Það eru ekki fordæmalausir tímar

7. ágúst 2025

'}}

Jens Garðar Helgason, varaformaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Árið 1944 voru Evrópa og Asía rústir einar eftir heimsstyrjöld sem þó var ekki lokið. Á þeim tímapunkti ákvað 145 þúsund manna fátæk þjóð að lýsa yfir sjálfstæði frá Dönum. Ári seinna var kjarnorkusprengjum varpað á tvær borgir í Japan. Áratugina á eftir, undir forystu stjórnmálamanna sem höfðu framtíðarsýn fyrir hagsmunum Íslands, tókum við slaginn við eina af stórþjóðum Evrópu um stækkun landhelginnar, sem lauk með fullnaðarsigri Íslands fyrir um hálfri öld. Við getum verið þakklát fyrir að hafa átt stjórnmálamenn sem settu hagsmuni Íslands í fyrsta sæti.

Við erum stofnaðilar að NATO og í 74 ár höfum við verið með varnarsamning við stærsta og öflugasta herveldi mannkynssögunnar. Engin önnur varnarbandalög eða samningar geta komið í staðinn fyrir það samkomulag. Í rúma þrjá áratugi höfum við tryggt viðskiptalega hagsmuni Íslendinga með EES-samningnum, án þess þó að gefa eftir fullveldi eða sjálfstæði þjóðarinnar. Staða Íslands gagnvart alþjóðasamfélaginu er góð. Því er það hálf ankannalegt, þegar litið er á söguna, að hlusta á forystufólk ríkisstjórnarinnar tala um að nú séu uppi fordæmalausir tímar og á þeim forsendum eigi að fara í frekara varnarsamstarf við Evrópusambandið með það endamarkmið að ganga í sambandið.

Evrópa glímir við risavaxin vandamál heima fyrir. Aflvél álfunnar, Þýskaland, er í efnahagslegri niðursveiflu sem sér ekki fyrir endann á. Frakkland er skuldum vafið og Ítalía er búin að vera í efnahagskrísu í langan tíma. Atvinnuleysi ungs fólks er viðvarandi vandamál í Evrópusambandinu og er í kringum 15% að meðaltali, en er í sumum löndum sambandsins 25-30%. Draghi-skýrslan sem kom út síðastliðið ár dregur upp dökka mynd af stöðu Evrópusambandsins. Yfirhlaðið regluverk og skriffinnska hafa orðið til þess að atvinnulífið og nýsköpun í sambandinu hafa orðið undir í alþjóðlegri samkeppni. Frumkvöðlar og nýsköpunarfyrirtæki leita út fyrir Evrópu til að byggja upp ný fyrirtæki á sviði gervigreindar og í öðrum hugverkaiðnaði vegna þunglamalegs regluverks og skattaumhverfis. Þetta eru bara nokkrar af þeim áskorunum sem blasa við Evrópusambandinu og á þá eftir að nefna stöðu innflytjenda og stríðsrekstur.

Á þessum forsendum þarf að ræða hvort Íslendingar vilji halda áfram aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið, því það er ekkert sem heitir að „kíkja í pakkann“. Þetta er áframhald að aðlögun, ekki aðildarviðræður. Það er ábyrgðarhluti að stjórnmálamenn hræði ekki þjóð sína til að afsala sér fullveldi þjóðarinnar, sem við sóttum með áræði og framtíðarsýn, vegna þess að það eru „fordæmalausir tímar“. Við sem trúum, að hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið utan sambandsins hræðumst ekki umræðuna um hvað sé best fyrir Ísland.