Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Forsætisráðherra tók á dögunum á móti Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Rétt áður hafði forsætisráðherra frestað þingfundum með því að beita svokölluðu „kjarnorkuákvæði“ þingskapalaga, þ.e. 71. greininni. Sú ákvörðun var undirbyggð með óvæntu ávarpi forsætisráðherra í þinginu daginn áður þar sem hún lýsti því yfir að hún hygðist verja „lýðveldið Ísland“ og gaf þannig í skyn að gagnrýni stjórnarandstöðunnar á illa unnið frumvarp væri einhvers konar ógn við þjóðaröryggi. Utanríkisráðherra tók svo undir með því að segja að „orrustan um Ísland“ væri hafin.
Það frumvarp sem kallaði fram þessi viðbrögð ráðherranna uppfyllti ekki gæðaviðmið stjórnarráðsins, byggðist á röngum forsendum og vörpuðu umsagnir ljósi á alvarlega ágalla. Þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust faglegra vinnubragða og eðlilegrar málsmeðferðar fyrir þinginu en stjórnarliðar streittust á móti. Að lokum var 71. grein þingskapa beitt til að stöðva umræðu um stórfellda skattahækkun sem tekur ekki gildi fyrr en 1. nóvember. Hér var augljóslega ekki um neina bráða neyð að ræða.
Samhliða rembdist stjórnarmeirihlutinn eins og rjúpan við staurinn við að sannfæra strandveiðisjómenn um að 48 daga veiði væri forgangsmál. Eins var fötluðum selt að lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna væri í forgangi og svo mætti raunar lengi telja. En staðreyndirnar tala sínu máli. Eina forgangsmál ríkisstjórnarinnar á nýafstöðnu þingi var að hækka skatta á sjávarútveg – og það án þess að gæta að afleiddum áhrifum á byggðirnar í landinu, heimilin og fyrirtækin.
Inn í þetta havarí mætir von der Leyen, gengur til fundar við forsætisráðherra og hyggst ræða varnarsamstarf Íslands við ESB ásamt aðildarumsókn að sambandinu. Forseti framkvæmdastjórnarinnar, sem ræðir reglulega við Selenskí og aðra þjóðarleiðtoga sem óttast raunverulegar árásir á íbúa sína og innviði, hittir fyrir tvær húsmæður af höfuðborgarsvæðinu sem tala um orrustuna um Ísland og telja sig þurfa að verja lýðveldið fyrir stórhættulegum stjórnarandstæðingum.
Undirrituð hefur ásamt öðrum þingmönnum ítrekað óskað eftir skýrslugjöf og samtali við utanríkisráðherra eða forsætisráðherra um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu sökum þeirra viðsjárverðu tíma sem uppi eru í alþjóðasamfélaginu. Ekki hefur verið orðið við þessum beiðnum. Ef til vill er ekki að undra, enda hefur það ekki verið forgangsmál ríkisstjórnarinnar að ræða við þingið. Ráðherrarnir hafa engu að síður verið duglegir að heimsækja erlenda kollega sína með ýmsar yfirlýsingar í farteskinu – yfirlýsingar sem hafa fengið litla sem enga umræðu á Alþingi Íslendinga.
Af ofangreindu má öllum vera ljóst að afstaða stjórnarliða er sú að þjóðkjörnum fulltrúum minnihlutans kemur það ekki við hvað fulltrúar ríkisstjórnar Íslands segja á erlendum vettvangi. Umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu er þessu marki brennd. Virðingin fyrir þinginu er engin. Stjórnarþingmönnum þykir enda mörgum eðlilegt að „kjarnorkuákvæðið“ verði notað mun oftar þegar fram líða stundir. Í þeirra augum er eina hlutverk stjórnarandstöðunnar sem sagt að halda sér saman og þegja þegar verið er að þröngva í gegn umdeildum málum, hvort sem er stórfelldum skattahækkunum eða inngöngu í ESB.
Ríkisstjórn, með tæpan meirihluta atkvæða að baki sér, kýs að stilla eðlilegri og málefnalegri gagnrýni upp sem þjóðarógn. Hún forðast umræðu, beitir valdboði og beitir fyrir sig vígvæddu orðfæri sem gerir lítið úr raunverulegum átökum víða um heim. Það er ekki sterk ríkisstjórn sem hagar sér með þessum hætti heldur sú sem er veik fyrir.
Eitt er ljóst, orrustan um Ísland snýst ekki um átök við ytri óvini. Hún snýst um vilja ríkisstjórnarinnar til að koma Íslandi inn í Evrópusambandið.