Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Nýlega kynnti dómsmálaráðherra aðgerðir í útlendinga- og öryggismálum sem hún kallaði „nýja nálgun“. Þar boðaði hún sérstakar ráðstafanir gegn brotlegum útlendingum, afturköllun alþjóðlegrar verndar fyrir sakamenn, aukið landamæraeftirlit, stofnun brottfararmiðstöðvar og samninga við flugfélög um farþegalista. Þetta er allt saman góðra gjalda vert, en þessi nálgun er ekki ný af nálinni þótt hún kunni að vera það hjá flokki dómsmálaráðherrans. Í mars á síðasta ári sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, að Viðreisn drægi línuna við brottfararúrræðin en væri tilbúin í umræður um móttökumiðstöð.
Í tíð síðustu ríkisstjórnar var unnið markvisst að umbótum í málaflokknum, þvert á fullyrðingar dómsmálaráðherrans um stefnuleysi. Vorið 2024 samþykkti þáverandi ríkisstjórn heildarsýn í útlendinga- og hælisleitendamálum með 20 aðgerðum til úrbóta, þangað sem dómsmálaráðherrann sækir nú innblásturinn. Ný landamærastefna var mótuð og samþykkt á síðasta ári vel áður en ráðherrann, sem nú kallar þetta byltingu, tók þar við.
Raunveruleikinn er sá að þessar hugmyndir fengu ekki eins skjótan framgang og sjálfstæðismenn hefðu kosið. Bæði var andstaða við umbætur á útlendingalöggjöfinni innan síðustu ríkisstjórnar en einnig hjá stjórnarandstöðunni sem þvældi málum og tafði út í eitt þrátt fyrir að Ísland væri með veikustu útlendingalöggjöf allra Schengen-ríkja. Það virðist þó ekki bundið við síðustu ríkisstjórn því útlendingamálin fá ekki heldur skjótan framgang hjá þeirri ríkisstjórn sem nú er við völd sem sást einna best á því að frumvarp dómsmálaráðherrans um breytingar á útlendingalögum var ekki sett á dagskrá af meirihlutanum í vor. Enda er það líklega verst geymda leyndarmál þessarar ríkisstjórnar að það er ekki einhugur um að setja strangari kröfur í útlendingalöggjöfinni innan ríkisstjórnarflokkana og í þeim efnum verður ekki bæði haldið og sleppt.
Sú sem nú stendur í stafni í dómsmálaráðuneytinu er ein þeirra sem hefur tekið 180 gráðu snúning frá því þegar hún gagnrýndi áherslur okkar, sem hún talar núna um sínar eigin, og spurði hvar mannúðlegu úrræðin væru að finna og sagði í umræðum á Alþingi um útlendingafrumvarpið 2023 sína „gagnrýni á þetta frumvarp á fyrri stigum hefur einfaldlega verið sú að mér hefur fundist vanta upp á viljann til að taka á móti fólki á flótta“. Allur þingflokkur Samfylkingarinnar eins og hann lagði sig og nokkrir þingmenn Viðreisnar voru sem dæmi meðflutningsmenn á frumvarpi Pírata um afnám þjónustusviptingar sem komið var á með breytingum sem ég gerði á útlendingalöggjöfinni í ráðherratíð minni.
Sömu flokkar og tala nú um stefnuleysi í málaflokknum síðustu ár. Núverandi dómsmálaráðherra var ein þeirra sem studdi þingsályktunartillögu um að stöðva endursendingar hælisleitenda til Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands. Margir núverandi ráðherra, þ. á m. forsætisráðherrann, voru meðal flutningsmanna tillögunnar. Það geta allir gert sér grein fyrir því hver áhrifin hefðu orðið hefði þeirra stefna þá orðið ofan á. Í reynd hefðu þá allir hælisleitendur og flóttamenn þessara þriggja ríkja, sem telja a.m.k. hundruð þúsunda, getað flogið til Íslands og fengið hér alþjóðlega vernd ásamt allri þeirri félagslegu þjónustu sem því fylgir. Vart er hægt að ímynda sér óábyrgari afstöðu, en þetta var þó afstaða núverandi dómsmálaráðherra.
Í ráðherratíð minni lýsti ég því hversu alvarleg staðan væri orðin í útlendingamálum. Að fjöldinn væri slíkur að innviðir okkar réðu ekki lengur við – og lagði af þeim sökum fram útlendingafrumvarp. Viðbrögð stjórnarandstöðu þess tíma var ómakleg og ómarkviss. Þingmenn Viðreisnar og Pírata sökuðu mig um að spila inn á ótta fólks í stað þess að horfast í augu við vandann. Margir núverandi ráðherra sátu hjá eða kusu jafnvel gegn góðum málum til þess að stemma stigu við vaxandi fjölda sem leitaði hingað til lands. Þorbjörg Sigríður greiddi til að mynda atkvæði á móti sambærilegum úrræðum á síðasta kjörtímabili. Það er því óneitanlega öfugsnúið að hlusta á hana tala fyrir sömu lagabreytingum og sama verklagi – nema hvað nú hentar það pólitískt og gengur undir nýju nafni.
Sömu sögu má segja um lögreglu- og öryggismál. Við lögðum áherslu á að styrkja löggæslu og veita lögreglu nauðsynleg úrræði gegn vaxandi glæpastarfsemi. Þess vegna lagði ég fram frumvarp um forvirkar rannsóknarheimildir og aukinn búnað lögreglu – því miður í skugga þess að vopnuð glæpagengi hefðu skotið hér rótum. Þá sögðu flokkarnir sem nú skipa ríkisstjórn landsins að við hefðum farið offari. Sem betur fer tókst að knýja lögreglufrumvarpið í gegn á síðasta kjörtímabili og ég get ekki ímyndað mér að núverandi ríkisstjórn hafi í hyggju að draga breytingarnar sem við gerðum á málaflokknum til baka.
Það er fullkomlega eðlilegt að menn endurskoði afstöðu sinna til ýmissa mála þegar aðstæður breytast. Það getur jafnvel verið þroskamerki. En það verður að gerast af heilindum. Núverandi ráðherra hefur augljóslega tekið upp margar þeirra áherslna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir og lagt fram á þinginu, sem er vel og það hafa aðrir ráðherrar svo sem einnig gert í öðrum málaflokkum. En það fer ráðherranum ekki vel að fara frá því að berjast gegn og kjósa á móti þessum hugmyndum Sjálfstæðisflokksins yfir í að eigna sér sömu stefnu um leið og hún gefur Sjálfstæðisflokknum langt nef.
Við höfum alltaf talað fyrir ábyrgri, skýrri útlendingastefnu og við munum að sjálfsögðu styðja með ráðum og dáðum við breytingar í rétta átt í útlendingamálum. Á endanum skiptir aðeins eitt máli og það er öryggi borgaranna. Við skulum vinna áfram að raunverulegum lausnum fyrir íbúa þessa lands.