Vilhjálmur Árnason, þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins.
Þinglok sumarsins 2025 marka söguleg tímamót, enda í fyrsta sinn í 66 ár sem forsætisráðherra tekst ekki að ljúka þingstörfum með samkomulagi. Í stað þess að leita sátta, eins og hefð er fyrir í íslenskum stjórnmálum, var gripið til þess ráðs að virkja kjarnorkuákvæði þingskapa til að knýja í gegn skattahækkun. Sú aðgerð var ekki aðeins umdeild, heldur afhjúpaði þá staðreynd að forsætisráðherra réð ekki við verkefnið.
Staðan sem skapaðist er ekki eðlileg afleiðing málefnalegrar atburðarásar, heldur úthugsað pólitískt leikrit. Daginn áður en forseti þingsins beitti kjarnorkuákvæðinu lýsti forsætisráðherra því yfir að hún hygðist „verja lýðveldið Ísland“ og setti þannig á svið tilfinningalegt neyðarástand til að réttlæta valdbeitingu. Í því leikriti var stjórnarandstöðunni úthlutað hlutverki skúrksins, ekki vegna gjörða hennar, heldur til að réttlæta ráðagerðir ríkisstjórnarinnar.
Í kjölfar beitingar kjarnorkuákvæðisins var skálað, sungið og dansað. Stjórnarliðar voru sigurreifir, töluðu digurbarkalega og töldu sig ósigrandi. En dramb er falli næst. Forsætisráðherra var ófær um að höggva á hnútinn og forseti Alþingis neyddist til að slökkva á tónlistinni og kveikja ljósin. Þynnkan læddist aftan að þeim og blákaldur veruleikinn blasti við ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur.
Ríkisstjórnin stendur eftir tómhent
Í dag eru stjórnarliðar augljóslega litlir í sér, enda valdi ríkisstjórnin að bakka með öll málin sem þau höfðu sjálf lagt þunga áherslu á. Í stað þess að semja um afgreiðslu mála eyddi ríkisstjórnin öllu pólitíska kapítalinu í eitt mál. Þingið sigldi í strand og fjölmörg mikilvæg mál fengu ekki afgreiðslu. Var það kannski með ráðum gert og vilji ákveðinna stjórnarflokka að tiltekin mál myndu ekki klárast?
Afleiðingar kjarnorkuákvæðisins létu ekki á sér standa. Af þeim 95 málum sem ríkisstjórnin lagði fram á þessu þingi voru aðeins 43 afgreidd. Stór hluti þeirra voru formsatriði, EES-gerðir eða endurflutt mál. Ríkisstjórnin fórnaði öllum sínum málum fyrir eitt og stendur nú eftir tómhent – send heim í sumarfrí af þingforseta.
Forðast ábyrgð á eigin klúðri
Undanfarnar vikur hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar og þingmenn stjórnarmeirihlutans skellt skuldinni á stjórnarandstöðuna. Fullyrt hefur verið að málþóf hafi staðið í vegi fyrir framgangi mikilvægra mála og að lýðræðislega kjörin stjórnarandstaða ógni lýðræðinu, jafnvel lýðveldinu sjálfu, með því að sinna skyldum sínum. Slíkar ásakanir eru ekki aðeins úr takti við staðreyndir heldur endurspegla tilhneigingu ríkisstjórnarinnar til að forðast ábyrgð á eigin klúðri.
Það er óumdeild staðreynd að það er ríkisstjórnin sem fer með óskorað dagskrárvald á Alþingi. Hún ákveður hvaða mál eru tekin til umfjöllunar, í hvaða röð og í hvaða forgangi. Fjölmörg þeirra mála sem ríkisstjórnin segir að sitji eftir vegna málþófs stjórnarandstöðunnar voru í raun aldrei sett í forgang.
Eitt slíkt mál, frumvarp um strandveiðar, var til dæmis ekki lagt fram á þingi fyrr en 28. maí, tveimur mánuðum eftir að lögbundinn frestur rann út. Málið var ekki afgreitt úr nefnd fyrr en í lok júní og ekki sett á dagskrá fyrr en tveimur vikum síðar eða 8. júlí. Sama er upp á teningnum hvað varðar önnur mál, þar á meðal rammaáætlun og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ef vilji hefði verið fyrir hendi hefðu stjórnarflokkarnir lagt raunverulega áherslu á þessi mál og forgangsraðað þeim á dagskrá þingfunda. Þar hefðu þinglokasamningar einnig getað hjálpað til.
Álitsgjafar verða að styðjast við staðreyndir
Einstaka álitsgjafar í fjölmiðlum hafa haldið því fram að kjarnorkuákvæði þingskapa eigi rétt á sér við þessar aðstæður og sé nú komið til að vera. Þeir hafa rökstutt það með því að segja málþóf ekki tíðkast í löndum sem við berum okkur saman við. En hér verður að halda staðreyndum til haga. Þeir sem vilja taka þátt í málefnalegri umræðu um lýðræðisleg vinnubrögð verða að styðjast við staðreyndir og horfa til samanburðarlanda af sanngirni.
Annars staðar á Norðurlöndunum, þar sem minnihlutastjórnir eru algengar, byggist þinghald iðulega á samræðu og pólitískri sáttaumleitan, enda annað ómögulegt. Slík stjórnskipan tryggir í eðli sínu minnihlutavernd og kemur í veg fyrir að þeir flokkar sem fara með völdin geti gengið fram með valdboði einu. Þar eru mál rædd til þrautar og jafnan samþykkt í víðtækri sátt.
Uppsker eins og hún sáir
Það kann svo að vera að kjarnorkuákvæðið sé sannarlega komið til að vera, enda hefur Kristrún Frostadóttir nú skapað fordæmi sem aðrir geta vísað til. En hver sá sem telur að unnt sé að beita slíku valdi án afleiðinga ætti jafnframt að hafa í huga að sú sem leiddi þessa ákvörðun til lykta gæti einn daginn þurft að horfast í augu við afleiðingarnar og það fordæmi sem hún sjálf skapaði.
Traust er einn dýrmætasti gjaldmiðill málamiðlana. Það tekur langan tíma að byggja það upp, en aðeins augnablik að glata því. Með því að beita kjarnorkuákvæðinu vegna pólitísks ágreinings um skattahækkun – en ekki vegna neyðar – glataði forsætisráðherra trausti stjórnarandstöðunnar á Alþingi, sem mun án efa taka tíma að endurheimta. Það er ekki ákjósanlegt veganesti fyrir forsætisráherra, sem er aðeins rétt að hefja kjörtímabilið.