Brussel-dans og hagsmunagæslan lamast

7. ágúst 2025

'}}

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Fréttir af samskiptum íslenskra stjórnvalda við Evrópusambandið vekja furðu en eru um leið áhyggjuefni. Það skal dregið í efa að nokkur önnur ríkisstjórn hafi staðið jafn illa að hagsmunagæslu okkar Íslendinga og vinstri stjórn Kristrúnar Frostadóttur. Kannski var ekki von á öðru þegar þær stöllur Kristrún og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætla leynt og ljós að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Og ef nauðsynlegt er þá verða bakdyrnar notaðar, líkt og viljayfirlýsingar um að samræma utanríkisstefnu Íslands að ESB og samstarf á sviði sjávarútvegsmála, bera vitni um.

Utanríkisráðherra hefur ekki komið hreint fram í samskiptum sínum við utanríkismálanefnd og haldið mikilvægum upplýsingum frá nefndinni – sem ráðherra ber þó lögum samkvæmt að hafa náið samráð við. Slíkt er alvarlegt svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Nauðsynlegt er að ráðherrann geri strax hreint fyrir sínum dyrum. Trúnaður og traust er í húfi. Annars á ráðherrann ekki annan kost en að víkja úr embætti.

Evrópusambandið hótar að leggja á sérstaka verndartolla á járnblendi og kísiljárn frá Noregi og Íslandi. Slíkir tollar ganga gegn tilgangi og markmiðum Evrópska efnahagssvæðisins. Það voru norskir fjölmiðlar sem upplýstu um hótunina, ekki valkyrjur ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra þögðu þunnu hljóði og töldu enga ástæðu til að upplýsa þing eða þjóð. Þrátt fyrir mikla hagsmuni fyrir okkur Íslendinga taka flestir fjölmiðlar með ríkismiðilinn fremstan þátt í þagnarbindindi ríkisstjórnarinnar. Meðvirknin með ríkisstjórninni verður vart meiri. En hvað gengur ESB til með þessu útspili sínu gagnvart EFTA-löndunum og þeim samningi sem hefur verið í gildi í áratugi? Það hefur öllum verið lengi ljóst að Evrópusambandið sækist eftir því að fá Ísland og Noreg inn í sambandið. Lönd sem í öllum samanburði eru vel sett og auk þess mjög rík af náttúrulegum auðlindum, ólíkt flestum öðrum löndum ESB. Það er því auðsótt að fá önnur lönd sambandsins til að samþykkja aðild þessara landa að sambandinu.

EES-samningurinn er mörgum aðildarríkjum EU þyrnir í augum. Þeim finnst að við njótum of mikils fyrir of lítið. Þau vilja fá hlut í auðlindum okkar og það gerist gangi Ísland inn í ESB sem hefur staðfest rækilega að það er stærsta tollabandalag heims.

Fyrir okkur Íslendinga er sjávarútvegurinn augljóslega alvarlegasta og mikilvægasta málið. Því hefur oft ranglega verið haldið fram að við gætum notið einhverra sérkjara þegar að þeim mikilvæga málaflokki kemur. Svarið í því fékkst í sneypuför Jóhönnu-stjórnarinnar. Það er fróðlegt fyrir alla að lesa bók Össurar Skarphéðinssonar, „Ár drekans“, þar sem hann lýsir ágætlega þeim erfiðleikum sem við blöstu og þeim hrossakaupum sem áttu sér stað milli Samfylkingar og VG á þeim tíma. Hrossakaupum sem m.a. höfðu þær alvarlegu afleiðingar sem við stöndum frammi fyrir í dag í orkumálum. Samfylkingin seldi hagsmuni þjóðarinnar fyrir áframhaldandi viðræður.

Nú sýnist mér ESB vera að sýna klærnar, vilja komast bakdyramegin að auðlindum íslensku og norsku þjóðarinnar. Framganga forsætisráðherra og utanríkisráðherra síðustu vikur undirstrikar að bæði Viðreisn og Samfylking eru tilbúin í (hruna-)dansinn við Evrópusambandið. Flokkur fólksins er viljalaust verkfæri.

Ríkisstjórnarflokkarnir eru tilbúnir til að fórna meiri hagsmunum fyrir minni til að langþráður draumur Viðreisnar og Samfylkingar rætist. Þess vegna voru viðkvæm mál eins og verndartollar ekki rædd þegar Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, var hér í heimsókn. Þess í stað var rætt um samstarf í varnarmálum án þess að nokkur átti sig á því hvernig það samrýmist og samþættist þátttöku Íslands í NATÓ eða varnarsamningnum við Bandaríkin.

Draumurinn um aðild að Evrópusambandinu lamar forystu ríkisstjórnarinnar við að gæta hagsmuna Íslands. Embættismenn í Brussel hafa tekið forystu og leggja línurnar í samskiptum Íslands og ESB. Eftir þeirri línu ætla Kristrún og Þorgerður Katrín að dansa.