Til varnar störfum á Vesturlandi

7. ágúst 2025

'}}

Ólafur Adolfsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Nú lítur út fyrir að innan fárra vikna verða lagðir tollar á kísiljárn á evrópskum mörkuðum, sem mun ná til Íslands og Noregs þrátt fyrir að löndin séu aðilar að EES-samningnum. Þetta er áfall fyrir atvinnulífið á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit og sérstaklega fyrir starfsfólk Elkem.

Fyrirtækið er einn af burðarásum atvinnulífsins í sveitarfélögunum en þar starfa á þriðja hundrað starfsmanna. Ef talin eru með störf í þjónustu- og stoðgreinum eru líklega á fjórða hundrað fjölskyldur í samfélaginu sem byggja afkomu sína á tekjum frá fyrirtækinu og reiða sig á þær til að tryggja lífsviðurværi sitt.

Elkem hefur í hartnær fimm áratugi verið lykilfyrirtæki á Grundartanga og er hluti af öflugum kjarna iðnfyrirtækja sem þar starfa. Fyrirtækið gegnir einnig lykilhlutverki í nýsköpun, ekki síst í verkefnum sem tengjast nýtingu glatvarma til aukinnar verðmætasköpunar og orkuskipta. Við getum ekki horft aðgerðalaus á að framtíð þessarar kjarnastarfsemi verði sett í uppnám vegna ákvarðana sem teknar eru utan landsteinanna.

Krefjumst svara og aðgerða

Sem fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis hef ég boðað þingmenn kjördæmisins til fundar við utanríkisráðherra í dag, fimmtudag, til að ræða þá alvarlegu stöðu sem nú er uppi.

Á fundinum munum við óska eftir að ráðherrann skýri stöðuna og næstu skref í samskiptum við Evrópusambandið.

Við viljum fá skýr svör um þær sviðsmyndir sem liggja til grundvallar hagsmunagæslu Íslands í þessu máli og tryggja að ljóst sé hvernig brugðist verði við ef tollarnir verða að veruleika.

Snertir framtíð fjölmargra fjölskyldna

Hér er um grafalvarlegt mál að ræða sem snertir kjarnann í atvinnulífi á Vesturlandi. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að tollar verði lagðir á kísiljárn frá Íslandi, þar sem slíkt gæti haft alvarlegar og ófyrirséðar afleiðingar fyrir þessi störf og framtíð fjölmargra fjölskyldna sem byggja afkomu sína á starfsemi Elkem.

Við þingmenn Norðvesturkjördæmis stöndum einhuga í þessu máli, fyrir fólkið, fjölskyldurnar og samfélagið á Vesturlandi.

Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að verja þessi störf og tryggja áframhaldandi þróttmikla starfsemi Elkem á Grundartanga.