Helgi Áss Grétarsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Reykjavíkurborg er einstakt sveitarfélag á landsvísu. Það er langstærsta sveitarfélagið og ólíkt nánast öllum öðrum sveitarfélögum landsins býr borgin yfir stóru og fjölbreyttu eignasafni í B-hluta, en undir slíkan hluta falla rekstrareiningar á borð við Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir og Félagsbústaðir.
Í B-hlutann falla sem sagt sem fjárhagslega sjálfstæðar rekstrareiningar á meðan A-hlutinn er sá hluti rekstrarins sem að meginstefnu er fjármagnaður með skatttekjum. Til að flækja málið enn frekar er rekstur A-hlutans tvískiptur, annars vegar í aðalsjóð og hins vegar í eignasjóð.
Grunnrekstur A-hlutans er í ólagi
Grunnrekstur A-hlutans hefur um langt árabil verið veikur og hefur viðvarandi hallarekstur leitt til óhóflegrar skuldasöfnunar. Sem dæmi voru langtímaskuldir A-hluta borgarinnar, sem hlutfall af eigin fé, 152,1% í árslok 2024 en sambærilegt hlutfall var 43,1% í árslok 2014.
Í þessu samhengi er mikilvægt að átta sig á því að á síðustu árum hefur hár arður verið greiddur út úr B-hluta fyrirtækjum til A-hlutans ásamt því að nokkuð hátt hlutfall af tekjum A-hlutans hafa falist í einskiptisaðgerðum á borð við sölu lóða til uppbyggingaraðila. Tekjur af þessum toga eru til þess fallnar að lappa upp á grunnrekstur A-hlutans í stað þess að álögur séu lækkaðar á almenning í formi gjaldskrárlækkana B-hluta fyrirtækja og húsbyggjendum sé gert kleift að hefja uppbyggingu íbúða á viðráðanlegra verði en raunin hefur orðið.
Eru til staðar tækifæri til hagræðingar?
Bæði í A- og B-hluta Reykjavíkurborgar eru mýmörg tækifæri til að hagræða í rekstri. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hafa með reglulegu millibili lagt fram tillögur í þeim efnum. Eitt tækifæri sem ég sé er að endurskoða stefnu borgarinnar með tilliti til þess hvernig hinu mikla fasteignasafni borgarinnar er stýrt.
Sem dæmi er of algengt að framkvæmdir sem tengjast fasteignum borgarinnar fari fram úr áætlunum og viðhaldi fasteigna sé illa sinnt. Leikskólinn Brákarborg á Kleppsvegi 150-152 er eitt dæmi um slíkt, annað dæmi er sú krísa sem leikskólar í Vesturbæ Reykjavíkur glíma við, leikskólinn Grandaborg hefur meira og minna verið lokaður allt þetta kjörtímabil og fyrir skemmstu þurfti að loka Ægisborg vegna myglu en fyrir nokkrum árum hafði verið ráðist í kostnaðarsamar endurbætur við þann leikskóla.
Það er mín sannfæring að endurskipuleggja þurfi bæði rekstur eignasjóðs borgarinnar sem og ýmissa sviða innan umhverfis- og skipulagssviðs svo að betri árangur náist í rekstri fasteigna borgarinnar. Mörg tækifæri eru þar til hagræðingar.
Spennandi tímar framundan
Reykjavíkurborg hefur alla burði til að hafa framúrskarandi rekstur. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að skipta um pólitíska forystu í borginni. Samfylking og Píratar þurfa að víkja úr meirihluta en þessi tvö stjórnmálaöfl hafa undanfarin ár reynst sérlega skaðleg við fjármálastjórn borgarinnar. Borgarstjórnarkosningar fara fram í maí 2026 og vonandi komast þá til valda flokkar sem hafa það á stefnuskrá sinni að taka rækilega til í rekstri borgarinnar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. ágúst 2025.