Börnin eiga betra skilið

21. ágúst 2025

'}}

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Staða íslenskra grunnskóla er mikið áhyggjuefni. Námsárangri fer hrakandi samkvæmt PISA-könnunum og er Ísland í sjötta neðsta sæti allra OECD-landa samkvæmt heildarniðurstöðu PISA frá árinu 2022. Íslenskir grunnskólanemar stóðu þá höllustum fæti evrópskra nemenda í lestri, stærðfræði og náttúruvísindum að Grikkjum undanskildum. Ekkert OECD-ríki lækkaði jafnmikið á milli kannana og Ísland. Eftir tíu ára nám bjuggu 40% nemenda ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi, 36% ekki yfir grunnhæfni í náttúruvísindum og 34% ekki í stærðfræði.

Óviðunandi árangur

Í menntamálum þarf að snúa vörn í sókn. Auk óviðunandi árangurs fjölmargra einstaklinga er hætt við að léleg frammistaða skólakerfisins dragi smám saman úr framleiðni og bitni á lífskjörum þjóðarinnar.

Skortur er á upplýsingum um stöðu mála í menntakerfinu og er það tvímælalaust hluti vandans. Samræmd próf hafa verið lögð niður og eru því aðrir samræmdir mælikvarðar en PISA ekki tiltækir á landsvísu.

Því miður er hvorki hægt að greina á milli einstakra skóla né sveitarfélaga í þeim niðurstöðum, sem kynntar hafa verið um PISA-könnunina hérlendis. Slík fíngreining tíðkast hins vegar víða erlendis og þykir sjálfsagður hluti af umbótaferli í skólamálum. Þar gefst því dýrmætt tækifæri til að sjá stöðu einstakra skóla og sveitarfélaga og nýta þær upplýsingar til umbóta. Æskilegt er að slík fíngreining liggi fyrir næst þegar niðurstöður PISA verða kynntar hérlendis.

Endurvekjum samræmd próf

Brýnt er að samræmd próf verði tekin upp að nýju í 4., 7. og 10. bekk í því skyni að leiða í ljós hvernig nemendum hefur tekist að tileinka sér sem flesta þætti aðalnámskrár. Prófin eru hvetjandi og stuðla að jafnræði og gagnsæi. Virk og regluleg endurgjöf felur í sér ótal tækifæri til úrbóta fyrir nemendur, foreldra, skóla og yfirvöld menntamála.

Einnig er mikilvægt að endurverkja einkunnakerfi á talnaskala, þ.e. frá 1 – 10. Núverandi einkunnagjöf í bókstöfum er illskiljanleg og ruglandi fyrir nemendur, foreldra og nemendur.

Sveitarfélög annast rekstur grunnskóla og því geta þau margt gert til að bæta menntun og námsárangur. Grundvöllur í öllu umbótastarfi er að góðar upplýsingar liggi fyrir um stöðuna svo unnt sé að setja skýr og mælanleg markmið. Mikilvægt er að samræmdar mælingar á frammistöðu hvers grunnskóla liggi fyrir og að þær séu nýttar til að bæta starf á öllum stigum.

Pottur brotinn í Reykjavík

Ljóst er að mat á reykvískum grunnskólum er algerlega ófullnægjandi. Metnaðarleysi og meðvirkni ríkir hjá skólastjórnendum að því er fram hefur komið í viðtölum við Arnar Ævarsson, sérfræðings í menntamálum og fyrrverandi verkefnastjóra í ytra mati hjá Reykjavíkurborg. Arnar segist hafa gert tilraun til að færa fræðilega þekkingu inn í framkvæmd á ytra mati hjá borginni en án árangurs. Innan kerfisins sé mikill ótti við að viðurkenna að skólastarf sé á rangri leið og ytra mat hafi ekki verið framkvæmt með réttum hætti. Um algjört fúsk er að ræða að sögn Arnars.

Frá árinu 2010 hefur meirihlutasamstarf vinstri flokka verið ráðandi í Reykjavík undir forystu Samfylkingarinnar. Mjög hefur skort á metnað og pólitíska forystu í menntamálum á þessu tímabili. Áherslan hefur verið á margvísleg gæluverkefni en efling eiginlegrar menntunar setið á hakanum eins og síversnandi árangur nemenda sýnir. Sérstök menntastefna Reykjavíkurborgar til 2030, sem samþykkt var 2018, byggist á frösum og froðusnakki en veitir litlar leiðbeiningar um raunverulegar umbætur í menntamálum.

Skóla- og frístundamál eru langumfangsmesti málaflokkur borgarinnar. Í ár er áætlað að útgjöld málaflokksins nemi um 83 milljörðum króna eða um 52% af skatttekjum borgarinnar. Eitt mikilvægasta verkefni næstu ára er að bæta grunnskólamenntun í Reykjavík eftir þá stöðnun og forystuleysi, sem ríkt hefur í málaflokknum undanfarin fimmtán ár. Börnin eiga það skilið.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. ágúst 2025