Er Orkuveitan áhættufjárfestingasjóður?

21. ágúst 2025

'}}

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Ljósleiðarinn, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur (OR), stendur nú fyrir kynningarátaki með því að birta valda kafla úr sögu fyrirtækisins og forvera þess, sem hétu Lína.net og Gagnaveita Reykjavíkur. Vonandi verður almenningur einnig upplýstur um stöðu Ljósleiðarans og framtíðaráform enda er fyrirtækið í almannaeigu. Byrja mætti á því að kynna afkomu fyrirtækisins og uppsöfnuð framlög skattgreiðenda til þess í gegnum tíðina.

28.768 milljónir

Orkuveitan hefur á 26 ára tímabili lagt 28.768 milljónir króna í fjarskiptarekstur á samkeppnismarkaði, þ.e. í rekstur Ljósleiðarans og forvera hans (verðlag í júlí 2025). OR hefur því greitt rúmlega milljarð króna árlega með þessum rekstri í 26 ár, rekstri sem átti upphaflega að standa undir sér og vera sjálfbær. Færa má rök fyrir því að þessi tala sé í raun mun hærri þar sem OR fjármagnaði hluta framlaganna fyrir hrun með erlendum lánum, sem síðan stökkbreyttust.

Sjálfsagt er að viðskiptavinir OR verði upplýstir um áðurnefnda upphæð og viti þannig í hvað peningarnir þeirra fara. Þeir hafa greitt þetta allt saman með hærri orkugjöldum en ella.

Grundvallarspurningin er sú hvort hluti orkugjalda Reykvíkinga eigi að renna til áhættufjárfestinga í samkeppnisrekstri, sem óvíst er hvort muni nokkurn tímann skila sér til baka.

Aldarfjórðungs fjárvöntun

Árið 1999 stofnaði þáverandi vinstri meirihluti í Reykjavík fjarskiptafyrirtækið Línu.net. Síðar var nafni fyrirtækisins breytt í Gagnaveitu Reykjavíkur og loks í Ljósleiðarann ehf.

Upphaflega var samþykkt að leggja þessu dótturfélagi OR til allt að 200 milljónir kr. í hlutafé, sem síðan átti að selja með góðum hagnaði. Enn hefur enginn hlutur verið seldur úr Ljósleiðaranum eða forverum hans. Framlög OR til fyrirtækisins hafa verið mörg og mikil en í hvert sinn hefur verið sagt að til frekari framlaga þurfi ekki að koma. Það hefur aldrei gengið eftir og virðist fjárvöntun Ljósleiðarans vera viðvarandi.

Tugmilljarða skuldir

Auk beinna framlaga hefur Ljósleiðarinn safnað miklum skuldum í skjóli Orkuveitunnar en um síðustu áramót námu þær 25.687 milljónum króna. Þá námu uppsöfnuð framlög til fyrirtækisins og skuldir þess samanlagt um 54.455 milljónum króna.

Tap af rekstri Ljósleiðarans nam 731 milljón króna í fyrra en 570 milljónum árið 2023.

Árið 2022 ákvað vinstri meirihlutinn í borgarstjórn að auka umsvif Ljósleiðara OR í áhætturekstri með því að fara í útrás á landsbyggðinni, utan skilgreinds starfsvæðis OR.

Í þessu skyni keypti Ljósleiðarinn stofnnet Sýnar á þrjá milljarða króna. Stofnnetið var við sölu bókfært á 564 milljónir og var söluhagnaður Sýnar því 2.436 milljónir. Umrædd kaup höfðu í för með sér nokkurra milljarða króna viðbótarskuldsetningu fyrir Reykjavíkurborg á háum vöxtum.

Sala hlutafjár

Löngu er orðið tímabært að OR losi um hlut sinn í Ljósleiðaranum og nái til baka a.m.k. hluta af því mikla fé, sem runnið hefur til félagsins. Óviðunandi er að borgarbúar séu látnir fjármagna viðvarandi taprekstur með þessum hætti og að tugmilljarðar króna af almannafé séu bundnir til langframa í áhættustarfsemi á síbreytilegum fjarskiptamarkaði.

Árið 2023 var ákveðið að auka hlutafé Ljósleiðarans ehf. og fá nýja fjárfesta til liðs við félagið. Áformað var að sala hlutafjárins yrði til lykta leidd á árinu 2024. Það gekk því miður ekki eftir þar sem áhugi fjárfesta reyndist ekki vera nægilegur.

Æskilegt er að mörkuð verði skýr stefna um að selja allt hlutafé Ljósleiðarans og losa OR þannig úr áhættusömum fjarskiptarekstri. Nota ætti andvirðið til að lækka skuldir OR, sem námu 244 milljörðum króna um síðustu áramót.

Leyndarhjúpur um Ljósleiðarann

Undanfarin ár hefur leyndarhyggjan um málefni Ljósleiðarans verið með ólíkindum. Á meðan samningaviðræður stóðu yfir milli Ljósleiðarans og Sýnar var upplýsingum um þær markvisst haldið frá kjörnum fulltrúum og trúnaðar krafist um þær takmörkuðu upplýsingar sem þó voru veittar. Eftir að samningurinn lá fyrir bannaði vinstri meirihlutinn umræður um málefni Ljósleiðarans í borgarstjórn um fjögurra vikna skeið í trássi við sveitarstjórnarlög.

Á fundi borgarráðs 14. ágúst sl. fór fram kynning á nýjum áformum Ljósleiðarans. Eins og fyrri daginn var farið fram á algjöran trúnað um efni kynningarinnar. Þrátt fyrir að Ljósleiðarinn sé borgarfyrirtæki hafa áform þess ekki enn verið kynnt fyrir borgarfulltrúum, hvað þá almenningi eða fjölmiðlum. Óeðlilegt er að viðhafa slíka leyndarhyggju um fyrirtæki, sem er að fullu í eigu almennings.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. ágúst 2025