Gott er heilum vagni heim að aka

2. ágúst 2025

'}}

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykavík:

Umferðarslys valda Íslendingum ómældum andlegum og líkamlegum þjáningum og kosta auk þess gífurlegt fé Áætlað er að kostnaður við umferðarslys hafi numið rúmlega 83 milljörðum króna á árinu 2024 að því er fram kemur í skýrslu Samgöngustofu um umferðarslys á því ári.

Sjö manns hafa farist í banaslysum í umferðinni það sem af er árinu 2025 og tugir hafa slasast alvarlega.

Þrettán manns létust í tíu banaslysum í umferðinni árið 2024. Þar af biðu þrír bana á höfuðborgarsvæðinu en tíu á landsbyggðinni.

Síðastliðin tíu ár (2015-2024) lést 121 maður í umferðarslysum hérlendis og 1.947 slösuðust alvarlega samkvæmt áðurnefndri skýrslu.

Fjöldi alvarlegra umferðarslysa á Íslandi er óviðunandi og grípa verður til aðgerða til að fækka þeim. Góðu fréttirnar eru þær að margt er hægt að gera til að auka umferðaröryggi og fækka þannig slysum. Árangursríkast er að ráðast að rótum vandans með því að ráðast í úrbætur á þeim stöðum, þar sem flest slys verða. En þá verður líka að hafa umferðaröryggi í fyrirrúmi við úthlutun vegafjár, en ekki kjördæmapot. Framkvæmdir sem fækka slysum ættu ávallt að vera í forgangi.

Hættulegustu gatnamót landsins

Flest umferðarslys og -óhöpp verða á fjölförnum gatnamótum í þéttbýli. Eftirtalin þrjú gatnamót eru hættulegustu gatnamót landsins miðað við slysatölur sl. fimm ára:

·      Gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar. Þar urðu 222 slys og óhöpp á árunum 2020-2024, þar af 19 með meiðslum.

·      Gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Þar urðu 173 óhöpp og slys á tímabilinu, þar af 22 með meiðslum.

·      Gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar. Þar urðu 110 slys og óhöpp á tímabilinu, þar af fjórtán með meiðslum.

Hægt er að fækka umferðarslysum til mikilla muna á þessum gatnamótum með því að gera þau mislæg. Slíkar mislægar lausnir hafa margsannað gildi sitt á ýmsum fjölförnum gatnamótum þar sem þær hafa stórfækkað slysum, greitt fyrir umferð og dregið úr mengun. Óskiljanlegt er að Samfylkingin og aðrir vinstri flokkar í meirihluta borgarstjórnar skuli berjast gegn slíkum úrbótum á hættulegustu stöðunum í umferðinni.

Önnur góð leið til að fækka alvarlegum umferðarslysum er að breikka umferðarþunga þjóðvegi í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og aðskilja þannig akreinar. Margt hefur áunnist í þessum efnum en betur má ef duga skal. Þannig er brýnt að ljúka sem fyrst breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes, þ.e. frá Grundarhverfi að Hvalfjarðargöngum.

Ágúst er að jafnaði slysamesti mánuðurinn í umferðinni. Ekki er úr vegi að rifja upp helstu orsakir alvarlegra umferðarslysa fyrir mestu ferðahelgi ársins. Slík slys má langoftast rekja til mannlegra mistaka eða áhættuhegðunar ökumanna:

Helstu orsakir umferðarslysa

·      Hraðakstur.

·      Bílbelti ekki notuð.

·      Ölvunarakstur.

·      Sími notaður við akstur.

·      Svefn og þreyta.

·      Reynsluleysi ökumanns.

·      Forgangur ekki virtur.

·      Hætta á vegi og/eða í umhverfi.

Vitað er að margir ökumenn og farþegar hefðu lifað af slys, hefðu þeir verið í bílbeltum. Þau dæmi eru sorglega mörg þar sem ökutækið sjálft stendur af sér harðan árekstur eða veltu, en fólk kastast út og bíður bana eða stórslasast vegna áverka þegar það lendir á jörðinni eða þegar bíllinn veltur yfir það. Því er mjög mikilvægt að allir noti bílbeltin.

Ökum varlega

Ökumenn er hvattir til að sýna aðgát vegna vegaviðgerða, sem nú fara fram víða um land. Einnig þarf að sýna sérstaka varúð þegar ekið er inn á malarveg af malbiki eða bundnu slitlagi. Þá er mikilvægt að hægja á bifreiðum þegar þær mætast á malarvegi vegna grjótkasts og rykmengunar. Af sömu ástæðu er brýnt að ökumenn hægi á bílum sínum þegar ekið er fram hjá gangandi eða hjólandi vegfarendum á malarvegum.

Um leið og ökumönnum er óskað velfarnaðar í umferðinni er minnt á ellefu hundruð ára gamalt spakmæli Skallagríms Kveldúlfssonar, sem er í fyrirsögn þessarar greinar. Það er enn í fullu gildi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. ágúst 2025.