Stýrikerfi samfélagsins

25. ágúst 2025

'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

 

Segja má að samfélög hafi ólík stýrikerfi. Í einræðisríkjum eru mikilvægustu þættir stýrikerfisins kúgun valdsins, spilling, ofbeldi og ótti. Frjáls, og vissulega ófullkomin, samfélög byggjast á sköpunargáfu, einstaklingsfrelsi, réttarríki og von. Það er stýrikerfi sem virkar og í þessu ljósi ætti að horfa á baráttu úkraínsku þjóðarinnar. Það er þetta stýrikerfi sem þau vilja tryggja fyrir framtíð barna sinna; þau horfa á árangur landa Eystrasaltsríkjanna og Póllands, sem hafa skipt út gamla sovéska stýrikerfinu fyrir stýrikerfi Vesturlanda. Hvorki stýrikerfi okkar né framkvæmd þess er gallalaus, á Vesturlöndum er líka spilling en grundvallarmunurinn er þessi; í frjálsum samfélögum er spilling villa í stýrikerfinu, sem við reynum að uppræta, en í einræðisríkjum er ekki villa í kerfinu, spillingin er stýrikerfið sjálft.

Allir ábyrgir einstaklingar, hvort sem þeir eru stjórnmálamenn, listamenn eða áhrifamenn í viðskiptum, verða að skilja að þeir þurfa að taka þátt í að verja kjarnagildin sem mynda stýrikerfið. Þetta á við um tjáningarfrelsi, réttarríkið, frjálsa markaðssamkeppni og hina almennu hugmynd um sanngirni í samfélagi, að allir hafi tækifæri til að leggja sitt af mörkum og byggja sér gott líf.

Traust er samfélagslím

Þessu tengt, mér brá nokkuð við framsetningu á frétt Financial Times í síðustu viku. Í inngangi fréttar blaðsins um yfirvofandi ákærur á hendur eiginkonu Pedros Sanchez forsætisráðherra Spánar stóð að ákærurnar væru til marks um stigmögnun í átökum ráðherrans við spænska dómstóla. Financial Times er einn vandaðasti fjölmiðill heims og má því gera ráð fyrir að orðaval í viðkvæmum málum sé gaumgæft af mikilli natni og að fréttir hljóti yfirvegaða rýni fólks með þroskaða dómgreind áður en þær eru sendar í prentvélina eða út á netið.

En hvað var það sem mér fannst áhugavert við þessa framsetningu? Jú, það er að í raunverulegu réttarríki er það grundvallarforsenda að dómstólar og saksóknarar séu sjálfstæðir og að öll standi jöfn gagnvart ákvörðunum þeirra, sama með hverjum þau deila hjónasæng. Sambærileg mál eiga að hljóta sambærilega meðferð, óháð því hver á í hlut, enda er gyðjan sem heldur á vogarskál réttlætisins með bundið fyrir augu og fer ekki í manngreinarálit. Í raunverulega réttlátu samfélagi séum við öll nákvæmlega jöfn gagnvart lögunum.

Það er mikil ábyrgð að fara með vald til þess að leggja fram ákærur og dæma um refsingu samborgara sinna. Í réttarríki ætti því að þykja kyndugt að setja málshöfðanir í það samhengi að þær séu hluti af einhvers konar deilum milli dómsvaldsins og þeirra sem standa næst sakborningunum. Framsetning Financial Times undirstrikar því að blaðið virðist ekki telja sjálfstæði og hlutleysi hins spænska dómsvalds fyllilega hafið yfir vafa í þessu tilviki.

Þetta er því miður hluti af þróun sem hefur verið víða á Vesturlöndum undanfarin ár og líklega gengið hvað lengst í Bandaríkjunum. Þar eru dómarar í æðstu embættum skipaðir ekki einungis á grundvelli lagalegrar færni heldur einnig út frá pólitískri hugmyndafræði. Pólitísk misnotkun á réttarkerfinu hefur því orðið að beittu tæki í bandarísku stjórnmálalífi á undanförnum árum þar sem bæði repúblikanar og demókratar reyna að flækjast fyrir hinum með því að kaffæra þá í misgáfulegum málaferlum.

„Það stoðar ekki að deila við dómarann,“ reyna samviskusamir foreldrar að kenna börnum sínum á íþróttamótum þótt erfitt geti verið að fylgja þeirri reglu þegar keppnisskap hleypur í foreldrana sjálfa. Það ætti því að jafnaði að þykja verulegt áfall fyrir stjórnmálamann í réttarríki ef sjálfstæðir saksóknarar og dómstólar telja tilefni til þess að setja fram ákærur á hendur þeim eða einhverjum nátengdum, eins og raunin er nú á Spáni. Ef dómstólum er ekki treyst verður hins vegar ómögulegt að greina á milli þeirra sem þurfa að svara til raunverulegra saka og hinna sem ofsóttir eru að ósekju.

Traust fjölmiðla

Næst trausti á réttarkerfinu er líklega verðmætast fyrir samfélög að hafa aðgang að traustum og trúverðugum fjölmiðlum. Það skiptir máli hvort grandvar fjölmiðill eins og Financial Times eða óábyrgur áróðursmiðill setur ákærur á hendur fjölskyldu spænska forsætisráðherrans í það samhengi að þau endurspegli átök milli tveggja aðila frekar en ómengaða varðstöðu sjálfstæðra yfirvalda um réttarríkið. Traust á dómskerfinu og fjölmiðlum er því mikil samfélagsverðmæti sem allt ábyrgt fólk þarf að sameinast um að verja. Þar standa í fremstu víglínu þjónar réttarríkisins sjálfir og fjölmiðlafólk.

Dómstólar þurfa að vera réttlátir og hlutlausir en fjölmiðlar þurfa að vera sanngjarnir og sannsöglir, þótt þeir njóti þess frelsis að geta nálgast viðfangsefni sín út frá þeirri hugmyndafræði sem þeir aðhyllast. Við hin þurfum að vera vönd að virðingu okkar í umtali um réttarkerfið og í samskiptum við fjölmiðla.

Sjálfstæðir dómstólar og sjálfstæðir fjölmiðlar eru harðkóðaðir í stýrikerfi okkar og fyrir okkar fámenna samfélag þurfa þau sem fara með ábyrgð og völd á þessum sviðum að standa áfram undir því mikilvæga trausti, fyrir farsæld okkar sem frjáls samfélags.