta kosti og galla krónunnar og valkosti Íslands. Í stað þess að byggja á þekkingu og reynslu innlendra sérfræðinga, sem þekkja íslenskt efnahagslíf í raun, er leitað út fyrir landsteinana. Það vekur spurningar um hvort markmiðið sé í raun að fá hlutlægt mat, eða undirbúa niðurstöðu sem styður fyrir fram ákveðna pólitíska stefnu um inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru.
Í öryggis- og varnarmálum er einnig stefnuleysi. Netöryggi er aðeins nefnt í framhjáhlaupi, og engar áætlanir eru lagðar fram um vernd mikilvægra innviða, orkukerfa eða fjarskipta. Þetta á sér stað á sama tíma og spennan vex á norðurslóðum og samstarfið við Bandaríkin kallar á skýra stefnu. Ríkisstjórnin talar um að móta varnarmálastefnu, en hún á að vera til staðar nú þegar, ekki síðar.
Það er ekki nóg að segjast ætla að lyfta sleggju. Stjórnmál snúast ekki um stóryrði heldur um ábyrgð, forgangsröðun og skýra stefnu.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur skýra sýn á hvernig hægt er að ná niður vöxtum og byggja upp efnahagslegan stöðugleika:
Við leggjum áherslu á ráðdeild og aðhald í opinberum fjármálum. Við viljum lækka álögur á heimili og fyrirtæki. Við viljum hvetja til fjárfestinga og stuðla að einfaldara regluverki. Við viljum skapa frelsi til athafna þannig að kraftar einstaklinganna fái að njóta sín.
Ísland á skilið skýra og ábyrga stefnu sem treystir fólkinu til framtíðar. Það er sú sýn sem Sjálfstæðisflokkurinn byggir á, og þeirri sýn mun ég vinna áfram að með festu og trúverðugleika.

