Orrustan um Ísland

24. júlí 2025

'}}

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

For­sæt­is­ráðherra tók á dög­un­um á móti Ursulu von der Leyen, for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins. Rétt áður hafði for­sæt­is­ráðherra frestað þing­fund­um með því að beita svo­kölluðu „kjarn­orku­ákvæði“ þing­skap­a­laga, þ.e. 71. grein­inni. Sú ákvörðun var und­ir­byggð með óvæntu ávarpi for­sæt­is­ráðherra í þing­inu dag­inn áður þar sem hún lýsti því yfir að hún hygðist verja „lýðveldið Ísland“ og gaf þannig í skyn að gagn­rýni stjórn­ar­and­stöðunn­ar á illa unnið frum­varp væri ein­hvers kon­ar ógn við þjóðarör­yggi. Ut­an­rík­is­ráðherra tók svo und­ir með því að segja að „orr­ust­an um Ísland“ væri haf­in.

Það frum­varp sem kallaði fram þessi viðbrögð ráðherr­anna upp­fyllti ekki gæðaviðmið stjórn­ar­ráðsins, byggðist á röng­um for­send­um og vörpuðu um­sagn­ir ljósi á al­var­lega ágalla. Þing­menn stjórn­ar­and­stöðunn­ar kröfðust fag­legra vinnu­bragða og eðli­legr­ar málsmeðferðar fyr­ir þing­inu en stjórn­ar­liðar streitt­ust á móti. Að lok­um var 71. grein þing­skapa beitt til að stöðva umræðu um stór­fellda skatta­hækk­un sem tek­ur ekki gildi fyrr en 1. nóv­em­ber. Hér var aug­ljós­lega ekki um neina bráða neyð að ræða.

Sam­hliða rembd­ist stjórn­ar­meiri­hlut­inn eins og rjúp­an við staur­inn við að sann­færa strand­veiðisjó­menn um að 48 daga veiði væri for­gangs­mál. Eins var fötluðum selt að lög­fest­ing samn­ings Sam­einuðu þjóðanna væri í for­gangi og svo mætti raun­ar lengi telja. En staðreynd­irn­ar tala sínu máli. Eina for­gangs­mál rík­is­stjórn­ar­inn­ar á ný­af­stöðnu þingi var að hækka skatta á sjáv­ar­út­veg – og það án þess að gæta að af­leidd­um áhrif­um á byggðirn­ar í land­inu, heim­il­in og fyr­ir­tæk­in.

Inn í þetta havarí mæt­ir von der Leyen, geng­ur til fund­ar við for­sæt­is­ráðherra og hyggst ræða varn­ar­sam­starf Íslands við ESB ásamt aðild­ar­um­sókn að sam­band­inu. For­seti fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar, sem ræðir reglu­lega við Selenskí og aðra þjóðarleiðtoga sem ótt­ast raun­veru­leg­ar árás­ir á íbúa sína og innviði, hitt­ir fyr­ir tvær hús­mæður af höfuðborg­ar­svæðinu sem tala um orr­ust­una um Ísland og telja sig þurfa að verja lýðveldið fyr­ir stór­hættu­leg­um stjórn­ar­and­stæðing­um.

Und­ir­rituð hef­ur ásamt öðrum þing­mönn­um ít­rekað óskað eft­ir skýrslu­gjöf og sam­tali við ut­an­rík­is­ráðherra eða for­sæt­is­ráðherra um stöðu Íslands í alþjóðasam­fé­lag­inu sök­um þeirra viðsjár­verðu tíma sem uppi eru í alþjóðasam­fé­lag­inu. Ekki hef­ur verið orðið við þess­um beiðnum. Ef til vill er ekki að undra, enda hef­ur það ekki verið for­gangs­mál rík­is­stjórn­ar­inn­ar að ræða við þingið. Ráðherr­arn­ir hafa engu að síður verið dug­leg­ir að heim­sækja er­lenda koll­ega sína með ýms­ar yf­ir­lýs­ing­ar í fartesk­inu – yf­ir­lýs­ing­ar sem hafa fengið litla sem enga umræðu á Alþingi Íslend­inga.

Af of­an­greindu má öll­um vera ljóst að afstaða stjórn­ar­liða er sú að þjóðkjörn­um full­trú­um minni­hlut­ans kem­ur það ekki við hvað full­trú­ar rík­is­stjórn­ar Íslands segja á er­lend­um vett­vangi. Umræðan um aðild Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu er þessu marki brennd. Virðing­in fyr­ir þing­inu er eng­in. Stjórn­arþing­mönn­um þykir enda mörg­um eðli­legt að „kjarn­orku­ákvæðið“ verði notað mun oft­ar þegar fram líða stund­ir. Í þeirra aug­um er eina hlut­verk stjórn­ar­and­stöðunn­ar sem sagt að halda sér sam­an og þegja þegar verið er að þröngva í gegn um­deild­um mál­um, hvort sem er stór­felld­um skatta­hækk­un­um eða inn­göngu í ESB.

Rík­is­stjórn, með tæp­an meiri­hluta at­kvæða að baki sér, kýs að stilla eðli­legri og mál­efna­legri gagn­rýni upp sem þjóðarógn. Hún forðast umræðu, beit­ir vald­boði og beit­ir fyr­ir sig víg­væddu orðfæri sem ger­ir lítið úr raun­veru­leg­um átök­um víða um heim. Það er ekki sterk rík­is­stjórn sem hag­ar sér með þess­um hætti held­ur sú sem er veik fyr­ir.

Eitt er ljóst, orr­ust­an um Ísland snýst ekki um átök við ytri óvini. Hún snýst um vilja rík­is­stjórn­ar­inn­ar til að koma Íslandi inn í Evr­ópu­sam­bandið.