Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Staða viðskiptaumhverfis Íslands hefur versnað og óvissa ríkir um framhaldið. Það er grafalvarleg staða fyrir lítið útflutningsdrifið hagkerfi. Hagsmunagæsla stjórnvalda í utanríkisviðskiptum Íslands er alltaf mikilvæg, en á umbrotatímum fær hún aukna þýðingu. Það hafa verið vonbrigði að fylgjast með framgöngu og forgangsröðun stjórnvalda í þeim efnum frá því að ný ríkisstjórn tók við.
Þingmenn fá upplýsingar úr norskum fjölmiðlum
Þingmenn, þ.m.t. í utanríkismálanefnd, fengu upplýsingar um fyrirhugaða verndartolla ESB á mikilvægan íslenskan iðnað gegnum norska fjölmiðla. ESB hyggst s.s. sæta færis, nú þegar „velviljaðar“ ríkisstjórnir sitja á Íslandi og í Noregi, og þverbrjóta ákvæði EES-samningsins með því að leggja tolla á mikilvæga atvinnugrein í EES-löndunum. Málið hefur verið í farvegi mánuðum saman. Á undanförnum dögum hefur utanríkisráðherra loks haldið réttindum okkar samkvæmt samningnum opinberlega til haga skýrum orðum. Mér er kunnugt um að fjölmargir þingmenn hafi lagst á sveif með atvinnulífinu og stjórnvöldum við þessi tíðindi. Við eigum enda sameiginlegra hagsmuni að gæta að reyna að koma í veg fyrir ofríki ESB í þessum efnum. Trúnaður okkar þingmanna og stjórnvalda á að vera gagnvart íslenskum borgurum og atvinnulífi.
Hagsmunagæsla gagnvart Bandaríkjunum
Íslendingar vöknuðu síðan upp við vond tíðindi þegar tilkynnt var að Bandaríkin hefðu horfið frá upphaflegri flokkun okkar um 10% grunntollinn svokallaða. Þess í stað vorum við flokkuð á ný og nú með ESB í 15% tollflokki. Hvað skýrir þessa hækkun? Á fundi utanríkismálanefndar um málið spurði undirrituð út í hagsmunagæslu Íslands í þessum málum og skildist á svörunum sem bárust að hún hefði ekki verið beysin. Á meðan stjórnmálamenn hvaðanæva hafa verið að heimsækja Bandaríkin í röðum vegna yfirvofandi tollheimtu, hafa íslenskir ráðamenn verið með hugann við ESB. Því miður hafa Brussel-ferðir og þyrluflug ekki skilað árangri, þvert á móti.
Gleymið ykkur ekki í framtíðardraumum um ESB!
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með utanríkismálin í síðustu ríkisstjórnum var lögð gríðarleg áhersla á utanríkisviðskipti. Hagsmunagæslan í EES-samstarfinu var m.a. aukin til muna og í raun endurreist, en í tíð síðustu hreinu vinstristjórnar lagðist hún af vegna tímans og mannaflans sem fór í ESB-aðlögunarviðræðurnar. Samskiptin við Bandaríkin stórefld af okkur, bæði á sviði varnarmála og utanríkisviðskipta, m.a. í formi tíðra heimsókna til Bandaríkjanna og funda með ráðamönnum. Í fyrsta sinn var formlegu tvíhliða viðskiptasamráði komið á við Bandaríkin. Sömu sögu má segja um Asíu, m.a. með viðskiptasamráði við Japan. Tengslin við Bretland voru sömuleiðis efld til muna, svo að dæmi séu nefnd.
Það er jákvætt að stjórnvöld hafi loksins vaknað til lífsins og að forsætisráðherra hafi loksins, loksins tjáð sig um þá gríðarlegu hagsmuni sem eru undir fyrir Íslendinga. Ég hvet ríkisstjórnina til að einbeita sér að þeim áskorunum sem Íslendingar standa frammi fyrir í dag og gleyma sér ekki í framtíðardraumum um ESB.
Gætum hagsmuna okkar, það gerir enginn annar; síst af öllu þeir sem nú sjá tækifæri til að ná stórfelldum efnahagslegum ítökum á Íslandi.