Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Yfirstandandi eldgos við Sundhnúkagíga er hið tólfta á Reykjanesskaga á rúmum fjórum árum. Gosin hafa verið ólík og hefur hvert þeirra komið á óvart með einhverjum hætti. Þótt nýjasta gosið sé ekki stórt, hefur það þó valdið verulegri loftmengun á Suðvesturlandi, bæði vegna gosmóðu og gosmengunar.
Nýjasta gostímabil á Reykjanesskaga gæti staðið öldum saman. Frekari eldgos eru líkleg á næstu árum og áratugum. Framvindan sýnir að ómögulegt er að segja til um hvar og hvenær þau eldsumbrot verða.
Nú gýs suðaustan við Litla-Skógfell en í byrjun apríl gaus rétt norðan Grindavíkur. Þá var talið að kvikugangurinn væri hátt í tuttugu kílómetra langur og hann næði langleiðina norðaustur að Kúagerði og hugsanlegu flugvallarstæði í Hvassahrauni (Afstapahrauni). Um tíma var gos á norðausturhluta kvikugangsins raunhæfur möguleiki en þaðan eru aðeins um þrír kílómetrar að umræddu flugvallarstæði, sem og að Reykjanesbraut. Í því sambandi þarf að hafa í huga að í fyrra náði hraun frá eldgosum við Sundhnúkagíga að renna allt að sex kílómetra vegalengd á nokkrum klukkustundum.
Fráleitt flugvallarstæði
Það væri feigðarflan að ráðast í lagningu flugvallar í Hvassahrauni, örskammt frá virku eldstöðvakerfi eins og jarðvísindamenn benda á. Þótt ekki gysi á sjálfum flugvellinum, gætu eldsumbrot í nágrenni gert hann ónothæfan um lengri eða skemmri tíma. Til dæmis vegna hraunrennslis, gasmengunar, gosmóðu og öskufalls.
Í hrinunni hefur þegar gosið í tveimur kerfum: í Fagradalsfjalli og Eldvörpum-Svartsengi. Eldvirkni nær Reykjavík er vel hugsanleg, þ.e. í Krýsuvíkurkerfinu, Brennisteinsfjöllum (Bláfjöllum) og Hengli. Það kallar á endurmat við allt skipulag og innviðauppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar, t.d. varðandi íbúabyggð, vegi og flugvelli.
Við Íslendingar treystum á flugsamgöngur í ríkum mæli. Óhjákvæmilegt er að horfast í augu við þann möguleika að Keflavíkurflugvöllur lokist vegna eldgoss. Við slíkar aðstæður væri afar slæmt ef Reykjavíkurflugvallar nyti ekki lengur við.
Mikilvægi Reykjavíkurflugvallar
Tíð eldsumbrot á Reykjanesskaga hafa aukið mikilvægi Reykjavíkurflugvallar. Þess vegna ber að tryggja starfsemi flugvallarins og sjá til þess að hann geti áfram gegnt hlutverki sínu í þágu innanlandsflugs, sjúkraflugs og björgunarflugs. Jafnframt ber að viðurkenna mikilvægi hans sem varaflugvallar Keflavíkurflugvallar.
Samfylkingin og samstarfsflokkar hennar í borgarstjórn hafa á undanförnum árum lagt sig fram um að þrengja að Reykjavíkurflugvelli og skerða notagildi hans svo unnt sé að leggja hann niður.
Fyrr á árinu var austur-vestur flugbraut flugvallarins lokað í sex vikur þar sem Reykjavíkurborg hafði ekki staðið við skýra samninga um að trjágróðri í Öskjuhlíð skyldi haldið í skefjum í þágu flugöryggis. Þá hefur hvað eftir annað orðið óhæfilegur dráttur á meðferð erinda hjá borginni vegna smávægilegra breytinga á skipulagi flugvallarins í því skyni að auka öryggi hans.
Þessi tregða Reykjavíkurborgar á sér pólitískar skýringar. Vinstri flokkarnir kjósa að þrengja að flugvellinum og gera rekstur hans erfiðari í von um að á endanum neyðist flugmálayfirvöld til að loka honum.
Verður Hvassahrauni haldið til streitu?
Þrátt fyrir hvert eldgosið á fætur öðru nálægt Hvassahrauni vilja vinstri flokkarnir ekki hverfa frá óraunhæfum hugmyndum sínum um uppbyggingu flugvallar þar. Í október sl. lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að Reykjavíkurborg léti af fjármögnun rannsókna og annarri þátttöku vegna Hvassahrauns-flugvallar. Tillagan var felld með atkvæðum þáverandi meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar.
Í umræðum um málið varði Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarfulltrúi, hugmyndina um flugvöll í Hvassahrauni af krafti fyrir hönd meirihlutans. Þá höfðu að vísu aðeins orðið níu gos í nágrenni flugvallarstæðisins en nú eru þau orðin tólf.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. júlí 2025.

