Þrálátt aðgerðaleysi gegn verðbólgu

20. ágúst 2025

'}}

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Ríkisstjórnin sem ætlaði að berja niður vextina með sleggju hefur ekki haft erindi sem erfiði. Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga var ítrekað gert lítið úr þeim árangri sem hafði náðst í baráttunni við verðbólguna. Sú barátta var þrátt fyrir allt á réttri leið af hálfu þáverandi ríkisstjórnar en núverandi stjórnarliðar þóttust geta gert mun betur. Ganga átti hreint til verks, grípa til aðgerða sem gætu skilað árangri hratt og vel íslenskum heimilum til hagsbóta. Ekkert hefur farið fyrir slíkum aðgerðum til þessa og verðbólgan virðist pikkföst langt frá markmiðum Seðlabankans.

Fyrst um sinn héldu forsvarsmennirnir áfram að lofa upp í ermina á sér. Við myndun ríkisstjórnarinnar var því til dæmis lýst yfir að fyrsta verk yrði að ná stöðugleika í efnahagslífi og lækkun vaxta með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins. Hagræðingartillögur sem haldinn var sérstakur blaðamannafundur um í upphafi kjörtímabils hafa þó enn ekki látið á sér kræla á sama tíma og kostnaðarsöm útgjaldaloforð hafa sprottið upp eins og gorkúlur að hausti.

Bjartsýnismenn segja að ríkisstjórnin hafi enn ekki fengið að sýna á efnahagslega ábyrgu spilin sín og bíða þurfi framlagningu fjárlaga. Nýsamþykkt fjármálaáætlun til ársins 2030 segir hins vegar allt sem segja þarf enda skulu fjárlög vera í samræmi við markmið hennar. Fátt bendir til þess að aðstæður batni í bráð, ef nokkuð. Fjárlögin hafa vissulega ekki verið lögð fram en fá teikn eru á lofti um að þar verði gripið til skynsamlegra aðgerða í þágu ábyrgra ríkisfjármála. Það borgar sig allavega ekki að halda niðri í sér andanum.

Það er ekkert launungarmál að síðustu loturnar í baráttunni við verðbólguna eru erfiðar. Þær vinnast þó ekki á innantómum loforðaflaumi heldur krefjast þess að teknar séu erfiðar og efalaust óvinsælar ákvarðanir. Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga var ákveðinn samhljómur á milli flestra flokka þess efnis. Meira að segja þeir sem áður töluðu fyrir fjáraustri hins opinbera töluðu fyrir ábyrgð í rekstri og minni afskiptum, einhverju sem annars hefur eingöngu helst mátt finna í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Til þess að fylgja slíkum stefnumálum eftir þarf hins vegar pólitískt þor og getu.

Nú þegar á hólminn er komið virðist handhafi meintu vaxtasleggjunnar hafa misst áhugann á því að berja niður vextina. Kannski vegna þess að henni varð ljóst að umtalsvert auðveldara er að afla sér vinsælda með öðrum leiðum. Helst má heyra af málflutningi ríkisstjórnarinnar að ofuráhersla á inngöngu í Evrópusambandið eigi að vera einhver allsherjartöfralausn, eins furðulega og það hljómar. Á meðan ríkisstjórnin forgangsraðar því miður aðgerðum sínum og áherslum eins og raun ber vitni borgar þjóðin brúsann.