Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:
Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar fer enn versnandi samkvæmt nýbirtu þriggja mánaða rekstraruppgjöri borgarsjóðs (A-hluta). Uppgjörið sýnir slæman rekstur og að glórulausri skuldasöfnun linnir ekki þrátt fyrir vaxandi tekjur.
Borgarsjóður var rekinn með 5.435 milljóna króna tapi á fyrstu þremur mánuðum ársins, janúar til mars. Er það rúmlega tveggja milljarða króna lakari niðurstaða en á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs og tæplega eins milljarðs króna lakari niðurstaða en ráðgert var samkvæmt fjárhagsáætlun.
Þessi niðurstaða er slæm, ekki síst þegar haft er í huga að rekstrartekjur borgarinnar hækkuðu um rúma þrjá milljarða á milli ára. Þar af hækkuðu útsvarstekjur um 2,5 milljarða.
Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir var neikvæð um 592 milljónir króna, sem er um 2.200 milljóna króna lakari niðurstaða en á sama tímabili í fyrra og 1.200 milljóna lakari niðurstaða en samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun.
Sligandi skuldir
Þróun skulda borgarsjóðs gefur að mörgu leyti skýrari mynd af rekstrinum en sjálfur rekstrarreikningurinn. Fyrstu þrjá mánuði ársins hækkuðu skuldir borgarsjóðs um 8,3 milljarða króna og námu þær 211,5 milljörðum í lok tímabilsins. Samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að skuldir borgarsjóðs hækki um 11,7 milljarða króna á árinu öllu og nemi 218,5 milljörðum í lok þess. Með sama áframhaldi verða þær þó mun hærri en ráðgert var samkvæmt áætlun.
Borgarsjóður greiddi 2.403 milljónir króna í fjármagnsgjöld fyrstu þrjá mánuði ársins.
Undarleg tekjufærsla
Óvænt breyting á gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga vakti athygli þegar ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024 var lagður fram í maí sl. Þá var lífeyrisskuldbinding A-hluta lækkuð verulega á milli ára, sem skilaði tekjufærslu í borgarsjóð að fjárhæð 847 milljónum króna. Þessi færsla kom mörgum á óvart enda var almennt talið að væntar launahækkanir myndu hafa í för með sér veruleg áhrif til hækkunar en ekki lækkunar á lífeyrisskuldbindingum.
Í nýbirtu uppgjöri fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2025 er síðan að finna 2,5 milljarða króna viðbótargjaldfærslu til hækkunar lífeyrisskuldbindinga vegna kostnaðar við kjarasamninga umfram það sem áætlun gerðir ráð fyrir. Spurningar hljóta að vakna um gæði áætlunargerðarinnar enda er áðurnefnd tekjufærsla í ársreikningi 2024 sérkennileg svo ekki sé meira sagt.
Mikill fjárhagsvandi
Ljóst er að meirihluti Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Vinstri grænna og Flokks fólksins hyggst halda áfram að fjármagna taprekstur borgarinnar með glórulausum lántökum. Fjárhagsvandinn verður hins vegar ekki leystur með áframhaldandi útgáfu skuldabréfa í stórum stíl.
Ekkert sveitarfélag getur byggt rekstur sinn á lántökum árum og áratugum saman eins og gerst hefur í Reykjavík undir forystu Samfylkingarinnar. Á tímum hárra vaxta er slík stefna beinlínis hættuleg.
Miklar lántökur ríkis og sveitarfélaga stuðla að háum vöxtum og verðbólgu. Verðbólga hækkaði úr 3,8% í 4,2% í júní og er hún því að nýju komin yfir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands.
Ekki horfir vel með rekstur borgarsjóðs á yfirstandandi ári eins og uppgjör fyrsta ársfjórðungs sýnir. Aldrei hefur verið mikilvægara að borgarstjórn nái saman um aðgerðir til að binda enda á langt tímabil taprekstrar og skuldasöfnunar. Ráðast þarf í víðtækar hagræðingaraðgerðir í rekstri borgarinnar og skapa þannig skilyrði til að lækka álögur á Reykvíkinga. Ólíklegt er þó að sá fimm flokka vinstri meirihluti, sem nú ræður ríkjum í ráðhúsi Reykjavíkur, muni beita sér fyrir slíkum umbótum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. júlí 2025