Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Það er þetta með orðin og staðreyndirnar. Það má halda ýmsu fram en í reynd er aldrei hægt að eiga kökuna og borða hana, staðan er annaðhvort góð eða slæm en aldrei bæði í einu. Staðreyndir eru líka þannig að þær er á endanum hægt að sannreyna eða hrekja. Þetta augljósa eðli þeirra hemur oftast yfirlýsingagleði fólks, en alls ekki alltaf.
Umhverfisráðherra segir ríkisstjórnina hafa „umbylt ríkisfjármálum á átta mánuðum“. Fleiri stjórnarliðar hafa séð tilefni til að klappa sér hraustlega á bakið fyrir þann meinta árangur og tiltaka sérstaklega að tekist hafi að selja allan hlut ríkisins í Íslandsbanka, leyst hafi verið úr vanda ÍL-sjóðs og að fjárlög verði hallalaus árið 2027.
Fjármálaráðherra lýsir þó á sama tíma vonbrigðum sínum með eigin fjármálaáætlun, hún hafi ekki skilað þeim árangri sem hann hafði vonast eftir og hvorki liðkað fyrir hjöðnun verðbólgu né lækkun vaxta. Óumflýjanlegt verði að grípa til aðgerða ef hagvísar breytist ekki brátt til hins betra. Boðað er frekara aðhald í haust, gerist þess þörf.
Bæði salan á Íslandsbanka og úrlausn ÍL-sjóðs eru raunar mál runnin frá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna, ekki þeirrar sem nú situr. Það er því alls óvíst hvort núverandi ríkisstjórn hefði fundið það hjá sér að klára þessi tvö mál ef síðasta ríkisstjórn hefði ekki lagt allan grunninn og lítið verið eftir annað en að ýta á takkann. Þá urðu markmið um hallalaus fjárlög árið 2027 að engu á milli þess sem fjármálaáætlun var lögð fram og þegar hún var svo samþykkt á Alþingi. Samt tala stjórnarliðar enn gegn betri vitund um það horfna hallaleysi fjárlaga sem staðreynd.
Ríkisstjórnin hefur sem sagt að eigin mati unnið mikla stórsigra, sem byggjast fyrst og fremst á vinnu fyrri ríkisstjórnar og eigin óskhyggju. En staðan er á sama tíma að hennar sögn vonbrigði og þörf á aðgerðum.
Það vekur veika von í hjarta að boðað sé „enn harkalegra aðhald í haust“. Sporin hræða þó. Það kemur fljótt í ljós hvort ráðherrar allir leggi sama skilning í stöðuna.
Svo er hitt, hvort „aðhaldið“ verði raunverulegt eða svokallað „aðhald á tekjuhlið“ sem virðist öflugasta aðhaldstæki vinstristjórnarinnar. Samkvæmt orðabók merkir orðið aðhald eftirlit með kröfum um árangur eða hlýðni, sparnaður eða megrun. Aðhald á tekjuhlið er nýtt öfugmæli stjórnarinnar og þýðir langoftast einfaldlega gjalda- eða skattahækkanir.
Nýmál og orwellískir orðafimleikar breyta ekki staðreyndum. Skattpíning er ekki aðferð sem skilar árangri. Leiðirnar til að skapa farsæld blasa hins vegar alltaf við, að skapa jarðveg fyrir hagvöxt og nýsköpun annars vegar en hins vegar raunverulegt aðhald í rekstri; hagræðing og skynsamleg nýting þeirra fjármuna sem þegar renna til ríkissjóðs.

