Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Öll viljum við búa við heilbrigðan húsnæðismarkað þar sem fólk getur eignast íbúð án þess að hneppa sig í skuldafjötra um margra áratuga skeið. Húsnæðismarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er hins vegar afar óhagstæður ungu fólki, hvort sem það hyggst kaupa eða leigja íbúð. Helsta orsök þessa ástands er sú húsnæðisstefna, sem rekin hefur verið í Reykjavík undir forystu Samfylkingarinnar og annarra vinstri flokka.
Íbúðakaup eru á fárra færi
Einungis tekjuhæsti fimmtungur einstaklinga getur fengið húsnæðislán fyrir nýrri íbúð á höfuðborgarsvæðinu miðað við kröfur Seðlabankans um hámarksgreiðslubyrði. Er miðað við að íbúðin kosti sextíu milljónir króna eða meira og 80% veðsetningarhlutfall.
Allt að 80% einstaklinga stæðist hins vegar ekki greiðslumat vegna kaupa á nýrri íbúð en ásett verð á flestum þeirra er nú 60-90 milljónir króna. Afar lítið framboð er af nýjum íbúðum, sem verðlagðar eru undir sextíu milljónum króna.
Ljóst er að flestir húsnæðiskaupendur þurfa að reiða sig á verðtryggingu íbúðalána sinna til að eiga möguleika á að kaupa nýjar íbúðir, sökum hárra vaxta og þröngra lánþegaskilyrða. Án verðtryggingar eru möguleikar til kaupa á nýjum íbúðum mjög takmarkaðir.
Þetta kemur fram í nýlegri greiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á framboði nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu og greiðslugetu eftir tekjuhópum.
Slæm húsnæðisstefna
Húsnæðisstefna Samfylkingarinnar og samstarfsflokka hennar hefur verið ráðandi í Reykjavík frá því um aldamót. Þessi stefna hefur stuðlað að stórhækkun húsnæðisverðs með ýmsum ráðum: með lóðaskortstefnu, lóðauppboði, flóknari stjórnsýslu, upptöku hárra innviðagjalda og hækkun annarra gjalda, nú síðast mikilli hækkun gatnagerðargjalda. Allar þessar aðgerðir hafa knúið fram stórfelldar hækkanir á húsnæðisverði í Reykjavík, sem ekki sér fyrir endann á.
Uppbygging íbúða í borginni hefur að mestu takmarkast við dýr og þröng þéttingarsvæði á undanförnum árum. Íbúðir þar eru dýrar og varla á færi fólks með meðaltekjur, hvað þá efnalítils fólks.
Auk þess að stórhækka húsnæðisverð, hefur þessi stefna gefið fjársterkum aðilum kost á að sanka að sér byggingarlóðum og selja þær síðan til almennings á uppsprengdu verði. Slík stefna felur í sér þjónkun við fjársterka aðila og stórfyrirtæki, sem hagnast um hundruð milljarða króna vegna húsnæðisstefnu vinstri flokkanna. Venjulegt launafólk greiðir þennan hagnað, hvort sem það ræðst í að kaupa eða leigja íbúð.
Hamingja ungs fólks
Fjallað er um alþjóðlegar mælingar á hamingju ungs fólks í góðri fréttaskýringu Ásgeirs Ingvarssonar í Morgunblaðinu 30. júlí sl. Á Vesturlöndum hefur dregið verulega úr hamingju ungs fólks og virðist það vera óhamingjusamast í þeim löndum þar sem húsnæðisverð hefur hækkað hraðast og mest. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að á undanförnum árum hefur hækkun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu verið með því mesta sem þekkist hjá OECD-ríkjunum.
Orsakatengsl á milli hamingju og húsnæðisverðs eru augljós. Þar sem húsnæði er dýrt, kostar meira að vera til og minna er þá afgangs til að leyfa sér eitthvað og njóta lífsins lystisemda. Að eiga fasteign fylgir fjárhagslegt öryggi og stöðugleiki sem stuðlar að lífshamingju. Margt ungt fólk kýs t.d. að fresta barneignum þar til það hefur náð að festa kaup á íbúð. Það er því allra hagur að sem flestum verði gefinn kostur á að eignast íbúð sem fyrst á lífsleiðinni. Þar bera sveitarfélög mikla ábyrgð enda fara þau með skipulagsvaldið.
Stórauka verður lóðaframboð
Húsnæðisskorturinn á höfuðborgarsvæðinu er í eðli sínu framboðsvandi, sem verður ekki leystur með áframhaldandi lóðaskorti og miðstýringu. Best er að leysa þennan vanda með stórauknu lóðaframboði eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa margoft lagt til. Hægt er að úthluta þúsundum lóða í Úlfarsárdal, Keldnalandi og á Kjalarnesi með skömmum fyrirvara. Einnig þarf að hefja undirbúning að íbúabyggð á Geldinganesi. Þannig væri unnt að svara mikilli eftirspurn og lækka húsnæðisverð til almennings. Rjúfa verður þann vítahring vinstri stefnu, sem nú umlykur húsnæðismál í Reykjavík.